Evruvandinn: Ísland þarf viðbragðsáætlun

Screen shot 2010-12-30 at 21.07.23 Á meðan ríkisstjórnin keppir að því að koma Íslandi í Evrópusambandið, svo hér megi taka upp evru, hrannast óveðursskýin upp yfir myntbandalaginu.

Líkur á endalokum evrusamstarfsins eru enn sem komið er taldar litlar, en kannski meiri líkur á að evrusvæðinu verði skipt í tvo hluta. Hvers kyns breytingar af þessu tagi myndu þó hafa víðtækar afleiðingar um allan heim og líka hér á Íslandi.
Árið 2007 skrifaði Barry Eichergreen, prófessor í hagfræði við Kaliforníuháskóla skýrslu fyrir hagfræðstofnun Bandaríkjanna, þar sem hann fjallar um endalok evrusvæðins og hverjar helstu pólitískar, efnahagslegar, lagalegar og tæknilegar afleiðingar gætu orðið.
Eichergreen færir rök fyrir því að útganga úr myntbandalaginu sé þyrnum stráð en þó líklega minnst verst fyrir Þýskaland.
Aðildarríki (annað en Þýskaland) sem tilkynnir áform um útgöngu úr myntbandalaginu skapar með því væntingar um gengisfellingu hins nýja gjaldmiðils. Allir sem geta, munu vilja flytja evrur sínar úr því landi fyrir myntbreytingu. Það myndi jafngilda áhlaupi á alla banka þess lands.
Öðru máli gegnir um Þýskaland, enda mætti reikna með að nýr gjaldmiðill þess myndi styrkjast gagnvart evru. Um leið og áform um endurkomu þýska marksins spyrðust út myndu evrur streyma hvaðanæva af evrusvæðinu og inn á Þýska bankareikninga.
Sumir telja líklegt að myntbandalagið skipst í tvo hluta þar sem Þýskaland og sterku hagkerfin yrðu í einum hluta en svonefnd PIIGS lönd í hinum.
Allir hljóta að vona að Evrópusambandinu takist að finna lausn á vanda myntbandalagsins. En hvað ef það tekst nú ekki? Hver yrðu þá áhrifin á eignir og skuldir Íslendinga í evrum? Hver yrðu áhrifin á Icesave samninginn? Hvað geta stjórnvöld og einkaaðilar gert núna til að takmarka tjón sitt af hugsanlegum endalokum / breytingum myntbandalagsins? Hvað yrði um umsóknina í Evrópusambandið?
Á meðan óvissa ríkir um afdrif evrunnar munu skynsamir fjárfestar kjósa að geyma evrueignir sínar í Þýskalandi, fremur en í öðrum evrulöndum. Heyrst hefur að þýskur almenningur hafi um nokkurt skeið hamstrað evruseðla sem útgefnir eru í Þýskalandi.
Svo má velta því fyrir sér hvað yrði um evrur í bönkum utan evrulanda. Varla breytast þær í þýsk mörk. Nei, þær verða líklega áfram evrur og falla því í verði ef Þýskaland tekur upp markið.
Þeir skuldarar sem hafa eitthvað val, munu kjósa að hafa evruskuldir sínar útgefnar í PIIGS löndunum, þá er möguleiki á að þeim verði sjálfkrafa breytt í veikari mynt.
Þegar land tekur upp nýjan gjaldmiðil er ekki bara skipt um seðla og mynt. Allar innistæður í evrum breytast, allar evrukröfur kreditkortafyrirtækja og öll skuldabréf í evrum sem útgefin eru í viðkomandi landi munu líklegast breytast í hina nýju mynt.  Annars gengur dæmið varla upp.
Á meðan engin lausn er í sjónmáli á vanda myntbandalags Evrópusambandsins er ekki hægt að útiloka afdrifaríkar sviptingar. Íslensk stjórnvöld hljóta því að biðja Seðlabankann að undirbúa næmigreiningu og viðbragðsáætlun, enda er það skylda stjórnvalda að gæta þjóðarhagsmuna.
Heimildir:
NBER WORKING PAPER SERIES, THE BREAKUP OF THE EURO AREA, Barry Eichengreen, October 2007