Englandsbanki segir viðskiptabanka búa til þá peninga sem þeir lána út.

Kjarninn 32. útgáfaGrein þessi birtist í Kjarnanum þann 27. mars 2014.

Óhætt er að segja að grein um peningamyndun sem birtist í nýjasta ársfjórðungsriti Englandsbanka komi á óvart. Englandsbanki, sem er seðlabanki Bretlands, segir það vera útbreiddan misskilning að viðskiptabankar þurfi að safna innlánum til að geta veitt lán. Sumar kennslubækur í hagfræði séu rangar að þessu leiti. Hið rétta sé, að þegar bankar veiti lán þá búi þeir einfaldlega til nýja peninga. Þessu er nánar lýst í greinum og myndböndum frá Englandsbanka.

Þótt flestum komi þetta kannski á óvart þá er þetta ekki nýtt fyrir öllum. Undanfarin ár hafa ýmsir hagfræðingar og hugveitur um peningamál vakið athygli á því hvernig bankar búi til peninga með útlánum. Sumir telja jafnvel að peningamyndun banka sé ein af ástæðum vaxandi skuldsetningar, verðbólgu og óstöðugleika í peningakerfum heimsins.

Hvernig býr banki til peninga?

Þegar viðskiptabanki veitir lán hækkar hann upphæðina á hlaupareikningi lántakandans sem nemur upphæð lánsins. Upphæðin á hlaupareikni lántakandans er loforð bankans um að afhenda lántakandanum peningaseðla þegar honum hentar. En lántakandinn vill ekki peningaseðla enda mun þægilegra að nota innstæðuna sjálfa sem gjaldmiðil.

Viðskiptabankar geta einnig búið til peninga með því að kaupa eignir og greiða fyrir þær með innstæðum sem þeir búa til. Flest sem hægt er að eignfæra í efnahagsreikningi geta bankar keypt með peningum sem þeir búa til úr engu.

Meira en 90% af öllum peningum í hagkerfinu hafa verið búnir til af viðskiptabönkum sem lán til viðskiptavina. Seðlabankinn hefur búið til mjög lítinn hluta af þeim gjaldmiðli sem við notum daglega og köllum íslensku krónuna.

Þótt ótrúlegt sé, hafa seðlabankar haft lítinn áhuga á að hemja peningamyndun banka. Þess í stað hafa flestir seðlabankar einblínt á verðbólgumarkmið og notað stýrivexti til að reyna að ná þeim. Hér leiddi sú tíska til þess að íslenskir bankar gátu fimmfaldað peningamagn í umferð á örfáum árum. Seðlabankinn taldi ekki ástæðu til að grípa í taumana. Svo gríðarleg aukning á peningamagni, langt umfram hagvöxt og þarfir hagkerifisins, endaði mjög illa.

Af hverju er þetta leyft?

Það er undarlegt að viðskiptabankar megi búa til peninga úr engu þegar öllum öðrum er það stranglega bannað. Ef einhver maður út í bæ býr til seðla í tölvuprentaranum sínum og notar þá út í búð, þá er það kallað peningafölsun – mjög alvarlegur glæpur. Alvaran felst í því að þegar falsaðir peningar komast í umferð þá rýrnar verðgildi allra peninga sem fyrir eru. Glæpur peningafalsarans felst þannig í því að ræna kaupmætti af öllum sem eiga peninga. Þegar bankar búa til peninga með útlánum rýrir það sömuleiðis kaupmátt þeirra peninga sem fyrir eru. Spyrja má, af hverju er það þá ekki glæpur líka?

Flestir virðast halda að seðlabankinn búi til peningana en bankarnir láni bara út sparnað fólks. Eftir að Englandsbanki hefur staðfest að bankar búa til þá peninga sem þeir lána út, hlýtur fólk að velta því fyrir sér hvort það sé viðunandi. Hver vill taka lán í banka og greiða af því vexti, vitandi að bankinn bjó peningana bara til?

Gegndarlaus peningaprentun og enginn gerði neitt.

Krónan hefur rýrnað gríðarlega að kaupmætti frá því 1961 er Seðlabankinn fékk einkaleyfi á útgáfu hennar. Ástæðan er sú að seðlabankinn hefur leyft íslenskum bönkum að búa til allt of mikið af krónum.  Áratugum saman fengu bankar að auka peningamagn langt umfram hagvöxt. Afleiðingin af fjölgun króna umfram hagvöxt er sú að kaupmáttur hennar rýrnaði.

Því er iðulega haldið fram að hér hafi orsök verðbólgu verið víxlverkun kauplags og verðlags. Líklega skipti þó meira máli að bankarnir sem þá voru í eigu ríkisins juku peningamagn skefjalaust, oft um tugi prósenta árlega.

Ríkisbankarnir voru einkavæddir um aldamótin en þá tók ekki betra við. Einkabankarnir voru mun djarfari í útlánum en ríkisbankarnir. Í þetta sinn var verðbólga minna vandamál, því seðlabanki hækkaði stýrivexti og krónan styrktist við það. Sterkari króna þýddi að innfluttar vörur urðu ódýrari og verðbólgan mældist því lægri en ella. Einkabankarnir fengu því að auka peningamagn um tugi prósenta ár hvert þar til útlánabólan sprakk.

Hvað má læra af þessu?

Það er ljóst að þegar bönkum er leyft að búa til peninga, þá búa þeir til eins mikið af peningum og þeir mögulega geta. Krónan tapaði verðgildi sínu vegna gegndarlausrar peningaprentunar sem fékk að viðgangast áratugum saman án nokkurs sjáanlegs aðhalds.

Það var ekki nóg að setja verðbólgumarkmið til að tryggja stöðugleika krónunnar – það hefði líka þurft að koma í veg fyrir að bankarnir byggju til of mikið af peningum.

Það er ljóst að peningamálum hefur verið afskaplega illa stýrt í fortíðinni og við þurfum að læra af því. Það er mikið svigrúm til að stýra peningamálum betur í framtíðinni en gert hefur verið til þessa. Hafa þarf nánara eftirlit með peningamyndun bankanna. Seðlabankinn gæti til dæmis sett reglur um að bankarnir megi ekki auka peningamagn hraðar en hagvöxtur leyfir. Svo mætti líka banna bönkum að búa til peninga. Þá myndi seðlabankinn sjá um að stýra peningamagni beint. Hægt er að kynna sér þær hugmyndir nánar á vefnum www.betrapeningakerfi.is