Umsögn mín um Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið

Innsend á samráðsgátt 29.1.2019

Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið er á margan hátt gagnlegt innlegg í umræðuna um stöðu fjármálakerfisins, þróun þess og hlutverk til framtíðar. Hvítbókin kemur inn á marga þætti og þar á meðal lítillega inn á samfélagsbanka en í þessari umsögn mun ég halda mig við þann eina þátt.

Á bls. 266 í hvítbókinni er stutt greinargerð um samfélagsbanka sem dr. Ásgeir Jónsson prófessor við Háskóla Íslands vann fyrir starfshópinn. Niðurstaða Ásgeirs um samfélagsbanka er þannig:

“Það er því erfitt að sjá hverju það ætti að skila fyrir eiganda eða viðskiptavini Landsbankans að breyta honum í samfélagsbanka/sparisjóð. Í besta falli yrði lítil sem engin breyting á starfsemi bankans, í versta falli væri verið að þvinga hann í úrelt rekstrarlíkan.”

Þessi niðurstaða Dr. Ásgeirs er að mínu mati full neikvæð í garð samfélagsbanka ekki síst í ljósi þess að stór hluti þýska bankakerfisins er með því sniði. Dr. Ásgeir virðist reyndar ekki hafa kynnt sér þýsku sparisjóðina eða þau gögn sem starfshópurinn fékk um þýsku sparisjóðina sem starfa einmitt á samfélagslegum forsendum og eru samanlagt stærsti lánveitandi þýskra fyrirtækja. Til að bæta úr þessu hef ég tekið saman nokkra punkta um þýsku sparisjóðina, hvernig þeir starfa og hvers vegna þeir gætu verið góð fyrirmynd fyrir einn af stóru ríkisbönkunum.

Fjármálakerfið á að þjóna raunhagkerfinu

Fyrst ber að nefna hve mikilvægt það er að meiri hluti fjármálakerfisins sé ávallt helgaður því markmiði að þjóna heimilum og fyrirtækjum landsins með það að leiðarljósi að raunhagkerfið dafni sem best. Eins og dæmin sýna var hægt er að misnota getu viðskiptabanka til peningasköpunar til þess að fjármagna alls kyns spákaupmennsku sem skapar engin ný gæði fyrir samfélagið en getur hinsvegar bakað því mikið tjón. Stjórnvöld þurfa því að móta markvissa stefnu um að fjármálakerfið skuli þjóna fyrst og fremst raunhagkerfinu.

Þýsku sparisjóðirnir draga úr sveiflum

Í hruninu þurftu bankar í flestum löndum að draga úr útlánum sínum og það dýpkaði kreppuna enn frekar. Þýsku sparisjóðirnir gátu hins vegar haldið áfram að veita lán á sínum svæðum því þeir höfðu ekki tekið stórar áhættur erlendis. Rannsókn á áhrifum samfélagsbanka á stöðugleika í útlánum til smárra og meðalstórra fyrirtækja í Þýskalandi sýnir að samfélagsbankar (þýskir sparisjóðir) eru 25% minna útsettir fyrir hagsveiflum en aðrir staðbundnir bankar (samvinnubankar). Samfélagsbankar geta verið mikilvægur þáttur í því að auka stöðugleika í lánakerfinu og þar með í raunhagkerfinu.

Heimild: BUNDESBANK DISCUSSION PAPER NO 39/2015 – Cyclicality of SME Lending and Government Involvement in Banks

Stefna þýsku sparisjóðanna

Stefnan er að tryggja öllum á starfssvæðinu aðgang að bankaþjónustu, óháð efnahag og tryggja að það sé nægilegt framboð af peningum og lánsfé til að fyrirtækin og raunhagkerfið nái að dafna. Sparisjóðir leggja sérstaka áherslu á að þjónusta smá- og meðalstór fyrirtæki sem stóru viðskiptabankarnir sinna ekki eins vel. Sparisjóðirnir hvetja til sparnaðar. Þeir efla samkeppni í bankaþjónustu. Hagnaður af rekstri þeirra rennur til að efla starfsemi sjóðsins en einnig rennur hluti hagnaðar til samfélagsins í formi styrkja til menningar, lista, íþrótta, menntunar ofl. Styrkirnir nema samtals árlega um 500 m EUR.

Sparisjóðirnir eru leiðandi í innlánum og útlánum í Þýskalandi

Eignir þýskra einkabanka eru um EUR 3500 mia en sparisjóðirnir eiga alls EUR 2250 mia. Samvinnubankarnir eru töluvert minni með eignir upp á EUR 1035 mia (meðaltöl ársins 2014). Viðskiptavinir þýsku sparisjóðanna eru um 50 milljónir en íbúar landsins eru um 81 milljónir. Sparisjóðir eru stærstir í lánveitingum til þýskra fyrirtækja og sjálfstætt starfandi (43% markaðshlutdeild). Sparisjóðir eru með 40% af öllum innlánum í Þýskalandi. Meira en helmingur viðskiptavina þýskra banka hafa sinn aðal bankareikning hjá sparisjóði. Meira en helmingur allra nýrra fyrirtækja í Þýskalandi eru með bankaviðskipti sín hjá sparisjóði.

Sparisjóðir skila að jafnaði betri hagnaði og greiða meiri skatt en aðrir bankar samanlagt.

Þrátt fyrir að vera ekki hagnaðardrifnir, skila sparisjóðir hagnaði enda þurfa þeir hagnað til að geta aukið útlán sín. Framleiðni þýskra banka og sparisjóða er almennt góð, en sparisjóðir eru þó leiðandi að þessu leiti. Cost/Income hlutfall sparisjóða er 0.63 en 0.83 hjá einkabönkum (2014). Frá aldamótum greiddu sparisjóðirnir meiri skatta en einkabankar og samvinnubankar til samans eða um EUR 38 milljarða.

Sparisjóðir njóta trausts almennings í Þýskalandi

Sparisjóðirnir njóta mun meira trausts hjá almenningi en einkabankar samkvæmt viðhorfskönnunum. Um 54% aðspurðra segjast bera mikið traust til sparisjóða en aðeins 21% segjast bera mikið traust til einkabanka. Hér á landi er það hlutfall enn lægra.

Umgjörð og stjórn þýskra sparisjóða

Sparisjóðirnir í Þýskalandi eru um 420 talsins og hjá þeim starfa um 300 þúsund manns. Um þýsku sparisjóðina gilda sérstök sparisjóðalög en auk þess fer starfsemi þeirra eftir þeim lögum sem gilda um lánastofnanir almennt. Sparisjóðirnir eru lagalega og fjárhagslega sjálfstæðar sjálfseignarstofnanir. Sparisjóðirnir hafa hvorki eigendur né stofnfjáreigendur og ekki er hægt að selja sparisjóði. Opinber ábyrgðaraðili hvers sparisjóðs er það bæjarfélag (bær, borg eða sveitarfélag) sem hann starfar í. En sparisjóðurinn er þó hvorki eign né skuld hjá viðkomandi ábyrgðaraðila. Íbúar á svæðinu eiga samkv. lögum fulltrúa bæði í stjórn og daglegri framkvæmdastjórn sparisjóðsins. Stjórnin er skipuð til jafns viðskiptavinum, starfsfólki og fulltrúum hins opinbera á svæðinu. Stjórnin ræður framkvæmdastjórn og ákveður laun stjórnenda og tekur ákvarðanir um stefnu og annað sem fellur utan daglegs reksturs. Formennska sjóðsstjórnar er gjarnan í höndum bæjar- eða sveitarstjóra á svæðinu. Stjórnarmenn hafa ekki afskipti af ákvörðunum um útlán enda er daglegur rekstur á ábyrgð og í verkahring framkvæmdastjórnar. Framkvæmdastjórnin er skipuð fagfólki í bankastarfsemi sem stenst kröfur fjármálaeftirlitsins. Sparisjóðir starfa samkvæmt venjulegum viðskiptaháttum en án þess að stefna að hámörkun arðsemi. Engin krafa er um greiðslu arðs, en sé arður greiddur rennur hann til samfélagslegra verkefna á starfssvæði sparisjóðsins.

Sparisjóðir geta veitt viðskiptavinum alla venjulega bankaþjónustu fyrir utan lán til spákaupmennsku. Sparisjóðum er skylt að halda varasjóð sem er hluti af eigin fé þeirra og eykur viðnámsþrótt þegar illa árar. Sparisjóðir starfa eingöngu á sínu svæði og lána aðeins til einstaklinga og fyrirtækja á því svæði. Reglan er innlán frá viðskiptavinum á svæðinu fara til að efla starfsemi sjóðsins á svæðinu. Sparisjóður má hvorki flytja sig milli svæða né breiða starfsemi sína út fyrir svæðið. Sparisjóðir greiða ekki bónusa.

Áhersla sparisjóðs á eitt svæði dýpkar þekkingu stjórnenda hans á staðháttum, efnahag og viðskiptavinum. Afmörkun við svæði setur vaxtarhraða sjóðsins mörk, en hraður vöxtur eykur jafnan áhættu í bankarekstri. Sjóðurinn leitar ekki verkefna út fyrir svæðið þegar illa árar. Hann horfir til langs tíma og tekur þátt í uppbyggingu raunhagkerfisins gegnum hagsveiflur og eykur þannig efnahagslegan stöðugleika. Svæðisáherslan leiðir einnig til þess að sjóðurinn þróar þjónustu sína að þörfum viðskiptavina á því svæði.

Mögulegt að efla samkeppni og auka fjölbreytni á bankamarkaði

Hér eru þrír stórir viðskiptabankar sem skipta með sér 95% af markaði. Við slíkar aðstæður er hætta á að samkeppni milli þeirra sé lítil. Komist stóru bankarnir þrír í hendur eigenda sem stefna að hámörkun arðsemi er hætt við að það geti komið mjög illa niður á heimilum og fyrirtækjum í landinu. Með því að eiga einn stóran samfélagsbanka sem rekinn væri á svipuðum forsendum og þýskur sparisjóður, og setja honum þá stefnu að bjóða góða þjónustu á lágu verði, getur ríkið dregið úr þeim skaða sem fákeppnin myndi annars valda landsmönnum og um leið aukið fjölbreytni.

Meiri stöðugleiki

Reynslan frá Þýskalandi sýnir að samfélagsbankar sem horfa til langs tíma og hlúa að litlum og meðalstórum fyrirtækjum á sínu svæði ná að jafnaði betri árangri í rekstri en áhættusæknari bankar. Banki sem er sjálfur stöðugur í rekstri getur fremur stutt við fyrirtæki þegar illa árar og hann sinnir líka sínu starfssvæði í stað þess að leita ávöxtunar utan þess. Áhættusæknir bankar geta, eins og sagan hefur margsannað, lent í miklum vandræðum. Það er því mikilvægt að hér verði ávallt í framtíðinni að minnsta kosti einn stór banki sem er traustur þegar á móti blæs.

Þurfum ekki að finna upp hjólið

Árið 2016 tók Alþingi á móti hópi þýskra þingmanna. Þeir vissu margt um aðstæður hér og var kunnugt um eignarhald ríkisins á bönkunum. Ásamt öðrum þingmönnum átti ég fund með þýsku sendinefndinni og notaði tækifærið til að spyrja hvort einhver þeirra hefði skoðun á þýsku sparisjóðunum og hvort vert væri að skoða það að gera einn af ríkisbönkunum að samfélagsbanka í anda þýsku sparisjóðanna. Þýsku þingmennirnir sem tilheyrðu ólíkum stjórnmálaflokkum og höfðu ólíkar skoðanir á flestu, tóku margir til máls og reyndust nú allir algerlega sammála. Þeir mæltu eindregið með sparisjóðunum og sögðu meðal annars að þeir væru ein af traustustu undirstöðum þýska hagkerfisins. Þingmennirnir voru boðnir og búnir að greiða götu Alþingis við að kynna sér sparisjóðina nánar. Talsmaður samtaka þýskra sparisjóða hefur einnig boðist til að útvega íslenskum stjórnvöldum allar upplýsingar, hafi þau áhuga á að skoða þennan kost.

Almennur áhugi er á því að Landsbanki verði gerður samfélagsbanka

Nýlega vakti formaður VR máls á því að það væri hagsmunamál almennings að Landsbankanum yrði breytt í samfélagsbanka og fleiri taka í sama streng. Stjórnmálahreyfingar og flokkar, m.a. Framsóknarflokkurinn, hafa áður ályktað með svipuðum hætti. Undirritaður hefur lengi verið talsmaður þess að Landsbankinn verði samfélagsbanki og hefur kynnt þá hugmynd á mörgum fundum og fengið mjög jákvæð viðbrögð. Í október 2016 gerði MMR könnun fyrir Dögun, en þá kváðust tæp 84 pró­sent þeirra sem tóku afstöðu geta hugsað sér að færa banka­við­skipti sín til svo­kall­aðs sam­fé­lags­banka, væri sá mögu­leiki fyrir hendi.

Það er mikilvægt að í þeirri umræðu sem framundan er verði skoðað vandlega hvað megi læra af reynslu þýsku sparisjóðanna og hvort það gæti ekki verið skynsamlegt að breyta Landsbankanum í samfélagsbanka á þeim grunni.

Ég vil einnig nota þetta tækifæri til að taka undir þau sjónarmið og ábendingar sem koma fram í vandaðri umsögn Dr. Ásgeirs Brynjars Torfasonar um sama mál.

Virðingarfyllst

Frosti Sigurjónsson

fv. þingmaður