Ótímabært að selja Landsbankann

Screen Shot 2015-09-28 at 21.44.25Samkvæmt bréfi Bankasýslu ríkisins til Fjármálaráðherra 9. september er hafinn undirbúningur að sölu 30% eignarhlutar ríkisins í Landsbankanum og stefnt að því að sölunni verði lokið á árinu 2016. Ríkið á nú 98% hlut í bankanum en fjármálaráðherra hefur sagt að hann telji eðlilegt að eignarhlutur ríkisins í Landbankanum sé um 40%. Bankasýslan mun skila ráðherra tillögu um söluna fyrir lok janúar.

Afkoma ríkissjóðs versnar við söluna
Lækkun á vaxtabyrði ríkissjóðs: Ætla má að sala á 30% hlut í Landsbankanum gæti skilað á bilinu 70-80 milljörðum í ríkissjóð. Ef sú upphæð væri notuð til að greiða upp ríkisskuldir myndi árlega vaxtabyrði ríkissjóðs lækka um 2-3 millarða. Vaxtajöfnuður ríkissjóðs batnar um sömu fjárhæð því vaxtajöfnuður tekur ekki tillit til arðs.

Meiri lækkun á arði til ríkissjóðs: Arður ríkisins af 98% eignarhlut í Landsbankanum undanfarin þrjú ár var samtals 53 milljarðar. Árið 2015 fékk ríkið 23,5 milljarða í arð af Landsbankanum og ætla má að ríkið gæti fengið hátt í 20 milljarða í arð á næsta ári. Ef ríkissjóður hefði verið búinn að selja 30% eignarhlut í bankanum í upphafi árs 2015, hefði arðgreiðslan til ríkisins verið 7 milljörðum lægri.

Niðurstaðan: Að teknu tilliti til arðs og vaxta af ríkisskuldinni hefur ávinningur ríkisins af því að eiga bankann á árinu 2015 numið 3-4 milljörðum. Á næsta ári er útlit fyrir að ávinningurinn verði 2-3 milljarðar. Einhverjir telja líklegt að arðsemi bankans verði minni í framtíðinni en um slíkt er ekki auðvelt að spá. Fákeppni á íslenskum bankamarkaði gæti skilað bönkum góðum hagnaði um ókomin ár.

Tímasetning óheppileg
Arion og Íslandsbanki eru að stærstum hluta í eigu slitabúa föllnu bankanna en slitabúin þurfa að selja bankana til að geta greitt kröfuhöfum sínum út. Svo gæti farið að allir bankar landsins verði því til sölu með skömmu millibili. Svo mikið framboð á hlutabréfum í bönkum getur spillt fyrir því að ríkissjóður nái að hámarka söluvirði 30% hlutarins.

Er brýnt að einkavæða Landsbankann?
Á ríkið að standa í bankarekstri? Um þetta atriði virðast skoðanir vera skiptar. Sumir benda á að ríkið hafi ekki staðið sig sérlega vel í rekstri banka en aðrir benda á að eftir að ríkisbankarnir voru einkavæddir liðu aðeins örfá ár þangað til þeir fóru á hausinn. Það er því ekki endilega sannað að einkaaðilar séu færari en ríkið í því að reka banka.

Þegar venjuleg fyrirtæki fara í þrot bera hluthafar og kröfuhafar tapið en þegar banki fer í þrot kemur ríkissjóður ávallt til bjargar á kostnað skattgreiðenda eins og ótal dæmi sanna bæði hér og erlendis. Enda eru innstæður í bönkum sá gjaldmiðill sem hagkerfið byggir á í öllum viðskiptum. Hvort sem ríkið á bankana eða ekki er það því óhjákvæmilega í bakábyrgð fyrir rekstrinum. Þegar ríkisbanki er einkavæddur flyst arðurinn til nýja eigandans en eftir sem áður situr stór hluti áhættunar hjá ríkinu.

Samantekt
Ef ríkiðssjóður selur 30% hlut í Landsbankanum er útlit fyrir að afkoma ríkissjóðs versni um 2-4 milljarða á ári því arðstekjur ríkissjóðs munu lækka meira en vaxtagjöld hans. Betra fyrir ríkissjóð að eiga hlutinn áfram.

Ef stefnt er að því að fá gott verð fyrir hlutinn er ekki vænlegt að fara af stað með söluna á svipuðum tíma og slitabúin reyna að selja hina bankana tvo.

Gjaldþrot einkavæddu bankana bendir ekki til þess að einkaaðilum sé betur treystandi til að reka banka en ríkinu. Hvort sem banki er einkavæddur eða ekki mun ríkið koma bankanum til bjargar þegar eigendurnir keyra hann út af sporinu. Arðurinn mun flytjast að fullu til kaupandans en stór hluti áhættunar situr eftir hjá ríkinu.