Greinin sem Morgunblaðið birti ekki

eustarsatseaMeðfylgjandi er grein sem ég sendi Morgunblaðinu nokkrum dögum áður en alþingi greiddi atkvæði um umsókn inn í Evrópusambandið. Greinin var af einhverjum ástæðum aldrei birt sem var auðvitað mjög leitt.  Hér kemur greinin í heild sinni.

Ríkisstjórnarflokkarnir hafa gert tillögu um að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu en aðildarviðræður geta ekki hafist án þess að slík umsókn sé lögð fram áður. Þegar taka skal ákvörðun af slíkri stærðargráðu hlýtur það að teljast lágmarkskrafa að allur undirbúningur sé sérstaklega vandaður og sem breiðust samstaða um málið.
Asi og óeining
Tillaga stjórnarflokkana ber þess hinsvegar merki að vera unnin í flýti og í beinni andstöðu við stóran hluta þingheims og líklega meirihluta landsmanna, ef marka má nýlegar skoðanakannanir. Tillagan innifelur hvorki skýr markmið né áætlun um ávinning af aðild. Ekkert mat er lagt á kostnað við umsóknar- og samningsferlið sem þó hlýtur að nema hátt í milljarð eða jafnvel meir. Slíka fjárfestingu ætti aldrei að leyfa nema sterk rök fylgi um mikinn ávinning fyrir þjóðina.
Aðild að ESB er engin lausn 
ESB mun ekki greiðar skuldir Íslands og það tekur mörg ár, ef ekki áratugi að uppfylla skilyrði um evruaðild. Þrátt fyrir aðild að ESB, glíma Írar, Spánverjar, Grikkir, Pólverjar og Lettar við gríðarlegan efnahagsvanda en fá litla aðstoð frá ESB. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er kallaður inn. Það er því ljóst að ESB aðild hvorki hindrar aðildarþjóðir í að gera mistök né forðar þeim úr vanda. Við þurfum að leysa sjálf úr okkar vandamálum.
Gríðarlegur kostnaður við umsókn 
Fyrri ríkisstjórn eyddi hálfum milljarði í draum um sæti í öryggisráði Sameinuðu Þjóðanna. Það mistókst. Ljóst er að samningaferlið við ESB verður enn dýrara. Það mun standa í tvö ár hið minnsta og útheimta gríðarlega vinnu sérfræðinga, ráðuneyta og sendinefnda. Heimsækja þarf ráðamenn 27 aðildarríkja til að hvetja þá til að samþykkja umsókn Íslands og líka til að afla fylgis sjónarmiðum okkar um varanlegar undanþágur frá sjávarútvegs- og landbúnaðarstefnu ESB og fleira í þeim dúr. Jafnvel þótt samningaferlið kostaði okkur “bara” einn milljarð væru það samt gríðarleg útgjöld fyrir þjóð sem þarf að leggja í sársaukafullann niðurskurð á öllum sviðum.
Sundrung á versta tíma 
Umsókn um aðild að Evrópusambandinu varðar sjálfstæði þjóðarinnar. Þetta er þegar orðið mikið hitamál sem mun skipta þjóðinni í tvær andstæðar fylkingar einmitt þegar það er mikilvægara en nokkru sinni að allir vinni saman að því að vinna landið upp úr kreppuni.
Óvissa ríkir fram að þjóðaratkvæðagreiðslu
Aðildarsinnar gefa sér að óvissu sé eytt með því að leggja inn umsókn og útlendingar fái þá strax meira traust á landinu. Töluverðar líkur eru hins vegar á því að þjóðin muni hafna aðild. Skoðanakannanir benda til þess að meirihluti landsmanna vilji ekki ganga í ESB og fylgi við aðild hefur farið minnkandi. Skynsamir útlendingar munu því áfram vera í óvissu um aðild þar til þjóðaratkvæði hefur farið fram um samninginn.
Spyrjum þjóðina áður en gert er bjölluat hjá 27 evrópulöndum 
Norðmenn hafa í tvígang fellt aðildarsamninga við ESB. Kostnaður var mikill og samskipti urðu stirðari við Evrópu í nokkurn tíma á eftir. Nú eru sáralitlar líkur á að Norðmenn sæki um aftur nema yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar sé því fylgjandi í skoðanakönnunum. Getum við kannski lært eitthvað af reynslu Norðmanna? Góð byrjun væri að kynna þjóðinni kosti og galla aðildar með hlutlausum hætti, þýða Lissabon sáttmálan hvetja til umræðu og kanna hug þjóðarinnar með skoðanakönnunum.
Kynnum okkur fyrst það sem hægt er að vita 
Aðildarsinnar halda því fram að það sé ómögulegt að komast að því hvað felst í aðild nema sótt sé um og gengið til samninga. Þetta er alrangt því það er til miklu ódýrari og fljótlegri leið. Allir sáttmálar, reglur og aðildarsamningar Evrópusambandsins liggja fyrir. Við getum nú þegar vitað 95% af því sem máli skiptir að vita. Það er reyndar með ólíkindum að ekki sé búið að þýða Lissabon sáttmálann og kynna hann áður en þingið er krafið um að móta afstöðu til aðildarumsóknar.
Óraunhæfar væntingar um undanþágur 
Væntingar aðildarsinna um varanlegar undanþágur frá meginreglum ESB virðast óraunhæfar ef eitthvað er að marka orð embættismanna ESB. Aðrar þjóðir hafa ekki fengið umtalsverðar varanlegar undanþágur og spurning hvers vegna þær ættu að una Íslandi þess að fá undanþágur sem þeim var sjálfum neitað um. Sambandinu er meinilla við undanþágur. Samningstaða okkar gæti ekki verið slakari en einmnitt núna. Jafnvel þótt einhverjar varanlegar undanþágur fengjust á einhverjum sviðum er óvarlegt að treysta því að þær haldi til langframa. Evrópusambandið er í stöðugri þróun og hún hættir ekki þótt Ísland gangi í það.
Tillaga ríkisstjórnarinnar um aðildarumsókn er illa undirbúin, hún er nýtur hvorki fylgis þings né þjóðar. Ávinningur af henni er óljós og væntingar ríkisstjórnar um undanþágur eru óraunhæfar. Fyrirsjáanlegur kostnaður er gríðarlegur. Málið er til þess fallið að sundra þjóðinni einmitt þegar hún þarf að vera samstíga í lausn aðsteðjandi vandamála.