Vil ég fá áfengi í matvöruverslanir? (Þingræða)

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak. Verði frumvarpið að lögum mun sala á áfengi færast frá ÁTVR til matvöruverslana.

Ef gerð væri könnun meðal landsmanna og spurt, “Vilt þú geta keypt áfengi í matvöruverslunum?” þá myndu eflaust margir svara því játandi. En hverju þeir svara ef spurningin væri orðuð með eftirfarandi hætti:

Vilt þú geta keypt áfengi í matvöruverslunum, ef fjöldi rannsókna sýna að það muni leiða til aukinnar áfengisneyslu? Aukin neysla auki tíðni alvarlegra sjúkdóma eins og krabbameins, lifrarsjúkdóma, sykursýki. Rannsóknir sýna einnig að aukinni neyslu áfengis fylgir aukin tíðni umferðarslysa og einnig ofbeldis meðal annars gegn konum og börnum.

Ef spurningin er sett fram með þessum hætti hygg ég að flestir myndu telja afleiðingarnar of neikvæðar og leggjast gegn því að áfengi fari í matvöruverslanir.

En en er það alveg víst að aukið aðgengi að áfengi leiði til aukinnar neyslu? Það er lykilspurning. Svo vill til að svarið við spurningunni er vel þekkt og byggir á fjölmörgum rannsóknum því þessi breyting hefur verið gerð víða um heim: að færa sölu áfengis úr sérstökum vínbúðum í matvöruverslanir og jafnvel að færa söluna aftur til baka í sérstakar áfengisverslanir.

Niðurstaðan er alltaf sú sama: Þegar opnað er á sölu áfengis í matvöruverslunum þá eykst áfengisneysla, og ekki síst hjá unglingum. Það eru engar forsendur til þess að ætla, að hér verði reynslan önnur.

En hvernig er staðan á Íslandi í dag í alþjóðlegu samhengi? Samkvæmt gögnum ESPAD neyta Íslensk ungmenni einna minnst áfengis af ungmennum í Evrópu. Í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi, þar sem ríkið sér um áfengissölu, er drykkja ungmenna einnig lítil – en í Danmörku þar sem áfengi er selt í matvörubúðum er neysla ungmenna með því hæsta sem gerist í Evrópu.

Við getum lært af reynslu nágrannaþjóðanna. Svíar hættu að selja miðlungssterkan bjór í matvöruverslunum árið 1977. Áfengisneysla dróst þá saman um 8%. Dauðsföll og veikindi af völdum áfengisneyslu minnkuðu næstu 6 ár sérstaklega hjá ungmennum. Umferðarslysum fækkaði um 15% á meðal 10-19 ára eftir 1977.

Árið 2010 var gerð skýrsla um mögulegar afleiðingar þess að selja áfengi í sænskum matvöruverslunum. Áætlað var að áfengisneysla myndi aukast um 37% með verulega neikvæðum afleiðingum fyrir lýðheilsu svo sem aukinni dánartíðni, fjölgun ofbeldisbrota og fjölgun veikindadaga.

Í Finnlandi, hófst sala á miðlungs sterkum bjór í 17.400 matvörubúðum í Finnlandi árið 1969. Afleiðingin var sú að sala á vínanda jókst um 46%, allir hópar juku neyslu sína.

Samanburðarskýrsla The Community Guide frá 2011 sem byggir á 17 niðurstöðum, m.a. frá Bandaríkjunum, Kanada, Svíþjóð og Finnlandi, gefur til kynna að með einkavæðingu áfengissölu varð aukning á neyslu 44% að miðgildi.

Allar þessar alþjóðlegu rannsóknir byggja á raunverulegri reynslu og því er erfitt að líta framhjá þeim. Hér á Íslandi er neysla vínanda með því lægsta sem gerist meðal þeirra þjóða sem við berum okkur saman við, það er því mikið svigrúm til aukningar neyslu en lítið svigrúm til að draga úr henni.

Á heimasíðu Landlæknisembættisins segir að allar alþjóðlegar rannsóknir bendi til þess að afnám einkasölu á áfengi muni leiða til aukinnar heildarneyslu. Enn fremur sýni rannsóknir að samhliða aukinni áfengisneyslu aukist samfélagslegur kostnaður vegna áfengistengdra vandamála.

Minnt er á að aukið aðgengi að áfengi, sem leiðir til aukinnar áfengisneyslu, er líklegt til að auka tíðni ofbeldis og annarra samfélagslegra vandamála sem geta tvöfaldað samfélagslegan kostnað vegna áfengisneyslu.

Það er lítill vafi á því að verði frumvarpið að lögum mun það leiða til aukins aðgengis að áfengi, aukinnar neyslu og afleiðingarnar verða verulega neikvæðar fyrir samfélagið. Fyrir mitt leiti er það næg ástæða til að taka afstöðu gegn frumvarpinu.

Kannski eru einhverjir sem vilja sætta sig við aukna áfengisneyslu og lakari lýðheilsu í landinu ef hægt er að sýna fram á einhvern ávinning fyrir neytendur.

Hagsmunir neytenda felast í því að geta keypt gott úrval af áfengi með hóflegri álagningu. Hvorugt virðist vera vandamál í dag. Þjónusta ÁTVR hefur batnað gríðarlega frá því sem þekktist í gamla daga. ÁTVR fær góða dóma í viðhorfskönnunum, vart lakari en einkareknar matvörubúðir, enda er vöruvalið í ÁTVR almennt gott og í stóru vínbúðunum er það frábært. Viðskiptavinir geta leitað ráða hjá sérhæfðu starfsfólki vínbúða sem hefur góða þekkingu á vöruvalinu. ÁTVR hefur þannig lagt sitt af mörkum við að bæta vínmenningu í landinu. Það er vandséð að matvörubúðir geti boðið upp á jafn fjölbreytt úrval og jafn góða þjónustu.

Varðandi verðið, bendir fátt til þess að álagning á áfengi verði minni fari það í matvörubúðir. Ríkið mun eftir sem áður leggja á áfengisgjald. Smásöluálagning ÁTVR er ekki nema 12 – 18% sem er líklega töluvert lægra en flestar matvöruverslanir geta sætt sig við. Ágætt dæmi um þetta má lesa í frétt í Mbl.is frá 2. október í fyrra, en þar kom fram að Hagkaup seldi áfengislaust hvítvín á 1.300 kr en sama vín kostaði þá 870 kr í ÁTVR. Reikna má út að álagning Hagkaupa hafi verið hátt í 80% en ekki 18% eins og er lögbundið hjá ÁTVR.

Á síðasta þingi barst allsherjar- og menntamálanefnd fjöldi umsagna um málið sem eru mjög fróðleg lesning. Flestar umsagnir vara við og leggjast gegn frumvarpinu. Með leyfi forseta vil ég vitna í nokkrar umsagnir.

Í umsögn Læknafélags Íslands kemur fram að félagið “leggst eindregið gegn því að frumvarp þetta verði að lögum. Allar rannsóknir sýna að aukið aðgengi að áfengi eykur áfengisneyslu og þar með vanda sem leiðir af aukinni neyslu. Engin skynsamleg rök mæla með því að breyta núverandi fyrirkomulagi áfengissölu, þ.e. í sérverslunum.” – tilvitnun lýkur.

Félag Íslenskra Hjúkrunarfræðinga segir í sinni umsögn: “Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga er því mótfallið þeirri breytingu að færa sölu áfengis yfir í matvöruverslanir þar sem aukinn aðgangur að áfengi mun leiða til aukinnar heildarneyslu sem er andstætt bættri lýðheilsu þjóðarinnar” 

Félag lýðheilsufræðinga lýsir yfir andstöðu við frumvarpið í heild sinni. Félagið telur það vera stórt skref aftur á bak, í forvörnum, að veita aukið aðgengi að áfengi með því að færa sölu áfengis frá ríki í matvöruverslanir með þeim hætti sem frumvarpið leggur til.

Landlæknisembættið segir m.a. “Á grundvelli bestu fáanlegra gagna og við skoðun á niðurstöðum rannsókna og ráðlegginga frá m.a. Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni um aðgerðir í áfengismálum er takmarkað aðgengi að áfengi ein skilvirkasta leiðin til að sporna við aukinni áfengisneyslu og um leið að draga úr þeim skaða sem getur hlotist af áfengisneyslu. Endurspeglast þessi afstaða stofnunarinnar m.a. í stefnumörkun hennar til ársins 2020 undir heitinu Health 2020: A European policy framework and strategy for teh 21 st century og Global strategy to reduce the harmful use of alcohol” og leggst Landlæknisembættið eindregið gegn því að frumvarpið verði að lögum.

Í umsögn Barnaheilla kemur meðal annars fram að “Sýnt hefur verið fram á með rannsóknum að aukið aðgengi að áfengi leiði til aukinnar neyslu þess. Aukin áfengisneysla er líkleg til að hafa slæm áhrif á líf barna. Ekki bara barna sem verða fyrir neikvæðum áhrifum af áfengisneyslu foreldra sinna eða forsjáraðila, heldur líka barna og ungmenna sem freistast til áfengisdrykkju vegna auðveldara aðgengis. Þeim mikla árangri sem náðst hefur með forvarnarstarfi liðinna ára og birtist í minnkandi áfengisneyslu á meðal unglinga, er stefnt í hættu ef frumvarpið verður að lögum.”

Félag áfengis og vímuefnaráðgjafa leggst eindregið gegn frumvarpið meðal annars með eftirfarandi rökum: “Vísindasamfélagið (fræðasamfélag félagsvísinda og heilbrigðisvísinda) hefur haft kenningar sem bæði eru studdar rannsóknum og reynslu sem sýna á órækann hátt að aukið framboð leiðir til aukinnar neyslu. Einnig að aukin neysla veldur afleiðingum sem falla á kostnaðarsaman hátt á samfélagið, sjúkrastofnanir og fangelsi. Engar rannsóknir finnast sem hrekja þetta.”

Jafnréttisstofa bendir meðal annars á að í “IV viðauka [Skýrslu Alþjóðaheilbrigðisstofnuninnar WHO] er jafnframt fjallað um hvemig tengsl séu á milli áfengisneyslu og heimilisofbeldis gegn konum og börnum.”

Og fleiri málsmetandi samtök vara við og leggjast eindregið gegn því að sala áfengis fari í matvörubúðir: þar á meðal: Barnaverndarstofa, Fræðsla og forvarnir, Rannsóknastofnunar í barna- og fjölskylduvernd, og 23 aðildarsamtök Samstarfsráðs um forvarnir,

Virðulegi forseti, Áfengi er engin venjuleg vara. Áfengi veldur fíkn, það er orsakaþáttur í slysum, alvarlegum sjúkdómum og líkamsárásum. Fjöldi alþjóðlegra rannsókna staðfesta, svo algerlega er hafið yfir vafa, að ef áfengi er selt í matvöruverslunum leiðir það til verulega aukinnar neyslu og lýðheilsuvandamál aukast.

Ég er fylgjandi frelsi og þar með talið verslunarfrelsi og vil ekki frekar en aðrir að ríkið sinni verkefnum sem einkaaðilar geta leyst betur af hendi. En í okkar samfélagi eru margvíslegar reglur sem takmarka frelsi einsaklinga í því skyni að vernda rétt þriðja aðila, eða samfélagsins sem annars gæti orðið fyrir tjóni. Við föllumst flest á slíkar takmarkanir. Við spennum öryggisbeltin, ökum ekki yfir á rauðu ljósi og svo framvegis. Þannig er dregið úr hættu á slysum og örorku sem annars gætu orðið byrði á samfélaginu öllu. Bílar gætu verið miklu ódýrari ef ekki væru í þeim bílbelti, líknarbelgir og margvíslegur annar öryggisbúnaður sem er skylt að hafa í þeim. Við látum flest slíkt ófrelsi yfir okkur ganga með glöðu geði enda eru afleiðingar bílslysa öllum ljósar. En finnst mönnum það eitthvað sérstakt ófrelsi að versla í vínbúðum ÁTVR?

Ég kem ekki auga á stóra vandann við núverandi fyrirkomulag. Það er ekkert ófrelsi að koma við í sérverslun ÁTVR þegar ég vil kaupa vín, enda er úrvalið ljómandi gott, álagningin hófleg og þjónustan góð.

Nú má öllum vera ljóst að afleiðingar þess að auka aðgengi að áfengi mun óvéfengjanlega leiða til verulega aukinnar neyslu vínanda. Aukin neysla mun leiða til aukinna langvinnra sjúkdóma, aukinnar slysatíðni, aukins ofbeldis einnig ofbeldis gegn konum og börnum.

Er öllu þessu fórnandi til að stórkaupmenn geti aukið gróða sinn um nokkra milljarða á ári? Er öllu þessu fórnandi svo að ég geti skutlað Bónusbjór eða Hagkaups rauðvíni í körfuna þegar ég fer út í matvörubúð?

Það verður hver að svara því fyrir sig en ég segi NEI!