Vandi+ESB=Enginn vandi?

„Samningar við Evrópusambandið eru lausn vandans“ er titill greinar í Morgunblaðinu sem rituð er af Jóni Baldvin Hannibalssyni.  Skoðum röksemdir Jóns Baldvins nánar.

Röksemdir Jóns:

Allur fyrri helmingur greinarinnar fer reyndar í að útskýra vandann og hver séu mikilvægustu úrlausnarefni og leiðir. Jón telur m.a. þörf á að endurskoða aðgerðaáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, lækka vexti en ávítar svo ríkisstjórn harðlega fyrir að „stinga höfðinu í sandinn í ESB málinu“. Svo kemur hann að því hvers vegna ESB er eina lausnin: 

Samningar við Evrópusambandið um aðild að því og myntsamstarfinu er lykillinn að lausnum á bráðavanda íslensku þjóðarinnar nú þegar. Ástæðan er einföld: Við getum hvorki leyst skuldavandann né gjaldmiðilsvandann ein og sér; við þurfum að semja um hvort tveggja.  Samningsvettvangurinn er hjá Evrópusambandinu – allsherjarsamtökum lýðræðisríkja í Evrópu.
(…) 
Það verður allt öðru vísi tekið á vandamálum Íslendinga sem verðandi aðildarþjóðar Evrópusambandsins en sem utangarðsþjóðar. Vandamál verðandi aðildarþjóða eru vandamál Evrópusambandsins sem slíks. Evrópusambandið býr yfir ýmsum úrræðum til þess að leysa vanda aðildarríkja af þeim toga sem Íslendingum er nú ofviða að leysa á eigin spýtur. Smæð Íslands skipti hér máli. Upphæðirnar sem um er að ræða eru risavaxnar á mælikvarða 300.000 manna þjóðar en smámunir einir á mælikvarða ríkjabandalags sem telur 500 milljónir manna.

En er ESB alveg örugglega eina lausnin?

Jón Baldvin telur að við getum ekki leyst skuldavandann ein og sér. Auðvitað er rétt hjá honum að við þurfum að semja við kröfuhafa. Kröfuhafar hafa hag af því að okkur takist að borga þeim. Það þarf enga aðild að ESB til að þeir samningar klárist. Það er líka ósannað að ESB aðild skili „ókeypis“ niðurfellingu skulda í sjálfu sér. Allt kostar.

Jón Baldvin fullyrðir líka að við getum ekki leyst gjaldmiðilsvandann án ESB. En það ekki rétt því við höfum marga valkosti í gjaldmiðilsmálum. Allir valkostir í þeim efnum hafa sína ókosti, líka evran. 

Allir vita að jafnvel hraðafgeiðsla umsóknar myndi taka 2 ár hið minnsta. Evran fengist töluvert síðar. Jón Baldvin gerir sér grein fyrir þessu en gefur sér að það eitt skili miklu að setja stefnuna.

Hvað kostar svo ESB lausnin? Hvað vill ESB fá fyrir að stytta afplánun Íslendinga í sjálfskaparvítinu. Hverju telur Jón Baldvin rétt að fórna? Greinin kemur ekki inn á það.

Hvað ef þjóðin er ekki tilbúin? 

Þjóðin er klofin í afstöðu sinni til ESB og hún þyrfti tíma til að komast að niðurstöðu. Að rjúka í þetta mál núna myndi kljúfa þjóðina, flokka og þingheim og draga óhemju mikið afl úr okkur – einmitt þegar við þurfum að standa saman og hafa fulla einbeitingu við að greiða úr vandanum. 

VöruflokkarESB