Ég stefni á sölvafjöru í Eyjum um helgina

SVIPMYND

Ferðaleit Frosti Sigurjónsson er bjartsýnn og segir vöxt Dohop rétt að byrja enda séu miklir möguleikar.
Bloggarinn Frosti Sigurjónsson stýrir Dohop. Á vefsetri fyrirtækisins finnst ódýrt flug og þjónusta við flugvelli er vaxandi þáttur í rekstrinum.
Eftir Sigurð Boga Sævarsson – sbs@mbl.is
Heimsóknum á flugleitarvefinn Dohop.com hefur fjölgað mikið eftir að heimskreppan skall á. Nærri lætur að aðsóknin hafi tvöfaldast síðustu mánuði og erlendu tekjurnar eru sömuleiðis meiri en var. Eðlilega hættir fólk ekki að ferðast en nú skiptir lægsta verð enn meira máli en áður gerðist,“ segir Frosti Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Dohop.

Auka notagildið

Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Dohop gerði á dög- unum samning við Malaysia Airports um þróun og rekst- ur flugupplýsingakerfis fyrir vefsvæði flugvallarins í Kuala Lumpur í Malasíu. Þar er flugleit frá Dohop í aðalhlutverki sem gerir fólki gerlegt að finna flug til um 3.000 flugvalla um allan heim. Sama fyrirtækið rekur alla helstu flugvellina í Malasíu, en farþegar sem þar fara um eru um 50 milljónir á ári hverju.„Það sem vakir fyrir rekstraraðilum flugvallanna er einfaldlega að auka notagildi vefsvæðanna og þar kemur flugleitartækni Dohop að notum,“ segir Frosti. Hann segir ýmis verkefni vera í undirbúningi hjá Dohop bæði fyrir flugvelli og flugfélög.

„Sérstaða okkar er að finna ódýrt flug og tengiflug með lággjaldaflugfélögunum, sem eru hvarvetna í sókn.“

Leitaði að lundapysjum

Frosti Sigurjónsson er fæddur árið 1962 í Reykjavík en á ættir að rekja til Vestmannaeyja. „Ræturnar liggja í Eyjum. Sem strákur var ég þar oft á sumrin, leitaði að lundapysjum og lék mér í Spröngu eins og Eyjapeyja er háttur. Um næstu helgi stefni ég svo að því að komast á sölvafjöru, helst úti í Eyjum.Frosti las viðskiptafræði við Háskóla Íslands og aflaði sér seinna MBA-gráðu við London Business School. Hann hefur komið víða við, var fjármálastjóri hjá Marel, framkvæmdastjóri Nýherja og stjórnarformaður hjá CCP svo eitthvað sé nefnt. Undanfarin ár hefur Frosti einbeitt sér að Dohop.

„Vaxtarmöguleikarnir í frekar uppbyggingu í ferðaleit eru góðir. Dohop er rétt að byrja að vaxa og við erum því bjartsýn á framtíðina.“ 

Æfa mig í að hugsa og skrifa

Síðustu mánuði hefur Frosti gert sig gildandi í um- ræðu um ýmis þjóðfélagsmál. Hann stóð meðal annars að gjörningi á Austurvelli á dögunum, þar sem fólk kom saman og framkallaði hávaða þegar Alþingi greiddi atkvæði um Icesave-samninginn. Einnig er Frosti þátttakandi í starfi Heimssýnar, samtaka þeirra sem telja hagsmunum Íslands best borgið utan ESB.„Það væri margt öðuvísi á Íslandi ef stjórnarhættir væru gegnsærri og ríkara tillit tekið til sjónarmiða og skoðana almennings. Ég hef að undanförnu reifað skoðanir mínar í bloggpistlum á vidhorf.blog.is. Byrjaði fyrst að blogga til að æfa mig í að hugsa og skrifa. Þetta hefur undið upp á sig. Í gegnum bloggið hef ég kynnst mörgu góðu fólki sem hefur áhuga á að kryfja vandamál samtímans á málefnalegan hátt og bæta þjóðfélagið.“