Versti tíminn til að semja við ESB

brussels-2

Hvort sem menn eru með eða á móti aðild að ESB hljóta allir að geta fallist á að samningstaða okkar í aðildarviðræðum gæti varla orðið verri en einmitt núna. Ef samninganefnd ESB er skipuð góðum samningamönnum, sem við hljótum að reikna með, þá mun hún nýta sér veikleika okkar til fulls. Samningur núna yrði líklega sá versti sem Ísland gæti nokkurn tíman fengið.

Aðild að ESB er varanleg og mikil óvissa um hvort sé hægt að ganga út úr sambandinu ef okkur líkar ekki vistin þar. Það er því skylda okkar að semja af kostgæfni og velja til þess réttan tíma.

Við þurfum að sýna þolinmæði og styrkja stöðu okkar áður en gengið er til samninga. Gefum okkur næsta kjörtímabil til að rétta efnahag og ímynd landsins við. Fjögur ár eru ekki langur tími ef tekið er tillit til þess að ESB aðild er varanleg. Til þess að uppbyggingin takist sem best þarf þjóðin að standa saman í mörgum erfiðum verkefnum og því ber að forðast að tvístra henni með því að knýja fram ótímabæra afstöðu til ESB.

Í lok næsta kjörtímabils verður efnahagsbati kominn vel á veg hjá okkur en hugsanlega eitthvað styttra í Evrópu. Samningsstaða okkar verður eðlileg. Þá fyrst verður tímabært að láta reyna á hvað býðst í aðildarviðræðum.

VöruflokkarESB