Þurfum við virkilega meiri steinsteypu núna?

surgery_468x399Niðurskurður í heilbrigðiskerfinu er nú í fullum gangi. Lokanir á skurðstofum og uppsagnir eru daglegt brauð. Fall krónunnar bætir gráu ofan a  svart, því laun starfsfólks í heilbrigðisstéttum á Íslandi eru nú orðin ósamkeppnisfær við það sem býðst á norðurlöndunum. Hættan á landflótta í heilbrigðisstétt magnast. Hvað er til ráða?

Einhvern veginn datt mér ekki í hug að lausnin væri sú að byggja fleiri sjúkrahús. Þess vegna brá mér í brún þegar ég sá þessa frétt á RÚV:

Bygging nýs sjúkrahúss er gríðarlega stórt verkefni og var minnst sérstaklega á það í stöðugleikasáttmálanum sem gerður var í sumar. Viðræður ríkisvaldsins og lífeyrissjóðanna um fjármögnun þessa verkefnis hafa tafist að undanförnu ekki síst vegna Icesave-samningsins. Þær eru nú að komast á skrið aftur og er fundur um verkefnið í viðræðunefnd í dag.[Heimild RÚV]

Það er mikilvægt að halda í störf í byggingariðnaði en það er virðist þó vera enn mikilvægara að halda í störf í heilbrigðiskerfinu. Sé það ekki gert kemur óhjákvæmilega að því að biðraðir munu lengjast eftir þjónustu, einnig eftir lífsnauðsynlegri þjónustu eins og skurðaðgerðum, krabbameinslækningum og bráðamóttöku. Biðraðir voru samt nógu langar áður en niðurskurðurinn hófst:

Sjúklingar hér heima þurfa yfirleitt að bíða sárþjáðir í 327 daga eftir mjaðmaaðgerð, svo að dæmi sé tekið: þetta mun vera Evrópumet. Gamalt fólk þarf jafnan að bíða í 18 mánuði eftir plássi á dvalarheimilum og þannig áfram. [Vísbending 2004, Þorvaldur Gylfason]

Eftir því sem heilbrigðisþjónusta okkar verður lakari og ósamkeppnishæfari við það sem býðst í nágrannalöndum þá magnast hættan á landflótta. Eins og venjulega, þá fara þeir fyrstir sem hafa mesta menntun og mesta möguleika til að skapa verðmæti í kringum sig og eftir sitja hinir til að takast á við vandann.

Er óhætt að skera frekar niður í heilbrigðiskerfinu þegar lækkun krónunnar er nú þegar búin að lækka laun í heilbrigðisstétt um helming?

Þessi sjúkrahúsbygging verður að bíða betri tíðar.  Fjármagnið ætti frekar að nota til að halda heilbrigðiskerfinu í fullum gangi og draga úr landflótta hjá heilbrigðisstéttum. Það er arðbær fjárfesting.