Þjóðar(vogunar)sjóður?

Bjarni Benediktsson Fjármálaráðherra

Fjármálaráðherra hefur lagt fyrir Alþingi frumvarp um þjóðarsjóð sem fjárfesta skuli arð af auðlindum landsins í erlendum kauphöllum, allt að 300 milljarða. Ríkið geti svo gripið til þjóðarsjóðsins í framtíðinni til að mæta ófyrirséðum áföllum. Við fyrstu skoðun kann þetta að hljóma skynsamlega en þegar betur er gáð vakna spurningar og efasemdir. Hvernig er t.d. hægt að réttlæta að ríkissjóður sem skuldar hundruði milljarða og þar af hundrað milljarða í erlendri mynt fjárfesti í erlendum verðbréfum?

Vilja kjósendur að skuldugur ríkissjóður kaupi erlend verðbréf?

Ríkissjóður skuldar meira en 600 milljarða og um 100 milljarða að auki í erlendri mynt. Þessar skuldir bera árlega tugmilljarða vexti sem leggjast á skattgreiðendur. Að auki hvíla um 600 milljarða lífeyrisskuldbindingar á ríkinu. Það er því enginn skortur á ríkiskuldum sem nauðsynlegt er að grynnka á. Standi valið milli þess að lækka skuldir ríkisins sem bera 4-6% vexti eða þess að kaupa erlend ríkisskuldabréf sem bera 0,5-1% (nema tekin sé veruleg áhætta) virðist öruggast að nota allan afgang sem býðst til þess að lækka skuldir ríkisins. Myndi nokkrum heilvita manni detta í hug að leggja til að ríkið skuldsetti sig til þess að kaupa erlend verðbréf? Vonandi ekki. En frumvarp fjármálaráðherrans hefur þó efnislega sömu áhrif. Verði það að lögum mun ríkið skulda 300 milljörðum meira en ella, í því skyni að kaupa erlend verðbréf.

Hverjir græða á ríkisskuldum?

Þeir sem njóta vaxtagreiðslna af ríkisskuldum eru aðallega lífeyrissjóðir og ýmsir innlendir fjárfestar. Eðlilegt er að ríkissjóður taki lán sé það alveg nauðsynlegt til að fjármagna t.d. stórframkvæmdir í þágu landsmanna eða til þess að fjármagna halla á samdráttarskeiðum. Ríkisskuldabréf eru jafnan eftirsóttur og öruggur fjárfestingakostur en það þýðir þó ekki að fjárfestar eigi tilkall til þess að ríkið steypi sér í skuldir að óþörfu svo þeir geti notið öruggrar ávöxtunar á sitt fé. Ef áform um þjóðarsjóð ganga eftir mun ríkið skulda 300 milljörðum meira en ella og m.v. 5% vexti munu skattgreiðendur þurfa að greiða 15 milljörðum hærri skatta en ella.

Ríkið og lífeyrissjóðir eiga miklar eignir erlendis

Ríkið og lífeyrissjóðir eiga verulega sjóði erlendis sem hægt væri að grípa til ef nauðsyn krefur. Seðlabankinn á skuldlaust 700 milljarða gjaldeyrisforða sem fjárfestur er í öruggum erlendum ríkisskuldabréfum og bankainnstæðum. Lífeyrissjóðir eiga um þúsund milljarða í erlendum verðbréfum. Ríkið á í dag frestaða skattkröfu á lífeyrissjóðina sem nemur líklega meira en 800 milljörðum. Ef upp kæmu ófyrirséð áföll í framtíðinni gæti ríkið t.d. kallað inn hluta af þessari skattkröfu og lífeyrissjóðir selt hluta af erlendum markaðsbréfum sínum til að bregðast við. Það er því ekki brýnt að ríkið setji á fót sérstakan þjóðarsjóð í erlendum verðbréfum til að mæta áföllum í framtíðinni.

Frumvarpið leggur til glannalegar fjárfestingarheimildir

Verði ríkissjóði falið að fjárfesta fyrir hönd skattgreiðenda ættu sjónarmið um seljanleika og takmörkun áhættu að vera í fyrirrúmi fremur en hámörkun ávöxtunar því hún krefst meiri áhættu. Það vekur því furðu hvað ráðherrann ætlar stjórn Þjóðarsjóðsins rúmar og jafnvel glæfralegar heimildir til að hámarka ávöxtun. Í 8. gr. frumvarpsins stendur m.a.: „Við ákvörðun fjárfestingarstefnu skal miða við að hámarka ávöxtun eigna sjóðsins að teknu tilliti til hóflegrar áhættu.“ Ekki er skilgreint nánar hvað telst „hófleg áhætta“ en augljóst er hvað „hámörkun ávöxtunar“ þýðir. Í 9. gr. er sjóðnum heimilað að fjárfesta í mjög fjölbreyttri flóru fjármálagerninga og einnig afleiðum sem þeim tengjast. Það að heimila sjóðnum fjárfestingu í afleiðum án skilyrðis um að það sé aðeins heimilt til að draga úr áhættu er sérstaklega ámælisvert. Í 10. gr. er jafnvel bætt í glannaskapinn því þar stendur: „Sjóðnum er heimilt að lána markaðsverðbréf í eigu sinni til fagfjárfesta honum til tekjuöflunar.“ Slík lán á markaðsverðbréfum eru forsenda skortsölu. Með því að braska þannig með eignir Þjóðarsjóðsins er að sjálfsögðu tekin aukin áhætta. Skortsala er mjög umdeild starfsemi enda skapar hún mjög vafasama hvata á verðbréfamörkuðum.

Eru erlend verðbréf besta forvörn ríkisins við áföllum?

Í greinargerð segir „Með frumvarpinu er ætlunin að komið verði á fót varúðarsjóði, Þjóðarsjóði, til að mæta fátíðum efnahagslegum skakkaföllum sem þjóðarbúið getur orðið fyrir, t.d. vegna vistkerfisbrests eða náttúruhamfara.“ En hvort skyldi nú vera betra þegar náttúruhamfarir dynja yfir að eiga verðbréf í útlöndum eða trausta innviði og búnað hér á Íslandi sem hægt væri að grípa til tafarlaust? Ég hallast að því síðarnefnda enda á ríkið nú þegar ríflega sjóði erlendis bæði beint og óbeint.

Hraunið kælt í Eyjum

Það þarf augljóslega að byggja upp alþjóðaflugvöll á fleiri landshlutum en SV- horninu. Raforkukerfið hefur ekki varaleiðir ef raflínur skemmast t.d. á suðurlandi í hamförum. Vegagerðin á ekki nægt efni eða tækjabúnað til að koma upp brúm eftir hamfaraflóð. Hér þarf fleiri hátæknisjúkrahús og þau þurfa að búa yfir góðum búnaði. Við þurfum að eiga öflugar færanlegar rafstöðvar og miklu meira en 50 daga birgðir af eldsneyti. Hér eru ekki til öflugar vatnsdælur eða leiðslur til að kæla hraunstrauma, en slíkur búnaður gæti skipt sköpum taki hraun að renna í átt að þéttbýli. Svo mætti eflaust lengi telja upp það sem myndi nýtast til að mæta óvæntum áföllum en á meðan ríkið hefur ekki gert neitt af þessu er varla tímabært að kaupa erlend verðbréf. Vonum að Alþingi segi nei við þessu frumvarpi.