Um ástæður sóttvarnalæknis fyrir bólusetningu barna

https://www.covid.is/fra-sottvarnalaekni

Sóttvarnalæknir hefur ákveðið að börnum á aldrinum 5-11 ára verði boðin bólusetning við Covid-19. Ástæður sínar fyrir bólusetningu barna setur hann fram í sex liðum í færslu á vefnum Covid.is[1]

Sumt í þessum ástæðum er rangt en annað orkar tvímælis eins og hér verður rakið.

Er ástæða til að bólusetja börn við COVID-19 ?

Sóttvarnalæknir segir að COVID-19 „geti verið“ alvarlegur sjúkdómur hjá börnum og vitnar til skýrslu[2] ECDC, Public Health Considerations COVID-19 vaccination of children aged 5-11. sem kom út 1. desember. 

Í skýrslunni kemur skýrt fram hve sjaldgæft það er að börn veikist alvarlega af COVID-19. Sóttvarnalæknir segir hinsvegar hættuna tvöfalt meiri en fram kemur í skýrslunni:   

„Among the 65 800 symptomatic cases aged 5-11 years that were notified during this period, 399 were hospitalized (risk: 0.61%; 95% CI: 0.55-0.67%) and 42 were severely hospitalized (risk among all cases: 0.06% (95% CI: 0.05-0.09%); risk among hospitalized cases: 10.5% (95% CI: 7.7-14.0%)). Deaths were extremely rare, with only two reported.“

Skýrslan miðar við börn með einkennasmit“ (e. symptomatic cases) en sóttvarnalæknir þýðir það hugtak ranglega sem börn með smit. Þetta skiptir verulegu máli því börn með smit eru tvöfalt fleiri en börn með einkenni. Á blaðsíðu þrjú í skýrslu ECDC kemur þetta skýrt fram:

„The study also reported that 50% of positive cases among children aged 5-11 years were asymptomatic, as compared to 12% for adults.“

Fyrst helmingur barna sem greinast eru einkennalaus má álykta að aðeins 0,3% barna sem greinast með COVID-19 þurfi á spítalainnlögn að halda. Það er helmingi minni fjöldi en sóttvarnalæknir gefur upp. En svo greinast ekki öll börn sem smitast, svo enn lægra hlutfall þeirra sem smitast þurfa á spítalainnlögn að halda

Rannsókn[3] á vegum lýðheilsustofnunar Noregs styður þetta því hún sýnir að aðeins 0,1% barna á aldrinum 5-11 ára sem greindust með kórónuveiruna þurftu að leggjast inn á spítala. Það er enn lægra hlutfall en lesa má úr skýrslu ECDC. Áhættan sem sóttvarnalæknir setur fram er margfalt meiri en reynsla Norðmanna gefur til kynna. 

Sóttvarnalæknir reiknar einnig út að ef öll börn á aldrinum 5-11 ára (32.000 talsins) smitist þá muni 0,006% þeirra látast ( 1-2 börn). Þetta er tvöfalt of há tala. Hlutfallið er tekið úr sömu skýrslu ECDC en það á við um börn með með einkenni (symptomatic cases). Vilji sóttvarnalæknir reikna út frá fjölda smita væri réttara að nota hlutfallið 0,003%. Þá er niðurstaðan sú að minna en eitt (0,96) barn látist jafnvel þótt hvert einasta barn í landinu ætti eftir að smitast. En á svo útbreiddu smiti eru litlar líkur. 

Bresk rannsókn [4] sýnir vel hve dánartíðni barna af COVID-19 er lág. Samkvæmt henni létust tvö af hverri milljón barna. Hér á landi eru um 32 þúsund börn á þessum aldri og því mætti áætla að 0,06 barn gæti látist. Það er því afar lítil hætta á andláti barns af völdum COVID-19 hér á landi.

Staðreyndin er sú að COVID-19 er afar mildur sjúkdómur hjá börnum. Helmingur barna sem smitast fær engin einkenni og innlagnir eru afar fátíðar. Það er því ekki tilefni til að bólusetja hraust börn.

Er bóluefnið virkt?

Sóttvarnalæknir fullyrðir að bóluefnið veiti um 90% vörn gegn smiti og vísar til rannsóknar[5] sem unnin var á vegum Pfizer, þar sem 1517 börn fengu bóluefni en 751 barn fékk lyfleysu. Fjöldi barna var því 2.268 en ekki „um 3.000“ eins og sóttvarnalæknir skrifar. (Þarna skeikar 32%)

Rannsóknin fjallar ekki um vörn bóluefnisins gegn smiti heldur vörn þess gegn einkennum COVID-19. Það er því ekki hægt að fullyrða á grundvelli þessarar rannsóknar að bóluefnið veiti 90% virkni gegn smiti eins og sóttvarnalæknir heldur fram.

Í skýrslu rannsóknarinnar kemur fram að leitað var að smiti hjá þeim börnum sem fengu skyndileg einkenni COVID-19. Aldrei var kannað hve mörg bólusett börn smituðust án einkenna. Til að rannsaka vörn bóluefnisins gegn smiti hefði þurft að skima reglulega fyrir smiti hjá öllum börnunum. Það var ekki gert í þessari rannsókn.

Aðferðafræðinni við skimun barna er lýst á bls. 7 í viðauka[5] við rannsóknina.

„If a participant developed an acute illness, the participant was considered to potentially have COVID-19 illness.“

Reynslan hefur líka sýnt hve algengt það er að fullbólusettir einstaklingar geti smitast og smitað aðra. Rannsókn[6] kostuð af NIH í Bretlandi kannaði tíðni delta smita meða bólusettra og óbólusettra og var birt í The Lancet 29.10.2021. Í henni kemur fram að bólusettir smiti heimilisfólk sitt um það bil þriðjungi sjaldnar en óbólusettir. Smit urðu á tólf heimilum þar sem allir voru bólusettir. Einnig kemur fram að veirumagn er svipað í bólusettum og óbólusettum einstaklingum með COVID-19, en veirumagnið er lengur hátt hjá óbólusettum.

Með hliðsjón af reynslu og rannsóknum er beinlínis rangt að kynna  bóluefnið sem vörn við smiti hjá börnum. Bóluefnið er fyrst og fremst vörn gegn veikindum.

Vörn bóluefnisins gegn veikindum hefur því miður enst skemur en vonir stóðu til og því hefur þurft örvunarskammta. Sænsk rannsókn[7] sýnir að vernd bóluefna gegn einkennasmiti dvínar hratt og er nær horfin eftir sex mánuði. Vernd þeirra gegn alvarlegum veikindum endist hins vegar lengur.

Að lokum má nefna að bóluefnið sem áformað er að nota fyrir börnin var hannað fyrir fyrstu útgáfu veirunnar en ekki þau afbrigði sem nú eru algengust.

Staðreyndin er sú að bóluefnið veitir takmarkaða vörn gegn smiti og sú vörn sem það veitir gegn einkannasmiti dvínar hratt á örfáum mánuðum.

Er börnum hætt við langtíma áhrifum af völdum COVID-19?

Sóttvarnalæknir viðurkennir hér að langtíma áhrif af völdum COVID-19 hafi ekki komið fram hjá börnum svo vitað sé – samt segir hann að full ástæða sé til að áhyggjur. Þetta er ekki sannfærandi röksemdafærsla.

Rannsókn[8] á Long-Covid í börnum og unglingum birtist í desemberhefti The Pediatric Infectious Disease Journal. Í henni er farið yfir 14 rannsóknir sem birst hafa um þetta efni. Sömuleiðis kemur þar fram að hætta á alvarlegum COVID veikindum hjá börnum sé lítil. Niðurstaðan er þessi:

„In summary, the evidence for long COVID in children and adolescents is limited, and all studies to date have substantial limitations or do not show a difference between children who had been infected by SARS-CoV-2 and those who were not.“

Ekkert hefur því enn komið fram sem bendir til þess að langtímaáhrif vegna COVID-19 séu tilefni til að bólusetja öll börn við sjúkdómnum.

Er bóluefnið öruggt fyrir börn?

Sóttvarnalæknir viðurkennir hér að „ekki mörg börn hafa verið bólusett“ og því sé ekki hægt að fullyrða með vissu hvort alvarlegar aukaverkanir muni leiða af bólusetningu þeirra. Þetta er staðreynd og ætti í sjálfu sér að nægja til að hætta við bólusetningu barna, ekki síst í ljósi þess hve sjúkdómurinn sjálfur er mildur í börnum.

Franska Læknaakademían vakti athygli á þessari sömu áhættu í fréttatilkynningu[9] þann 15. nóvember sl. að rannsókn[5] Pfizer (birt í NEMJ 9. nóvember) hafi verið allt of lítil til að meta hættu á sjaldgæfum en alvarlegum aukaverkunum og segir:

„- the number of children enrolled in phase 2/3 clinical trials (1517 vaccinated vs. 751 with placebo), still very insufficient to detect possible severe and rare adverse events“

Rannsókn[13] Pfizer á öryggi bóluefnisins fyrir börn stendur enn og henni mun ekki ljúka fyrr en í maí 2026. Þangað til er notkun bóluefnisins háð sérstakri neyðar-undanþágu (e. „Emergency Use Authorization“). Ekkert neyðarástand er að finna hjá börnum sem réttlætir slíkt leyfi.

Fyrirsögn sóttvarnalæknis þess efnis að enn hafi ekki komið fram alvarlegar aukaverkanir er í raun blekkjandi í ljósi þess hve fá börn hafa fengið bóluefnið og hve stuttur tími er liðinn frá því rannsóknin hófst.

Af þessu tilefni má rifja upp rannsókn[10] á vegum Lýðheilsustofnunar Noregs, NIPH, sem leiddi í ljós fimmfalda aukningu á tíðni drómasýki hjá þeim börnum og ungmennum sem höfðu verið bólusett við svínaflensu veturinn 2009-10. Að meðaltali liðu átta mánuðir frá bólusetningu þar til drómasýkin uppgötvaðist.

Sóttvarnalæknir fullyrðir í lokin að alvarlegar aukaverkanir eftir COVID-19 hjá börnum séu umtalsvert líklegri en aukaverkanir eftir bólusetningu. Þar styðst hann ekki við heimildir enda verða þær ekki tiltækar fyrr en árið 2026 þegar rannsókn á öryggi bóluefna Pfizer fyrir börn lýkur. 

Daginn eftir að sóttvarnalæknir birti ákvörðun um bólusetningar barna birtust niðurstöður nýrrar rannsóknar[11] í Nature Medicine þar kemur fram að seinni skammtur Moderna bóluefnisins skapi fólki töluvert meiri hættu á hjartabólgu en sjálft COVID-19. Það dæmi sýnir hve langur tími getur liðið þar til aukaverkanir koma í ljós.

Lýðheilsustofnun Finnlands THL[12] hefur lagt til bólusetningu 5-11 ára barna sem eru í áhættuhópi vegna COVID-19 en ætlar að bíða með önnur börn:

“The main reason why THL does not recommend vaccinations at this point for all children aged 5 to 11 years is that their burden of disease is small. Infections in children of this age are usually mild and the severe disease is extremely rare compared to other vaccine-preventable diseases. When the burden of disease is small in a group, very few adverse effects are accepted. If society aims to control the epidemic by vaccinating children who themselves benefit only a little from the vaccinations, having information on safety is even more important,” says Hanna Nohynek, Chief Physician at THL.

Þetta virðist skynsamleg ákvörðun hjá Finnum. Staðreyndin er sú að rannsókn[13] á öryggi bóluefnis Pfizer fyrir börn mun ekki ljúka fyrr en um mitt ár 2026 og þangað til er ekki hægt að fullyrða að það sé nógu öruggt.

Er rétt að nota óreynt bóluefni til að draga úr truflunum?

Einangrun og sóttkví barna er samkvæmt tillögum sóttvarnalæknis. Það er í hans valdi að breyta reglunum þannig að þær miðist betur við þarfir og aðstæður barna. Þannig gæti truflun af sóttvarnaraðgerðum verið í lágmarki og í betra samræmi við þá litlu áhættu sem börnum er búin af COVID-19.

Bólusetning barna er hins vegar ekki góð lausn á þeirri röskun sem stafar af sóttvarnaaðgerðum enda munu bólusett börn áfram geta smitast og smitað.

Er nauðsynlegt að bólusetja börn til að verja bólusetta fullorðna?

Bólusetning minnkar vissulega líkur á smiti, en hve mikið minnka þær? Bresk rannsókn[6] sýnir að líkurnar minnka um þriðjung. Sama rannsókn sýnir að smit bárust einnig innan fjölskyldna þar sem allir voru bólusettir. Bóluefnin veita því ekki tryggingu gegn smiti.

Öllum fullorðnum og fólki í áhættuhópum býðst bólusetning og geta þannig varið sig gegn alvarlegum veikindum. Því er engin ástæða til að setja börn í hættu með bóluefni sem gerir þeim lítið gagn en gæti valdið þeim alvarlegum aukaverkunum.

Ekki gott að nota skólana til bólusetningar

Sóttvarnalæknir virðist ganga út frá því að allir foreldrar vilji að börn þeirra verði bólusett. Ekki er víst að svo sé. Vonandi munu sem flestir foreldrar kynna sér vandlega rökin með og móti bólusetningu. Ekki kæmi á óvart ef stór hluti foreldra kysi að fresta bólusetningu þar til endanleg gögn liggja fyrir um öryggi bóluefnana. Einnig má gera ráð fyrir að foreldrar þeirra barna sem hafa fengið COVID-19 telji bólusetningu óþarfa.

Bólusetning í skólum getur skapað ósanngjarnan þrýsting á foreldra og börn. Val um bólusetningu á aldrei að vera þvingað fram, heldur byggja á staðreyndum um áhættu og ávinning. Eðlilegt er að bólusetning barns sé einkamál þess og foreldra þess. Forðast ber að skapa aðstæður sem geta leitt börn í andstæða hópa eða ýtt undir einelti.

Niðurstöður

Þær ástæður[1] sem sóttvarnalæknir hefur birt varðandi bólusetningu allra barna á aldrinum 5-11 ára standast ekki skoðun og því væri rétt að hætta við áformin.

Finnska lýðheilsustofnunin leggur til[12] að aðeins þeim börnum sem eru talin í sérstakri hættu af völdum COVID-19 verði boðið bóluefni þar til upplýsingar liggja fyrir um öryggi bóluefnisins og fágætar aukaverkanir. Það virðist skynsamleg nálgun hjá Finnum.

Til að teljast fullbólusett mun hvert barn þurfa tvo skammta af bóluefninu og þegar áhrifin af þeim dvína munu þau þurfa örvunarskammta. Hverjum viðbótar skammti bóluefnis fylgir óskilgreind hætta á alvarlegum en sjaldgæfum aukaverkunum.

COVID-19 er mjög vægur sjúkdómur hjá börnum. Vægari en flensa og margar aðrar pestir sem þau glíma við í æsku. Helmingur barna sem greinast finnur ekki til einkenna. Það er því ekki nokkur ástæða til að ýta hraustum börnum út á braut raðbólusetninga gegn COVID-19.

Viðbót 17. desember: Sóttvarnalæknir hefur brugðist við tveimur ábendingum og birt leiðréttingu. Við leiðréttinguna er ýmislegt að athuga og um það fjallar næsti pistill sem lesa má hér.

Heimildir:

  1. Ákveðið hefur verið að bjóða börnum 5-11 ára bólusetningu gegn COVID-19. Frá sóttvarnalækni. Covid.is 12.12.21
  2. Interim public health considerations for COVID-19 vaccination of children aged
    5-11 years
    . ECDC, 1. des. 2021
  3. UK virus variant associated with higher risk of hospital admission. Norwegian Institute of Public Health. 21.3.2021
  4. Deaths in Children and Young People in England following SARS-CoV-2 infection during the first pandemic year: a national study using linked mandatory child death reporting data, Smith ofl, Júlí 2021
  5. Evaluation of the BNT162b2 Covid-19 Vaccine in Children 5 to 11 Years of Age, NEMJ, 9. nov. 2021 , ásamt Supplementary Appendix.
  6. Community transmission and viral load kinetics of the SARS-CoV-2 delta (B.1.617.2) variant in vaccinated and unvaccinated individuals in the UK. The Lancet. 29.10.21
  7. Effectiveness of Covid-19 Vaccination Against Risk of Symptomatic Infection, Hospitalization, and Death Up to 9 Months: A Swedish Total-Population Cohort Study. The Lancet Preprint. 25.10.21
  8. How Common is Long COVID in Children and Adolescents? PIDJ, Des.2021
  9. Should children be vaccinated against Covid-19? Press release from the French National Academy of Medicine, November 15, 2021
  10. Narcolepsy after swine influenza pandemic, NIPH, 29.03.17
  11. Risks of myocarditis, pericarditis, and cardiac arrhythmias associated with COVID-19 vaccination or SARS-CoV-2 infection. Nature Medicine, 14.12.2021
  12. THL recommends COVID-19 vaccines for at-risk children aged 5 to 11 years, more information on safety is required for the entire age group. THL, 3.12.21
  13. A Phase 1/2/3 Study to Evaluate the Safety, Tolerability, and Immunogenicity of an RNA Vaccine Candidate Against COVID-19 in Healthy Children and Young Adults.