Rósasulta – Uppskrift

Hér á landi virðist ekki algengt að nýta rósir í matargerð en það er ljómandi gott að skreyta salöt með rósablöðum eða að gera sultu og te úr blómunum.

Víða erlendis, t.d. í Frakklandi, þykir rósasulta hið mesta sælgæti. Það er eiginlega synd að hér á landi fá útsprungnar rósir bara að fölna og fjúka burt. Auðvitað er mikilvægt að borða eingöngu rósir sem hafa sloppið við eiturefni.

Hér er uppskrift að rósasultu sem tekur bara hálftíma að útbúa.

Það eina sem þarf:

  • Ein pottfylli af útsprungnum rósum (t.d. Dornrós) sem eru jafnvel að byrja að fölna.
  • Safi úr einni sítrónu
  • Sultusykur – c.a. einn bolli
  • Hálfur bolli af vatni

Aðferð:

Setjið rósirnar og vatnið í stálpott og látið suðuna koma upp.

Sjóðið með lokið á í c.a. 10 mínútur.

Bætið sykri og sítrónusafa útí.

Látið sultuna malla rólega í nokkrar mínútur, þar til hún er farin að hlaupa.

Prófið öðru hvort sultan sé farin að hlaupa með því að láta nokkra dropa af henni kólna á diski.

Sótthreinsið krukkurnar og lokin t.d. með sjóðandi vatni. Setjið svo heita sultuna í krukkur og lokið. Geymist vel í ískáp.

Rósasulta gefur rósabragð sem er sætt og milt. Sultan passar vel með hvítum ostum og í Frakklandi þykir gott að setja jafnvel smá rósasultu í glas af freyðivíni.