Bókhald Seðlabankans: Eru seðlar skuld?

Í bókhaldi Seðlabanka Íslands er venja að færa selda peningaseðla til skuldar en ekki til tekna. Í árslok 2016 “skuldaði” Seðlabankinn 62 milljarða í útgefnum seðlum samkvæmt ársreikningi. Ekki virðast önnur rök fyrir þessari bókhaldsaðferð en þau að svona hafi þetta alltaf verið gert og þetta sé venjan hjá öðrum seðlabönkum. Vissulega er þetta venjan en það orkar tvímælis að færa tekjur sem skuld, slíkt stenst varla góða reikningskilavenju og um það fjallar þessi pistill. 

Seðlabankinn færir selda peningaseðla sem skuld
Seðlabankinn hefur þá sérstöðu að hann einn má gefa út og selja íslenska peningaseðla og það er eitt af hans mikilvægu verkefnum að anna eftirspurn hagkerfisins eftir reiðufé. Seðlabankinn lætur framleiða seðla í sérstakri prentsmiðju sem er sérhæfð í slíku prentverki. Framleiðslukostnaður 10.000 kr. seðils mun vera nálægt 20 kr.
Þegar banki kaupir seðla af Seðlabankanum greiðir bankinn kaupverðið af innstæðu sinni í Seðlabankanum.  Þegar Seðlabankinn selur banka nýjan 10.000 kr. seðil mætti ætla að bókunin væri þannig að inneign bankans hjá Seðlabanka lækki um 10.000 kr., tekjur Seðlabankans aukist um 10.000 kr., vörunotkun aukist um 20 kr. og hagnaður aukist um 9.980 kr. Semsagt mjög ábatasamt að búa til peninga og ætti ekki að koma neinum á óvart.
En í stað þess að sýna auknar tekjur sýnir bókhaldið að skuldir Seðlabankans hafi aukist um 10.000 kr., vörunotkun um 20 kr. Af bókhaldi bankans að dæma virðist peningaframleiðsla vera taprekstur. Þetta virðist stangast á við heilbrigða skynsemi og einnig góða reikningskilavenju.

Eru seldir peningaseðlar skuld Seðlabankans?
Almennt bera skuldir einhverja vexti og hafa einhvern gjalddaga. Það á ekki við um peningaseðla í dag. Þeir bera enga vexti og hafa engan gjalddaga. Sá sem á peningaseðil á því enga kröfu á Seðlabankann aðra en að fá nýjan seðil í stað seðils sem er hugsanlega orðinn of lúinn til að gegna hlutverki sínu.

En þetta var reyndar ekki alltaf þannig. Fyrir árið 1960 var peningaseðill oftast krafa um greiðslu í silfri eða gulli, hvenær sem handhafa seðilsins hentaði. Í seðlum fólst þá raunveruleg skuldaviðurkenning og rétt að þeir væru færðir til skuldar í bókhaldi seðlabanka.

Mynd 1

Mynd 1 er af bandarískum 5 USD seðli frá 1928. Á honum stendur að handhafi geti hvenær sem er skipt seðlinum fyrir gull hjá ríkisféhirði eða fengið fimm silfurdollara í næsta útibúi Seðlabanka Bandaríkjanna.

Mynd 2

Á  mynd 2 er seðill frá 1953. Þá er kominn annar texti sem áréttar að seðillinn sé lögmæt greiðsla á öllum skuldum.  Ekki er þó lengur hægt að fá gull úr ríkissjóði fyrir seðilinn en krafan um fimm silfurdali stendur enn.

Mynd 3

Mynd 3 er af dollaraseðli frá 1963.  Seðillinn er þá ekki lengur ávísun á silfur eða gull. Hann er því ekki lengur skuldaviðurkenning, hvorki ríkissjóðs né seðlabankans. Þrátt fyrir þessa mikilvægu breytingu var haldið áfram að telja seðlana til skuldar hjá seðlabanka.

Mynd 4

Seðlabanki Íslands var stofnaður 1961 en áður voru hér starfandi bankar sem gáfu út eigin peningaseðla. Mynd 4 sýnir 50 kr seðill frá 1904 gefinn út af Íslandsbanka. Á honum stendur að Íslands Banki greiði upphæðina í gulli.

Mynd 5

Þegar Seðlabankinn gaf út sína fyrstu seðla 1961 (sjá mynd 5) voru þeir þegar án allra loforða um greiðslu í góðmálmum. Engu að síður voru þeir lögeyrir skv. lögum nr. 10/1961 og öllum skylt að taka við þeim sem greiðslu.

Í efnahagsreikningi Seðlabankans frá 1961 voru útgefnir seðlar færðir til skuldar og sú venja hefur haldist óbreytt þótt seðlar Seðlabanka Íslands séu ekki skuld hans í raun og veru.

Línurit 1

Eru tekjur vanmetnar og skuldir ofmetnar í uppgjörum Seðlabankans?
Eftirspurn eftir peningaseðlum jókst mjög hratt í hruninu og hefur haldið áfram að vaxa síðan eins og sést á línuriti 1 hér til hliðar.  Ef Seðlabankinn hefði fært þessa miklu aukningu seðlamagns til tekna, en ekki skuldar, þá hefði hagnaður bankans mælst ríflega 50 milljörðum meiri en ella og bankinn líklega getað greitt meiri arð til ríkisins. Það skiptir því verulegu máli fyrir ríkissjóð hvernig seðlar eru færðir til bókar hjá Seðlabankanum.

Hvers vegna er ekki löngu búið að leiðrétta þetta?
Kannski eru þessi bókhaldsmistök einfaldlega svo stór og svo algeng að engum dettur í hug að benda á þau. Endurskoðendur álykta kannski sem svo að fyrst þetta sé fært með þessum hætti hjá öllum seðlabönkum þá hljóti þetta að vera í lagi.

Kannski halda einhverjir að peningaseðlar séu krafa á hendur Seðlabankans um að afhenda einhver verðmæti í stað seðilsins og því eigi að færa seðilinn sem skuld. Sá ruglingur gæti hugsanlega stafað af því að Seðlabankanum ber að taka við peningaseðlum sem greiðslu ef banki óskar þess. En það sama gildir um aðra hér á landi, enda stendur í lögum um Seðlabanka að “Seðlar og mynt sem Seðlabankinn gefur út skulu vera lögeyrir til allra greiðslna með fullu ákvæðisverði.” Það myndi að sjálfsögðu ekki breytast þótt Seðlabankinn færði selda seðla til tekna í stað skuldar, hann myndi áfram taka við seðlum sem greiðslu. Seðlabankinn myndi í slíku tilfelli færa móttekna seðla til eignar eins og venja er að gera í bókhaldi.

Kannski stafar ruglingurinn af því að það má skila slitnum seðlum og fá nýja í staðinn. Flest fyrirtæki selja vörur sem hægt er að skila ef galli kemur upp en þau færa þó ekki seldar vörur sem skuld enda er ekki reiknað með að öllum vörum verði skilað. Kannski má segja að sum hugbúnaðarfyrirtæki sem selja hugbúnað með uppfærslurétti skipti út öllum seldum vörum fyrir nýjar ef galli kemur upp. Þau færa samt seldan hugbúnað til tekna en ekki skuldar. Líkt og með hugbúnað er framleiðslukostnaður peningaseðils aðeins lítið brot af söluverði. Þegar Seðlabanki afhendir nýjan 10.000 kr. seðil í stað gamals er framleiðslukostnaðurinn aðeins 20 kr. Það er því engin ástæða til að færa allt nafnvirðið sem skuld vegna ábyrgðar bankans á notagildi seðilsins.

Það er gagnlegt að geta séð stöðu peningaseðla í umferð á hverjum tíma. Ef seðlar væru færðir til tekna í stað skuldar yrði ekki lengur hægt að sjá magn seðla í umferð á efnahagsreikningi. Þetta er rétt en það ætti að vera auðvelt með upplýsingatækni nútímans að halda utan um magn seðla í umferð án þess að færa þá sem skuld í bókhaldinu.

En nóg af vangaveltum. Hugsanlega eru til góð og gild rök fyrir því færa peningaseðla til skuldar, þótt þeir séu löngu hættir að fela í sér fjárkröfu á seðlabanka, en ég hef ekki enn fundið þau rök.

Skiptir þetta einhverju máli?
Ef ekki koma fram skýr rök um annað, þá virðast skuldir Seðlabankans vera ofmetnar um ríflega 60 milljarða og tekjur áranna eftir hrun samanlagt vantaldar um hátt í 50 milljarða. Seðlabankinn hefði þá getað greitt ríkissjóði tugum milljarða meiri arð á tímabilinu. Það hefði vissulega skipt máli á erfiðum tímum í ríkisrekstrinum.

Það skiptir máli að bókhaldið sýni þann mikla hagnað sem fæst með peningasköpun Seðlabankans. Sá hagnaður gæti reyndar orðið enn meiri ef Seðlabankinn léti ekki duga að gefa út seðla og mynt, en gæfi einnig út rafpeninga sem er krafa nútímans. Þetta gæti Seðlabankinn gert einfaldlega með því að bjóða almenningi og fyrirtækjum að eiga greiðslureikninga í seðlabankanum sem mætti nota til að greiða rafrænt fyrir vörur og þjónustu. Bankarnir gætu áfram þjónustað almenning vegna reikningana þótt þeir væru geymdir í Seðlabankanum. Greiðslumiðlun í landinu væri þá öruggari, hún gæti jafnvel verið ódýrari og væri ekki framar háð því að einstakir bankar væru greiðslufærir.

Viðbót 22. desember 2017:
Svo virðist sem það gætu verið einhverjar breytingar í farvatninu hvað varðar bókfærslu útgefinna seðla hjá seðlabönkum.  Í dag var mér bent á nýlegt skjal frá IPSASB (International Public Sector Accounting Standards Board) þar sem fjallað er um þann möguleika að færa seðla til tekna í stað skuldar hjá seðlabönkum.

Viðbót 6. apríl 2018:
Ársreikningur Seðlabankans fyrir árið 2017 var birtur í gær á ársfundi bankans. Á bls. 41 er staðfesting bankaráðsins á efni ársreikningsins en ég er meðlimur í ráðinu og að minni ósk fylgir eftirfarandi fyrirvari minni áritun: “Frosti Sigurjónsson gerir þó þann fyrirvara að hann telur að ekki eigi að færa seðla og mynt til skuldar í efnahagsreikningi”.