Evruríkið Kýpur lenti í efnahagslegu áfalli og glímir nú við afleiðingar þess. Aðild að myntbandalagi reyndist því ekki sú trygging gegn efnahagshruni sem margir hafa haldið.
Aðild að myntbandalaginu reynist ekki heldur vera sú vörn gegn háum vöxtum íbúðalána sem margir hafa talið.
Samkvæmt Bank of Cyprus eru nú vextir lána til kaupa á íbúð til eigin nota hærri en 5% og hærri en 7% ef um fjárfestingu í húsnæði er að ræða. Verðbólga á Kýpur í janúar mældist neikvæð um 2.8%. Þar sem þessi íbúðalán í evrum eru óverðtryggð og verðhjöðnun er 2.8% má segja að raunvextir þeirra séu frá 7,8% – 9.8% eins og staða mála er nú.
Hér í krónulandi hrunsins eru raunvextir íbúðalána mun lægri. Landsbankinn býður núna 3,8% verðtryggða vexti á íbúðalán. Óverðrtryggð lán bera 7,3% nafnvexti en verðbólga mælist nú 2%. Raunvextir óverðtryggðra íbúðalána á Íslandi eru frá 5,3% sem er töluvert lægra en 7,8%.
Þetta dæmi sýnir að evran er ekki það örugga skjól sem talið var. Evran getur ekki tryggt aðildarríki gegn kreppum og ekki heldur tryggt þeim lægri vexti. Þar mun hverju ríki reynast best að stjórnvöld á hverjum tíma, fyrirtækin og landsmenn sýni ráðdeild og yfirvegun í sínum efnahags- og peningamálum.