Ábyrgðarmenn skuldara í greiðsluaðlögun áttu að njóta sömu lækkunar og skuldarar

Lög nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga tóku gildi í ágúst 2010. Lagasetningin var hluti viðbragða stjórnvalda við efnahagshruni og gerði einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu, þannig að raunhæft væri að þeir gætu staðið við skuldbindingar sínar. Með lögunum bættist einnig nýtt ákvæði í 9 gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Ákvæðinu var ætlað að tryggja að lækkun kröfu gagnvart aðalskuldara hefði sömu áhrif til lækkunar kröfu gagnvart ábyrgðarmanni.

Því miður virðist hafa orðið misbrestur á þeirri framkvæmd hjá einhverjum lánastofnunum og vel hugsanlegt að fjölmargir ábyrgðarmenn hafi ranglega verið krafnir um að greiða ábyrgðir að fullu án tillits til lækkunar skv. samningi um greiðsluaðlögun.

Við setningu laga um greiðsluaðlögun var ætlun Alþingis að krafa gagnvart ábyrgðarmönnum skyldi lækka um leið og krafa gagnvart aðalskuldara væri lækkuð og því var svohljóðandi málsgrein bætt við 9.gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn:

„Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 60. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. skal nauðasamningur eða önnur eftirgjöf, þ.m.t. nauðasamningur til greiðsluaðlögunar og samningur um greiðsluaðlögun, sem kveður á um lækkun kröfu á hendur lántaka eða aðalskuldara hafa sömu áhrif til lækkunar kröfu á hendur ábyrgðarmanni.“

Kröfuhafar efuðust sumir um að slíkt ákvæði stæðist stjórnarskrá og létu fljótlega á það reyna fyrir dómstólum.

Með dómi nr. 274/2010 sem upp var kveðinn þann 25. nóvember 2010 í máli B og C gegn Sparisjóði Vestmannaeyja, úrskurðaði hæstiréttur að ákvæði 9. gr. laga, um að lækka bæri kröfu á ábyrgðarmann til samræmis við lækkun kröfu á aðalskuldara vegna nauðasamnings, væru ósamrýmanleg 72. gr. stjórnarskrár Íslands um vernd eignaréttar.

Samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar er eignarétturinn friðhelgur og kröfur á ábyrgðarmenn falla undir eignaréttindi. Í kjölfar dóms hæstaréttar var skýrt að lánastofnunum var, þrátt fyrir lagasetningu Alþingis, heimilt að krefja ábyrgðarmenn að fullu um kröfur sem lækkaðar höfðu verið gagnvart aðalskuldara með nauðasamningum.

Lánastofnanir virðast hafa litið svo á að það sama ætti við um kröfur sem lækkaðar höfðu verið með samningi um greiðsluaðlögun en það tel ég vera oftúlkun á dómnum. Hæstiréttur felldi ekki úr gildi önnur atriði ákvæðisins en það sem varðaði nauðasamninga. Þrátt fyrir dóminn stóð því óhaggað ákvæðið um að lækka bæri einnig kröfu á ábyrgðarmenn til samræmis við samning við skuldara um greiðsluaðlögun.

Það er viss grundvallarmunur á frjálsum samningi um greiðsluaðlögun og nauðasamningi um greiðsluaðlögun. Í fyrra tilfellinu er gerður frjáls samningur milli aðila en í því síðara eru kröfur lækkaðar með úrskurði héraðsdóms. Nauðasamningur var einmitt forsendan í þeim dómi hæstaréttar sem rætt er um hér að framan.

Hafi kröfuhafi ótilneyddur gert samning við skuldara um að aðlaga kröfur sínar til samræmis við greiðslugetu skuldara, eins og gert var í fjölda samninga um greiðsluaðlögun með aðstoð umboðsmanns skuldara, þá getur kröfuhafi ekki haldið því fram að hann hafi nauðugur gefið kröfu sína eftir gagnvart aðalskuldara. Kröfuhafa er því, þrátt fyrir umræddan dóm hæstaréttar, skylt að hlíta ákvæði 9. gr. laga nr. 32/2009 og lækka kröfur sínar einnig gagnvart ábyrgðarmönnum. Lánastofnanir virðast samt í a.m.k. einhverjum tilfellum hafa litið fram hjá ákvæðinu og innheimt að fullu hjá ábyrgðarmönnum.

Um tilefni þessa pistils

Fyrir hrun var algengt að foreldrar öxluðu ábyrgðir eða legðu fram veð svo börn þeirra gætu fengið lán fyrir íbúðarkaupum. Við hrunið stökkbreyttust verðtryggðar íbúðaskuldir og lántakendur gátu ekki staðið í skilum. Mörg þúsund einstaklingar gengu í framhaldi gegnum greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara.

Mig grunar að í þeim tilfellum hafi framkvæmd lánastofnana almennt verið sú að krefja ábyrgðarmenn um fullar eftirstöðvar. Sá grunur byggir að vísu aðeins á gögnum eins máls. Í því tilfelli samdi banki við lántakanda um greiðsluaðlögun (90% lækkun eftirstöðva) og byrjaði í framhaldi að innheimta eftirstöðvarnar að fullu gagnvart foreldrum hans sem lánað höfðu veð, þrátt fyrir skýr ákvæði 9. gr. laga nr. 32/2009 um að lækka beri kröfuna einnig gagnvart ábyrgðarmönnum.

Bankinn réttlætti verklag sitt með vísan í ofangreindan dóm hæstaréttar, sem að mínu mati á alls ekki við um greiðsluaðlögun, enda er í þeim dómi fjallað um nauðasamning sem er í eðli sínu ólíkur frjálsum samningi um greiðsluaðlögun. Málavextir eru að mínu mati of ólíkir til að hægt sé að nota þennan dóm sem fordæmi.

Í þessu tiltekna tilviki kom reyndar í ljós að mörgu hafði verið ábótavant við lánveitinguna sjálfa, svo sem greiðslumat, útreikninga og ýmslegt fleira mætti nefna sem of langt mál er að telja. Ágreiningi aðila lauk þannig að bankinn sættist á að fella niður 90% af kröfu sinni gagnvart ábyrgðarmönnum en tiltók ekki sérstaklega hvert ofangreindra atriða réði úrslitum um þá lendingu.

Það álitamál sem hér hefur verið reifað, varðandi gildi 3. mgr. 9. gr. laga 32/2009 um ábyrgðarmenn fór því ekki fyrir dómstóla í þetta sinn og mér er ekki kunnugt um að dómstóll hafi fjallað um það. Mig grunar að lánastofnanir hafi almennt litið svo á að málsgreinin hafi öll verið felld úr gildi með dómi hæstaréttar en ekki bara sá hluti sem fjallaði um nauðasamninga. Mig grunar einnig að sú túlkun standist ekki lög og því gætu þúsundir ábyrgðarmanna hafa sætt of háum kröfum af hálfu lánastofnana. Vonandi verða þessar línur þeim að einhverju gagni við að leita réttar síns.