Sóttvarnalæknir boðar sóttkví fyrir alla sem koma til landsins

Á upplýsingafundi 20. apríl sagði sóttvarnalæknir frá því að hann hefði lagt til við ráðherra að allir sem komi til landsins fari í sóttkví. Fram til þessa hafa einungis þeir sem búsettir eru hér á landi farið í sóttkví við komuna til landsins.

Tillögu sóttvarnalæknis má vonandi túlka þannig að nú sé ekki lengur stefnt að þvi að “hægja á faraldrinum” en þess í stað skuli stöðva hann. Fögnum því!

Lesa áfram “Sóttvarnalæknir boðar sóttkví fyrir alla sem koma til landsins”

Sóttvarnaráð svarar opnu bréfi frá 1. apríl

Formaður sóttvarnaráðs hefur f.h. ráðsins sent svar við opnu bréfi sem síðuhöfundur og Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir sendu ráðinu 1. apríl. Það ber að þakka fyrir svarið þótt það svari ekki öllum spurningum okkar.
Í bréfi okkar til ráðsins spurðum við meðal annars, hver væri stefna ráðsins í baráttunni við Covid-19, enda hafi þjóðir valið ólíkar leiðir.

Lesa áfram “Sóttvarnaráð svarar opnu bréfi frá 1. apríl”

Opið bréf til sóttvarnaráðs

Afrit:  Heilbrigðisráðherra, landlæknir og fréttamiðlar.

Samkvæmt 6. gr. laga nr. 19/1997 um sóttvarnir er það hlutverk sóttvarnaráðs að móta stefnu í sóttvörnum og skal ráðið vera heilbrigðisyfirvöldum til ráðgjafar um aðgerðir til varnar útbreiðslu smitsjúkdóma. Með þessu bréfi viljum við kalla eftir því að ráðið taki afstöðu til álitamála sem upp hafa komið um aðgerðir gegn COVID-19 faraldrinum.

Lesa áfram “Opið bréf til sóttvarnaráðs”

Stöðvum þessa veiru!

Sóttvarnarlæknir hefur frá upphafi covid-19 faraldursins talið að ekki verði komið í veg fyrir útbreiðslu veirunnar. Stór hluti landsmanna muni á endanum smitast. Sóttvarnarlæknir hefur sagt mikilvægt að reyna að hægja á útbreiðslu veirunnar, fletja út kúfinn svo heilbrigðiskerfið ráði við verkefnið. Nú hafa hinsvegar nokkur ríki í Asíu sýnt að hægt er að stöðva útbreiðslu veirunnar. Það sama gætum við gert ef stjórnvöld taka þá stefnu.

Lesa áfram “Stöðvum þessa veiru!”

Ábyrgðarmenn skuldara í greiðsluaðlögun áttu að njóta sömu lækkunar og skuldarar

Lög nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga tóku gildi í ágúst 2010. Lagasetningin var hluti viðbragða stjórnvalda við efnahagshruni og gerði einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu, þannig að raunhæft væri að þeir gætu staðið við skuldbindingar sínar. Með lögunum bættist einnig nýtt ákvæði í 9 gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Ákvæðinu var ætlað að tryggja að lækkun kröfu gagnvart aðalskuldara hefði sömu áhrif til lækkunar kröfu gagnvart ábyrgðarmanni.

Því miður virðist hafa orðið misbrestur á þeirri framkvæmd hjá einhverjum lánastofnunum og vel hugsanlegt að fjölmargir ábyrgðarmenn hafi ranglega verið krafnir um að greiða ábyrgðir að fullu án tillits til lækkunar skv. samningi um greiðsluaðlögun.

Lesa áfram “Ábyrgðarmenn skuldara í greiðsluaðlögun áttu að njóta sömu lækkunar og skuldarar”

Orkupakkinn – Hvað er það versta sem gæti gerst?

Utanríkisráðherra Íslands og fleiri gefa í skyn að segi Alþingi nei við orkupakkanum þá muni EES-samningurinn vera í hættu en því er öfugt farið. Við þurfum einmitt að segja nei við þriðja orkupakkanum til að verja EES samstarfið.

Í 25 ár hafa aðildarríki haft heimild skv. EES-samningnum til að hafna löggjöf og lagabreytingum frá ESB. Í 102. gr. samningsins er fjallað um hvernig skuli þá bregðast við. Sameiginlega EES-nefndin skal þá „gera sitt ýtrasta til að finna lausn sem aðilar geta sætt sig við“. Skynsamleg lausn gæti falist í því að Ísland yrði undanþegið orkupakkanum enda er Ísland ekki tengt orkumarkaði ESB.

Lesa áfram “Orkupakkinn – Hvað er það versta sem gæti gerst?”

Krónan er eitt öflugasta tækið sem við höfum

Krónan er eini kosturinn sem okkur býðst næstu árin. Það sem kemur hinsvegar mörgum á óvart er að hún er líka besti gjaldmiðillinn fyrir Ísland til framtíðar.

Allt þetta tal um að krónan sé ónýt eða hún eigi sér ekki framtíð er misskilningur. Það sem hefur verið í ólagi er sjálf hagstjórnin og stjórn gjaldeyrismála. Vandinn varð til þegar krónunni var fleytt í lok mars 2001. 

Hvernig getur sú mynt verið ónýt sem dugði til að koma okkur úr sárri fátækt í hóp ríkustu þjóða heims? Ég leyfi mér að draga í efa að okkur hefði gengið betur að byggja upp efnahag landsins þó við hefðum búið við Dollara, Evru eða einhverja aðra heimsmynt undanfarin 40 ár.  Líklega hefði okkur gengið verr.

Meginkosturinn við að hafa eigin gjaldmiðil er hann gerir okkur kleyft að halda atvinnulífinu samkeppnishæfu við önnur ríki. Gengi krónunnar má stilla þannig að atvinna sé næg og viðskiptajöfnuður jákvæður. Ef við tökum upp erlendan gjaldmiðil mun hann sjaldnast vera rétt stilltur fyrir okkar aðstæður. Afleiðingin verður atvinnuleysi og ofþensla á víxl nema svo vel vilji til að aðstæður okkar séu einmitt eins og meðaltalið í útgáfulandi gjaldmiðilsins. Það væri fágætt. Atvinnuleysi er útbreitt vandamál í Evrópu og augljóslega miklu alvarlegra vandamál en verðbólga eða gengissveiflur.

Frá árinu 2006 fór gengi krónunnar að ganga verulega úr samhengi við efnahag landsins. Stórfellt innstreymi erlends fjármagns vegna virkjana, hávaxta og spákaupmennsku réðu ferðinni og krónan ofreis gjörsamlega.  Nú erum við að súpa seyðið af þessu mikla misræmi. Afleiðingin er gjaldþrot og stórfellt atvinnuleysi.

Ef við tökum hér upp erlenda mynt eins og Evru eða Dollar munum við ganga í gegnum slíkar sveiflur reglulega. Útlenda tökumyntin mun verða úr takti við okkar aðstæður og afleiðingarnar eru til skiptis innflutningur á vinnuafli og fólksflótti. Jafnvægi á vinnumarkaði verður fremur undantekning en regla.

Við Íslendingar höfum lifað afar góðu lífi þrátt fyrir gengissveiflur og verðbólgu. Þetta eru auðvitað vandamál en frekar smávægileg á við það atvinnuleysi sem þjóðin er að kynnast núna.

Full atvinna um áratuga skeið var að verulegu leyti sveigjanleika krónunnar að þakka.

En hvað um aðgang að erlendu fjármagni? Vilja erlendir fjárfestar koma með peninga inn í landið ef krónan er áfram? Ég man ekki betur en að við höfum haft ágætan aðgang að erlendu fjármagni gegnum tíðina. Hvernig tókst okkur annars að komast í þessar miklu skuldir?

Núna stynja atvinnurekendur allstaðar í heiminum um skort á lánsfé. Ekki kenna þeir krónunni um það. Sumir íslenskir atvinnurekendur virðast hins vegar halda að krónunni sé um að kenna. Það er auðvitað rangt.

Útlendingar eru fúsir til að fjárfesta í arðbærum fyrirtækjum, líka á Íslandi, ef fjárfestingartækifærið er gott. Fjárfestar þurfa að dreifa áhættu milli landa og gjaldmiðla. Það getur því verið kostur að bjóða upp á gjaldmiðil hér sem sveiflast ekki í takt við aðra miðla.

Þeir sem fjárfesta á Íslandi verða auðvitað að geta treyst því að geta ávallt fengið greiddan út sinn arð og endurheimta höfuðstól fjárfestingarinnar þegar og ef þeir vilja. Íslenska Ríkið þarf að tryggja þann rétt með skýrum og gagnsæjum reglum.

Við höfum nú lært af biturri reynslu að jafn lítil mynt og krónan má alls ekki fljóta. Hlutverk hennar verður að takmarkast við innlend viðskipti. Það þarf að verja hana gegn spákaupmennsku og óeðlilegum fjármagnshreyfingum. Með nútíma tækni má reka slíkar gjaldeyrisvarnir með þeim hætti að 98% allra erlendra viðskipta finni aldrei fyrir þeim.

Inn- og útstreymi fjármagns vegna risavaxinna framkvæmda eins og virkjana þarf auðvitað að meðhöndla sérstaklega svo gengi myntarinnar verði ekki fyrir óeðlilegum breytingum sem trufla atvinnulífið í heild.

Þeir sem gera sér vonir um lægri raunvexti af lánum ef tekin verður upp Evra ættu að líta til Grikklands þar sem vextir af lánum eru mun hærri en í Þýskalandi. Samt er Evra í Grikklandi. Hvernig má þetta vera? Jú Grikkland er skuldugra en Þýskaland og það er það sem skiptir mestu máli um vaxtastigið. Við fáum ekki vexti niður á Íslandi fyrr en við höfum greitt okkar skuldir niður að miklu leyti. Allt annað er óskhyggja.

Kostir þess að halda krónunni áfram eru í raun miklu veigameiri en ókostirnir. Það er okkur fyrir bestu að hætta að tala krónuna niður.

Krónan gefur okkur einmitt þann sveigjanleika og viðbragð sem við þurfum til að koma atvinnulífinu í fullan gang aftur og vinna okkur út úr vandanum.