Er sjálfakandi rafbíll handan við hornið?

Getur það verið rétt að árið 2030, eftir aðeins 13 ár, verði sjálfakandi rafbílar nær einu farartækin á götum Reykjavíkur? Samkvæmt niðurstöðum skýrslu frá RethinkX sem fjallar um framtíðarhorfur í samgöngum er það talið líklegt. RethinkX færa rök fyrir því að þróun sjálfakandi rafbíla verði mjög hröð og framundan sé alger bylting í bílaiðnaði. Þeir vara einnig við því að opinberir aðilar sem ekki fylgjast nægilega vel með þessari þróun eigi á hættu að fjárfesta í úreltri og óhagkvæmri samgöngutækni.

Í skýrslunni eru færð rök fyrir að sjálfakandi rafbílar muni yfirtaka bílamarkaðinn með sívaxandi hraða. Árið 2030 muni akstursþjónustufyrirtæki starfrækja stóra flota af sjálfakandi rafbílum sem muni flytja fólk milli staða með svipuðum þægindum og leigubílar gera í dag. Kostnaðurinn verði hins vegar aðeins brot af því sem við eigum að venjast. Strætisvagnar, léttlestir og sporvagnar muni vart geta keppt við þessa nýju tækni, hvorki í verði né hagræði fyrir notendur.

Af þessu mun einnig leiða að sífellt færri vilji eiga einkabíl. Dæmigert er að einkabíll sé ónotaður 90% af líftímanum og noti bílastæðið meira en vegina. Þetta er arfaslök nýting á dýru farartæki og landrými. Fólk virðist réttlæta þessa sóun með þeim miklu þægindum og frelsi sem einkabíllinn veitir. Með tilkomu sjálfakandi rafbílaflota bjóðast hins vegar svipuð þægindi og frelsi fyrir aðeins brot af þeim útgjöldum sem fylgja einkabíl. Flestir muni kjósa að spara sér þessi útgjöld.

Með stórfelldri fækkun einkabíla í þéttbýli mun fjöldi af bílastæðum verða ónotuð. Ólíkt einkabílum sem dvelja 90% af líftíma sínum á bílastæðum, verða sjálfakandi rafbílar 90% af líftímanum í akstri og lítil þörf fyrir bílastæði.

Víðtækar afleiðingar
RethinkX benda á að ráðstöfunartekjur heimila geti aukist verulega (um 10%) þegar einkabíll hættir að íþyngja rekstri heimilisins. Þar sem sjálfstýrðir rafbílar á vegum akstursfyrirtækja geta afkastað margfalt fleiri farþegum en einkabílar, má gera ráð fyrir mikilli fækkun bifreiða. Efirspurn eftir nýjum bílum gæti fallið um allt að 70% með tilheyrandi afleiðingum fyrir bílaframleiðendur, söluaðila, þjónustuaðila, tryggingafélög og aðra aðila sem tengjast greininni.

RethinkX spá því að eftirspurn eftir olíu verði mest 200 milljónir tunna árið 2020 en dragist síðan hratt saman og verði 70 milljónir tunna árið 2030. Verð á olíu muni lækka verulega og dýrari olíulindir verði ósamkeppnishæfar í verðum t.d. í Norðursjó og víðar.

RethinkX benda á að sjálfkeyrandi rafbílar muni leiða til minni losunar á gróðurhúsalofttegundum og færa rök fyrir því að sól- og vindorka muni að miklu leiti duga til að knýja bílaflotana árið 2030. Mengun í borgum vegna útblásturs frá umferð mun minnka um 90% og þannig dragi úr sjúkdómum vegna loftmengunar.

Í skýrslu RethinkX eru færð rök fyrir því hvers vegna þessi samgöngubylting mun gerast svona gríðarlega hratt. Í þeim rökum og gögnum er margt sem kom mér verulega á óvart, enda taldi ég, eins og líklega flestir, að sjálfkeyrandi rafbílar yrðu vart raunhæfur kostur í nánustu framtíð. En RethinkX færa sannfærandi rök fyrir sínu máli. Þeir rekja meðal annars stöðuna í rafbílatækni, rafhlöðutækni, sólorkutækni, þróun í sjálfsýringu fyrir bíla ofl.

Mæli eindregið með þessari skýrslu fyrir þá sem vilja kynna sér þessa þróun nánar. Það má hala skýrslunni niður ókeypis með þessum tengli: RethinkX Transport in 2030