Þingræða um ESB skýrslu Hagfræðistofnunar

Ræða sem ég flutti í Alþingi 20. febrúar um ESB skýrslu Hagfræðistofnunar.

Virðulegi Forseti,

Við ræðum skýrslu utanríkisráðherra um stöðu aðildarferlisins og horfur í Evrópusambandinu.

Þær upplýsingar sem fram koma í skýrslunni styðja þá skoðun mína að forsendur aðildarumsóknarinnar séu brostnar og Evrópusambandið sé alls ekki sú lausn á vandamálum Íslands sem haldið var fram.

Hvað varð um hraðferðina inn í ESB? Því var haldið fram að hægt væri að hægt væri að ljúka samningi á 9 til 18 mánuðum og vitnað í sjálfan stækkunarstjóran Olli Rehn í því efni. Ekki hefur sú forsenda staðist. Það er ekki einu sinni búið að opna erfiðu kaflana um sjávarútveg og landbúnað. Það er ekki búið að ljúka nema 11 köflum af 33 á fjórum árum.

Því var líka haldið fram að varanlegar undanþágur væru í boði. Skýrsla Hagfræðistofnunar sýnir hinsvegar fram á að það eru engar varanlegar undanþágur, aðeins tímabundnar sérlausnir. Samningar snúast því aðeins um hvernig og hversu hratt umsóknarríkið uppfyllir skilyrði og regluverk Evrópusambandsins.

Árið 2009 var íslenska þjóðin í áfalli vegna efnahagshruns. Sjálfstraust þjóðarinnar og trú hennar á framtíðinni var í sögulegu lágmarki. Við þær kringumstæður var aðild að Evrópusambandinu kynnt sem lausn á vandanum. Aðild myndi útiloka frekari kollsteypur í framtíðinni og öll áföll yrðu bærilegri í mjúkum faðmi Evrópusambandsins. Annað kom á daginn. Kreppan beit líka á aðildarríki Evrópusambandsins. Sum þeirra þurftu jafnvel að leita á náðir hins harðskeytta þríeykis sem samanstendur af Alþjóða gjaldeyrissjóðnum, Seðlabanka Evrópu og Framkvæmdastjórn ESB. Björgunaraðgerðunum þríeykisins fylgjdu afar harðar skilmálar, miklu harðari en Ísland mátti þola. Í Grikklandi var skorið inn að beini í ríkisrekstri. Skortur varð á lyfjum í landinu. Hjartaáföllum hefur fjölgað um 50% hjá grískum konum frá hruni og 65% ungra kvenna er án atvinnu.  Á Írlandi var skattgreiðendum gert að axla skuldir fallina fjármálafyrirtækja. Þeir fengu ekkert val um það. Á Kýpur krafðist þríeykið veða í lífeyrissjóðum landsmanna og í gaslindum landsins. Þannig mætti lengi telja. Það er allavega ljóst núna að þegar á móti blæs, þá er Evrópusambandið ekki það skjól sem menn gerðu sér vonir um.

Því var haldið á lofti að gjaldmiðill Íslands væri ónýtur og myntbandalag Evrunnar lausnin. En hið gagnstæða hefur komið í ljós. Efnahagskreppan afhjúpaði djúpstæð vandamál í myntbandalaginu, vandamál sem ekki hafa verið leyst. Aðildarríki evrunnar eru með ólíkan efnahag, ósveigjanlegan vinnumarkað, hreyfanleiki vinnuafls er miklu minni en t.d. í Bandaríkjunum og það er ekki eining um að flytja fjármagn frá betur stöddum svæðum til bágstaddra svæða. Evran veldur aðildarríkjum myntbandalagsins því skaða, hún eykur atvinnuleysi og kyndir undir pólitískri spennu. Sumir telja að eina lausnin sé að breyta evrusvæðinu í eitt ríki. Pólverjar, Svíar, Bretar og Danir halda dauðahaldi í sína gjaldmiðla og sýna ekki áhuga á að ganga í myntbandalagið.

Í stöðuskýrslu um Ísland sem unnin var fyrir Evrópuþingið í nóvember sl. er skjótur efnahagsbati Íslands þakkaður því að gengi krónunnar gat lækkað, miklum viðskiptaafgangi og fjarlægð Íslands frá evrusvæðinu. Sú forsenda aðildarumsóknarinnar að evran sé lausnin og krónan vandamálið stenst því ekki skoðun.

En hvað með lægri vexti? Skýrsla Hagfræðistofnunar sýnir að vaxtastig er mjög mismunandi í löndum myntbandalagsins og hleypur munurinn á mörgum prósentustigum. Á Kýpur þar sem vextir eru einna hæstir, er árleg hlutfallstala kostnaðar nú rúmlega 7% á 15 ára íbúðaláni, samkvæmt Bank of Cyprus – Verðbólga á Kýpur í janúar var neikvæð um 2,8% Það þýðir að raunvextir íbúðalána í janúar voru 10%. Það eru verulega hærri vextir en hér á landi. Þótt Kýpur sé aðili að myntbandalagi Evrunnar tekur vaxtastigið mið af efnahag landsins. Aðild að myntbandalaginu er því ekki  trygging fyrir lægri vöxtum.

Þegar umsóknin var lögð fram var rætt um hve áhrif smáríkja væru mikil í Evrópusambandinu – gott ef fullveldið átti ekki að styrkjast við aðild. Ísland þyrfti allavega ekki að óttast áhrifaleysi vegna smæðar sinnar. Við myndum fá sæti við borðið og á okkur yrði hlustað. Gildistaka Lissabon sáttmálans hefur hins vegar dregið mjög úr áhrifum smáríkja. Þannig missti Malta 90% af atkvæðamagni sínu í ráðherraráðinu á sama tíma og áhrif Þýskalands tvöfölduðust. Neitunarvald var afnumið á 68 sviðum sem dregur mjög úr möguleikum smáríkja til að beita sér. Þrátt fyrir þessa miklu áhrifaskerðingu var Lissabon sáttmálinn aldrei borinn undir þjóðaratkvæði á Möltu. Aðeins Írar fengu að kjósa um Lissabon sáttmálann en þeir kusu rangt og voru þá látnir kjósa aftur.

Efnahagskreppan í Evrópusambandinu hefur kostað ófáa neyðarfundi. Þá voru það leiðtogar stóru ríkjana, einkum Þýskalands, sem tóku ákvarðanirnar en smáríkin fengu að samþykkja ráðahaginn eftirá.

Ísland yrði lang-áhrifaminnsta aðildarríkið í Evrópusambandinu með 0.06% atkvæðamagns. Meðal aðildarríkið er 60 sinnum fjölmennara en Ísland. Erfitt að sjá fyrir sér að afstaða Íslands myndi skipta úrslitum í nokkru máli.

Og hvert stefnir Evrópusambandið? Um það er erfitt að spá. Ýmsir leiðtogar sambandsins, þar á meðal Jose Manuel Barroso, Vivian Reading og jafnvel Angela Merkel, hafa þó lýst þeirri skoðun að Evrópusambandið eigi að þróast í Bandaríki Evrópu. Viðhorfskannanir benda til þess að almenningur í ýmsum aðildarríkjum sé á sama máli.

Almenningur í Bretlandi er hins vegar á því að Bretland eigi að segja sig úr Evrópusambandinu og hefur verið þeirrar skoðunar í nokkur ár.

Hér á landi skortir einmitt vilja til aðildar. Vilji til aðildar hlýtur að vera mikilvægasta forsenda aðildarferlisins. En aðildarvilji er hvorki fyrir hendi á þingi, hjá ríkisstjórn né þjóðinni. Undanfarin fjögur ár hafa allar viðhorfskannannir sýnt afgerandi andstöðu við aðild. Flokkar sem höfðu lýst andstöðu við aðild unnu stórsigur í síðustu alþingiskosningum.

Í Noregi hafa stjórnvöld tvívegis brennt sig á því að hefja aðildarviðræður án þess að nægur vilji sé til aðildar. Þótt stjórnarflokkar í Noregi séu hallir undir aðild að Evrópusambandinu þá hefja þeir ekki aðildarferli á meðan þjóðin er andvíg aðild. Það er skynsamleg afstaða sem við gætum lært af.

Virðulegi forseti,

Eins og ég hef nú rakið, þá eru meginforsendur umsóknar Íslands að Evrópusambandinu brostnar, auk þess sem framtíðarþróun Evrópusambandsins er óviss.

Eins og málin standa, teldi ég afar óskynsamlegt að halda aðildarferlinu áfram.

Þess í stað ættu stjórnvöld að beina kröftum sínum óskiptum að því að efla hagsæld og velferð fólksins í landinu. Tækifærin til þess eru nánast óþrjótandi. Það felast líka tækifæri í því að efla samstarf og viðskipti Íslands við aðrar þjóðir, þar með taldar þjóðir Evrópusambandsins.