Gleymd skýrsla Stiglitz um peningastefnu fyrir Ísland

225px-Joseph_Stiglitz Í nóvember árið 2001 afhenti hagfræðingurinn Joseph Stiglitz Seðlabanka Íslands skýrslu um peningastefnu fyrir smá og opin hagkerfi með sérstökum ráðleggingum fyrir Ísland. Nú blasir við að ef ráðgjöf Stiglitz hefði verið tekin alvarlega hefði mátt afstýra hruninu hér á landi, eða í það minnsta draga mjög úr því tjóni sem varð. Margt í skýrslunni á jafn vel við í dag og árið 2001.

Stiglitz, sem var um skeið aðalhagfræðingur Alþjóðabankans er nú prófessor hjá Columbia háskóla. Hann er í hópi virtustu hagfræðinga heims og hlaut árið 2001 Nóbelsverðlaun í hagfræði.
Í skýrslu sinni fyrir Seðlabankann fjallar Stiglitz almennt um hættur í smáum, opnum hagkerfum og hvernig megi draga úr þeim. Hann telur að stjórnvöldum beri skylda til að grípa inní til að auka stöðugleika, draga úr líkum á efnahagsáföllum og lágmarka kostnað sem af áföllum hlýst.
Árið 2001 hafði viðskiptahalli farið vaxandi og Stiglitz taldi ástæðu til að hafa áhyggjur af þeirri þróun. Erlent lánsfé streymdi óheft inn í landið í kjölfar aukins frjálsræðis á fjármálamörkuðum, en einnig vegna væntinga um stöðugt gengi og að ríkið myndi standa við bakið á bankakerfinu sem var að mestu í ríkiseigu. Samkeppni milli bankana sem nýlega höfðu fengið aukið frelsi, birtist í kapphlaupi um markaðshlutdeild með tilheyrandi útlánavexti.  Stiglitz hvatti Seðlabanka og stjórnvöld til að grípa þegar til aðgerða til hemja vöxt bankana og draga úr áhættu landsins af bankahruni.
Á þessum tíma var Már Guðmundsson aðalhagfræðingur Seðlabankans. Hann tók saman úrdrátt úr skýrslunni svo honum var kunnugt um innihald hennar. Ekki varð hann þó  þeirrar gæfu aðnjótandi að afstýra því hruni sem Stiglitz varaði við. Nú virðist skýrslan gleymd, því í nýju sérriti Seðlabankans “Peningastefnan eftir höft” sem út kom í desember er hvergi minnst á hana þótt vitnað sé í meira en 100 heimildir aðrar.
En hverju var Stiglitz að vara við? Tökum þrjú dæmi úr skýrslunni:

Screen shot 2010-12-28 at 15.13.22

1. Viðskiptahalli dregur úr stöðugleika
Varað var við því að vaxandi viðskiptahalli (innflutningur meiri en útflutningur) gæti dregið úr stöðugleika hagkerfisins. Viðskiptahalli kallar jafnan á aukningu á erlendum skuldum. Ef stór hluti skulda er í erlendri mynt og til skamms tíma dregur það úr stöðugleika. Kröfuhafar geta orðið órólegir af minnsta tilefni og rokið með fjármagn úr landi. Slíkt áhlaup væri áfall fyrir gjaldmiðilinn.
Viðskiptahallinn sem Stiglitz varaði við var smáræði miðað við þann gríðarlega viðskiptahalla sem hér varð árin fram að hruni.
Þar sem hækkun stýrivaxta getur leitt til gengishækkunar og enn meiri innflutnings benti Stiglitz á aðrar leiðir. Þær voru ekki farnar. Seðlabankinn endaði með því hækka vexti, sem leiddi einmitt til styrkingar gengisins, aukins innflutnings og enn meiri viðskiptahalla.
2. Bankarnir vaxa allt of hratt
Útlánavöxtur bankana hafði um þetta leiti verið um og yfir 25% í þrjú ár. Þekkt er að hraður vöxtur leiðir oft til hrakandi gæða útlánasafna. Stiglitz efaðist um að vaxtahækkanir dygðu til að slá á eftirspurn eftir lánum. Vaxtahækkanir myndu hins vegar draga mátt úr atvinnulífinu, hækka gengi og auka kaupmátt og neyslu. Grípa þyrfti til fleiri tækja. Til dæmis mætti setja reglur um að þeir bankar sem stækkuðu of hratt, greiddu hærri prósentu í tryggingasjóð innistæðueigenda,  gera hærri kröfu um eiginfjárhlutfall þeirra og auka bindiskyldu. Ekkert af þessu var gert og vöxtur bankanna varð skefjalaus fram að hruni.
3. Lán í erlendum gjaldmiðlum
Stiglitz taldi ástæðu til að vara við því að bankar byðu erlend lán til aðila sem ekki gætu sýnt fram á erlendar tekjur. Bönkum hætti til að vanmeta hve berskjaldaðir slíkir lántakendur væru fyrir gengisbreytingum og vaxtaálagið yrði því of lágt. Vextir myndu ekki endurspegla raunverulega áhættu gengislána. Stiglitz lagði meðal annars til að lántakendum yrði skylt að upplýsa um skuldir í erlendum myntum svo gengisáhætta yrði sýnilegri. Letja þyrfti banka til að lána erlend lán til innlendra aðila t.d. með álögum. Ekkert var að gert og erlendar lánveitingar uxu úr hömlu fram að hruni.
Varað er við fleiri hættum en látum þessi dæmi nægja. Skýrslan sýnir að innan Seðlabankans og líklega víðar, var þekking á þeim hættum sem steðjuðu að fjármálakerfinu og hvaða úrræði væru tiltæk og nauðsynleg til að draga úr áhættu. Mjög leitt að sú þekking hafi ekki nýst betur.
Skýrslu Sigtlitz má finna á vef Seðlabankans:
Á íslensku: http://www.sedlabanki.is/uploads/files/ft022-3.pdf
Úrdráttur: http://www.sedlabanki.is/?PageID=13&NewsID=149