Hefði ekki verið betra að spyrja leyfis?

Hér er andsvar mitt við ræðu Valgerðar Bjarnadóttur í umræðum um skýrslu utanríkisráðherra um aðildarviðræður við Evrópusambandið.

Virðulegur forseti,
Við ræðum hér skýrslu utanríkisráðherra um aðildarviðræður við ESB.
Ég vil spyrja háttvirtan þingmann Valgerði Bjarnadóttur hvað henni finnist um þær upplýsingar sem fram koma í skýrslunni um umsóknarferlið og aðferðafræði þess.
Á bls 25 í Viðauka I – umsókn Íslands og stækkunarstefna ESB stendur:
„Þær breytingar á aðildarferlinu sem urðu með umsókn Mið- og Austur-Evrópuríkjanna hafa sætt gagnrýni. Með þeim hafi Evrópusambandið fengið yfirhöndina í aðildarviðræðum sem sé þróun sem hófst með fyrstu stækkuninni. Ríkjunum sé ekki eingöngu gert að samþykkja löggjöf sambandsins á fyrstu stigum heldur einnig að laga sig að stefnu sambandsins og hrinda löggjöf þess í framkvæmd fyrir gerð aðildarsamnings og gildistöku hans.“
Er háttvirtur þingmaður sammála þessari gagnrýni á stækkunarferlið sem fram kemur í skýrslunni? Var henni kunnugt um þessa veiku stöðu umsóknarríkisins þegar hún greiddi atkvæði með umsókninni og þá kröfu Evrópusambandsins að umsóknarríkið hrindi í framkvæmd löggjöf sambandsins áður, já áður en þjóðin fær að taka afstöðu til aðildarsamnings í þjóðaratkvæðagreiðslu?
Hefði ekki verið betra að spyrja þjóðina álits áður en hafist var handa við að aðlaga Ísland að Evrópusambandinu?