Orkupakkinn – Hvað er það versta sem gæti gerst?

Utanríkisráðherra Íslands og fleiri gefa í skyn að segi Alþingi nei við orkupakkanum þá muni EES-samningurinn vera í hættu en því er öfugt farið. Við þurfum einmitt að segja nei við þriðja orkupakkanum til að verja EES samstarfið.

Í 25 ár hafa aðildarríki haft heimild skv. EES-samningnum til að hafna löggjöf og lagabreytingum frá ESB. Í 102. gr. samningsins er fjallað um hvernig skuli þá bregðast við. Sameiginlega EES-nefndin skal þá „gera sitt ýtrasta til að finna lausn sem aðilar geta sætt sig við“. Skynsamleg lausn gæti falist í því að Ísland yrði undanþegið orkupakkanum enda er Ísland ekki tengt orkumarkaði ESB.

Slík undanþága gæti verið auðfengnari nú en áður, því þann 22. mars sl. lýstu utanríkisráðherra Íslands og framkvæmdastjóri orkumála ESB því yfir sameiginlega að: „Raforkukerfi Íslands er eins og stendur einangrað kerfi og ekki tengt við raforkusæstreng milli Íslands og orkukerfis innri markaðar ESB. Í því ljósi hefur stór hluti ákvæða þriðja orkupakkans, þ.e. þau sem varða viðskipti og grunnvirki fyrir raforku yfir landamæri, ekki gildi eða neina raunhæfa þýðingu fyrir Ísland á meðan enginn raforkusæstrengur er til staðar.“ Þessi yfirlýsing ætti að vera leiðbeinandi fyrir sameiginlegu EES-nefndina og mikilvægt að láta á það reyna hvort hún veitir undanþágu.

Með undanþágu væri leyst úr vandamálum

Þau vandamál sem leysast eru: 1) Álitamálið um orkupakkann og stjórnarskrá Íslands væru sett til hliðar. 2) Komið væri í veg fyrir hugsanleg málaferli vegna ófullnægjandi innleiðingar orkupakkans í íslensk lög. 3) Komið væri til móts við vilja yfirgnæfandi meirihluta kjósenda. 4) Þjóðin fengi svigrúm til að komast að lýðræðislegri niðurstöðu um framtíð orkumála í stað þess að kyngja markaðsvæðingu kerfisins án andmælaréttar. 5) Með því að undanskilja orkumál, eitt mikilvægasta hagsmunamál þjóðarinnar, EES reglum væri mjög dregið úr hættu á því að EES samningurinn endi sem átakamál í innlendum stjórnmálum.

En hvað ef undanþága fæst ekki hjá sameiginlegu EES-nefndinni?

Þá segja ákvæði EES-samningins að sá hluti hans sem um ræðir gæti frestast ef nefndin ákveður svo. Hér væri um að ræða hluta af Viðauki IV (orka), hann innifelur orkupakka tvö en einnig reglur um merkingar raftækja, visthönnun vöru ofl. sem gætu haldið gildi sínu áfram. Innlendir framleiðendur gætu eftir sem áður flutt út raftæki og vörur til EES ríkja svo lengi sem tækin uppfylla kröfur EES um visthönnun og merkingar. Þessi leið er reyndar ólíkleg því það er einfaldara fyrir alla aðila að Ísland fái undanþágu.

Er hugsanlegt að ESB rifti EES samningnum?

Í ljósi yfirlýsinga framkvæmdastjóra orkumála ESB um að orkupakkinn hafi lítil áhrif hér á meðan ekki er búið að leggja raforkusæstreng til ESB hlýtur að vera óhætt að útiloka öfgakennd viðbrögð af hálfu ESB við beiðni um undanþágu. Segjum nú samt að ESB kjósi að segja upp EES-samningnum gagnvart Íslandi af minnsta tilefni. Hvað þá? Öll 28 aðildarríki ESB þyrftu að sammælast um þá ákvörðun. Hvert einasta smáríki hefði því neitunarvald og gæti notfært þá aðstöðu til að knýja fram allskyns sérkröfur gagnvart framkvæmdastjórn ESB. Líkurnar á að ESB segi upp samningnum af litlu tilefni hljóta því að teljast hverfandi.

Líklegt má því telja að Íslandi yrði veitt undanþága frá orkupakkanum ef þess væri óskað, enda eðlilegt í ljósi þess að landið er ekki tengt við orkukerfi ESB. Ríkisstjórnin ætti að líta á það sem skyldu sína að láta á þetta reyna, því sú leið að kyngja pakkanum er vörðuð óvissu, bæði lagalegri og pólitískri. Vandamálin sem fylgja orkupakkanum eru margvísleg og erfið eins og rakið er í tugum umsagna um málið. Þær koma frá lögfræðingum, verkfræðingum, fv. ráðherrum, almennum borgurum, ýmsum samtökum og líka ASÍ sem telur 133 þúsund félagsmenn.

Viðhorfskannanir sýna að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna er andvígur framsali valds í orkumálum til stofnana ESB. Um sjö þúsund manns hafa gengið í hópinn Orkan okkar sem vill að Íslendingar stýri eigin orkumálum og hafnar orkupakkanum. Fleiri en tíu þúsund hafa tekið þátt í áskorun www.orkanokkar.is til þingmanna um að hafna orkupakkanum og fleiri bætast við daglega.

Það er ekki oft að svo fjölmennur og þverpólitískur hópur sjái ástæðu til að skrifa umsagnir gegn einu þingmáli. Fjölmargar blaðagreinar og pistlar hafa verið skrifaðir til að vara við orkupakkanum. Enn er von til þess að þingmenn sjái að sér, taki rökum og virði vilja yfirgnæfandi meirihluta kjósenda. Þannig gætu þingmenn afstýrt miklum vanda. Hitt, að samþykkja pakkann vegna órökrétts ótta um viðbrögð ESB, og í óþökk íslenskra kjósenda, væri líklega eitt það versta sem þingmenn gætu gert EES samstarfinu.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. maí 2019.