Hvers vegna ganga Danir ekki í ESB?

Við fyrstu sýn virðast Danir hafa gengið í ESB árið 1973 en við nánari athugun kemur í ljós að 80% af landsvæðum og 90% af hafsvæðum Danaveldis og meiri hluti fiskauðlindarinnar eru utan ESB.

Auðvitað eru Danir formlega aðilar að ESB en þeir virðast einhvern vegin hafa komist upp með það að halda auðlindakistunum Grænlandi og Færeyjum utan ESB. Bláa sneiðin á þessum kökuritum sýnir Danska hlutann sem gekk í ESB.

Landsvæði
Fiskafli

Grænland gekk úr ESB árið 1985 og fellur undir aflandseyjar, en nokkur aðildarríki ESB halda slíkum svæðum utan ESB. Grænlendingar hafa reyndar ríkisborgararétt í ESB en án kosningaréttar. 

Færeyjar hafa aldrei verið aðili að ESB en hafa beinan fríverslunarsamning við ESB.

Það að Danaveldi hafi kosið að halda auðlindum sínum og meiri hluta fiskimiða utan ESB hlýtur að vekja nokkrar spurningar. 

Hvað kostar að ganga úr ESB?

Það er vissara að gera sér grein fyrir því hvort það er yfirleitt hægt að ganga úr ESB ef við göngum þar inn. Samfylkingin afgreiðir þessa spurningu vef sínum með þessum orðum:

Rétt er:

Engin ESB-þjóð hefur óskað eftir að segja sig úr ESB – nema Grænlendingar sem gengu úr ESB árið 1985. Þeir njóta þó óbeinna ávinninga af aðild – þar með af tengingu við evruna – með ríkjasambandi sínu við Danmörku. Úrsögn Grænlendinga var vandalaus á sínum tíma. Ekkert formlegt úrsagnarákvæði er þó í samningum ESB, en slíkt ákvæði er að finna í Lissabonsamningnum frá 2007 sem enn bíður staðfestingar.

Ljóst er að úrsögn er engum pólitískum vandkvæðum háð – en það er athyglisvert að slíkur kostur er ekki ræddur í alvöru í neinu ESB-ríki, jafnvel ekki Bretlandi þar sem aðildin hefur verið hvað umdeildust.

Grænlendingar gengu úr ESB árið 1985. Grænland er auðvitað hluti af Danaveldi og þetta þýðir því í raun að Danmörk hafi ákveðið að halda hluta af sínum auðlindum utan ESB. Hvers vegna gera þeir það?

Samfylkingin hefur ekki áhyggjur af „pólitískum vandkvæðum“ við úrsögn. En hvað þá með efnahagsleg vandkvæði? Á ekki að svara því líka?

Það að úrsögn sé ekki á dagskrá hjá neinu ESB ríki getur seint talist gott svar við spurningunni um hvort það sé hægt að ganga út úr ESB.

Staðreyndin er sú að innganga í ESB myndi ógilda þá milliríkjasamninga sem Ísland á við önnur lönd enda tækjum við upp þá samninga sem ESB hefur gert. Það hefur tekið áratugi að byggja upp þessa milliríkjasamninga og þeir verða ekki endurvaktir við það eitt að ganga aftur úr ESB.

Við úrsögn myndi Ísland ekki geta tekið upp þráðinn þar sem frá var horfið, heldur værum við á byrjunarreit í utanríkismálum. EES samningurinn væri ekki lengur til. Úrsögn úr ESB myndi þýða einangrun og gríðarlega óvissu. Það er óhemju slæm staða.

Auk þess væri Evran ekki lengur í boði og við yrðum að taka upp aðra mynt eða endurvekja krónuna. Úrsögn úr ESB þýðir því algera óvissu í gengismálum.

ESB hefur engan hag af því að gera úrsögn eitthvað auðvelda fyrir aðildarríki ESB.

Samfylkingunni hlýtur að vera ljóst að það er nánast óhugsandi að segja sig úr ESB ef við göngum þar inn. Hvers vegna kýs hún þá að segja kjósendum að það sé „engum pólitískum vandkvæðum háð“ ?

Kljúfa þjóðina strax!

BjorgvinGGislasonÞjóðin er og verður klofin í þessu hitamáli. Björgvin telur ásættanlegt að kljúfa þjóðina einmitt þegar hún þarf að vinna saman að lausn erfiðra vandamála.

Það eru skynsamir menn í báðum fylkingum. Ástæðan fyrir því að þetta skynsama fólk kemst að svo ólíkri niðurstöðu er að það er næg óvissa um framtíð mála á Íslandi og í Evrópu. Við það bætast svo tilfinningar og innsæi sem er ólíkt.

Við höfum ekki efni eða tíma til að ná sátt um ESB málið. Á að neyða helming þjóðarinnar í ESB? Það verður ekki gæfulegt.

mbl.is Evrópustefnan verði á hreinu

 

Spara mætti 100 milljarða með því að hraða rafbílavæðingu

chevrolet_volt_210Árlega er flutt inn eldsneyti fyrir 10 milljarða til að knýja einkabíla landsmanna. Nú eru loksins að koma rafmagnsbílar á markað sem komast meira en 150 km á einni hleðslu og útskipting bílaflotans getur hafist.

Það eru 200 þúsund einkabílar í landinu og það gæti tekið allt að 30 ár að skipta þeim flota út fyrir rafbíla. Þá er miðað við að 30% af nýjum innfluttum bílum séu rafbílar. Lesa áfram „Spara mætti 100 milljarða með því að hraða rafbílavæðingu“

Versti tíminn til að semja við ESB

brussels-2

Hvort sem menn eru með eða á móti aðild að ESB hljóta allir að geta fallist á að samningstaða okkar í aðildarviðræðum gæti varla orðið verri en einmitt núna. Ef samninganefnd ESB er skipuð góðum samningamönnum, sem við hljótum að reikna með, þá mun hún nýta sér veikleika okkar til fulls. Samningur núna yrði líklega sá versti sem Ísland gæti nokkurn tíman fengið.

Aðild að ESB er varanleg og mikil óvissa um hvort sé hægt að ganga út úr sambandinu ef okkur líkar ekki vistin þar. Það er því skylda okkar að semja af kostgæfni og velja til þess réttan tíma.

Við þurfum að sýna þolinmæði og styrkja stöðu okkar áður en gengið er til samninga. Gefum okkur næsta kjörtímabil til að rétta efnahag og ímynd landsins við. Fjögur ár eru ekki langur tími ef tekið er tillit til þess að ESB aðild er varanleg. Til þess að uppbyggingin takist sem best þarf þjóðin að standa saman í mörgum erfiðum verkefnum og því ber að forðast að tvístra henni með því að knýja fram ótímabæra afstöðu til ESB.

Í lok næsta kjörtímabils verður efnahagsbati kominn vel á veg hjá okkur en hugsanlega eitthvað styttra í Evrópu. Samningsstaða okkar verður eðlileg. Þá fyrst verður tímabært að láta reyna á hvað býðst í aðildarviðræðum.

Er krónan rót vandans?

Sú skoðun virðist mjög útbreidd að krónan eigi sér ekki framtíð og stjórnmálamenn eru farnir að velta fyrir sér í mikilli alvöru að innleiða hér erlendan gjaldmiðil. Slík aðgerð yrði mjög dýr og nánast óafturkræf. Er öruggt að hún væri til bóta?

En hvað ef krónan er alls ekki vandinn? Er ekki hugsanlegt að hann felist í slæmri hagstjórn, röngum ákvörðunum stjórnenda og einsleitu og þar með sveiflukenndu hagkerfi? Það finnst mér frekar líklegt.

Lesa áfram „Er krónan rót vandans?“

Áhrif makaskipta á verðtryggingu

Þróun fasteignaverðs Húsnæðislán eru flest verðtryggð og þáttur fasteignaverðs nemur 15-18% af þeirri vísitölu sem verðtryggingin miðast við.  Eftir að hafa meira en þrefaldast síðan 1994, hefur vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu nú loksins hætt að hækka.  Það þurfti heimskreppu til. En hún lækkar furðu lítið. Stendur eiginlega í stað. Hvernig getur staðið á því?

Síðan kreppan skall á hefur fasteignasala nánast stöðvast. Kaupendur halda að sér höndum enda geta þeir ekki fengið lán til fasteignakaupa. Margir geta ekki selt húsin sín því að verðið sem býðst er lægra en áhvílandi lán. Þessi tregða hægir á lækkun fasteignaverðs. Lesa áfram „Áhrif makaskipta á verðtryggingu“

Lýðræðishalli minni í ESB en EES?

prosentan

María Elivira Mendez Pinedo er doktor og lektor í Evrópurétti við lagadeild Háskóla Íslands. Grein eftir hana „Lýðræðishallinn í EES“ birtist á bls 39 í Morgunblaðinu í dag (15. feb). Afstaða Maríu er sú að það sé minni lýðræðishalli í ESB en EES. Það reynist hins vegar við nánari skoðun vera alveg þveröfugt. Ísland myndi þurfa að þola meiri lýðræðishalla innan ESB.

Lesa áfram „Lýðræðishalli minni í ESB en EES?“

Vandi+ESB=Enginn vandi?

„Samningar við Evrópusambandið eru lausn vandans“ er titill greinar í Morgunblaðinu sem rituð er af Jóni Baldvin Hannibalssyni.  Skoðum röksemdir Jóns Baldvins nánar.

Röksemdir Jóns:

Allur fyrri helmingur greinarinnar fer reyndar í að útskýra vandann og hver séu mikilvægustu úrlausnarefni og leiðir. Jón telur m.a. þörf á að endurskoða aðgerðaáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, lækka vexti en ávítar svo ríkisstjórn harðlega fyrir að „stinga höfðinu í sandinn í ESB málinu“. Svo kemur hann að því hvers vegna ESB er eina lausnin: 

Lesa áfram „Vandi+ESB=Enginn vandi?“