Er krónan rót vandans?

Sú skoðun virðist mjög útbreidd að krónan eigi sér ekki framtíð og stjórnmálamenn eru farnir að velta fyrir sér í mikilli alvöru að innleiða hér erlendan gjaldmiðil. Slík aðgerð yrði mjög dýr og nánast óafturkræf. Er öruggt að hún væri til bóta?

En hvað ef krónan er alls ekki vandinn? Er ekki hugsanlegt að hann felist í slæmri hagstjórn, röngum ákvörðunum stjórnenda og einsleitu og þar með sveiflukenndu hagkerfi? Það finnst mér frekar líklegt.

Ef okkur á að ganga betur í framtíðinni þurfum við að læra að mistökum og ráðast að rót vandans.

Þegar vel árar í atvinnuvegum eykst eftispurn eftir krónum og gengi hennar styrkist, í niðursveiflu dregur úr eftirspurn og gengið veikist. Þetta á ekki að koma stjórnendum fyrirtækja á óvart. Nú þurfa þeir að viðurkenna ábyrgð á því að hafa skuldsett fyrirtæki sín í erlendum myntum eins og uppsveiflan myndi vara að eilífu. Stjórnendur kjósa að sjálfsögðu að kenna krónunni um, þó að í raun og veru sé sökin  hjá þeim sjálfum.

Í stað þess að játa mistök og læra af þeim leggja stjórnmálamenn og stjórnendur nú til að við tökum upp útlenda og „trausta“ mynt. En hún mun því miður ekki endurspegla íslenskar aðstæður. Sá galli mun síðan leiða til gjaldþrota og atvinnuleysis þegar gengi gjaldmiðilsins verður of sterkt fyrir okkar aðstæður. Nú eru Grikkir, Írar og fleiri þjóðir einmitt í þeirri stöðu.

Íslendingar eru núna að kynnast því hvernig fer ef gjaldmiðill og hagkerfi eru ekki í takt. Stjórnvöld létu það nefnilega viðgangast allt frá árinu 2006 að krónan styrktist án nokkurs samhengis við íslenskt efnahagslíf. Ef Seðlabankinn og ríkisstjórnin hefðu haft dug til að grípa til aðgerða þegar einkennin voru orðin augljós, hefði mátt fyrirbyggja ofstyrkingu krónunnar og skuldasöfnun fyrirtækja og almennings. Bankarnir hefðu þá síður rúllað og mun færri fyrirtæki væru gjaldþrota. Stjórnvöld vilja auðvitað kenna krónunni um hvernig fór, en sökin er í raun og veru hjá þeim og engum öðrum.

Stundum heyrir maður þau rök að Ísland sé of fámennt land til að hafa eigin gjaldmiðil, seðlabanka og fjármálaeftirlit. Hvernig má það vera að land sem telur færri íbúa en meðalstór gata á Manhattan þurfi eigin gjaldmiðil?  Ástæðan er einfaldlega sú að við erum ekki á Manhattan. Við erum í allt öðru umhverfi og þurfum að geta brugðist við öðrum aðstæðum. 

Það er rétt að rifja upp að þar til við misstum fótanna í bankamálunum gekk okkur mjög vel og það var undir eigin stjórn og með eigin gjaldmiðil. Þrátt fyrir krónuna komumst við úr sárri fátækt í hóp ríkustu þjóða heims. Það hljóta að teljast nokkur meðmæli með krónunni.