Hver greiddi ferðina til Sardiníu?

sardinia_kort
Sardinía

Á 19. öld ákvað ónafngreindur breskur lávarður að heimsækja hina fögru miðjarðarhafseyju Sardiníu, ásamt fjölskyldu sinni og þjónustufólki. Ferðalagið gekk eins og í sögu. Lávarðurinn og fylgdarlið hans gisti aðeins á bestu hótelum og snæddi aðeins á bestu matstöðunum – ekkert var sparað.

Eyjaskeggjar tóku að sjálfsögðu vel á móti þessum forríku ferðamönnum. Lávarðurinn ákvað líka að framlengja dvölina um tvo mánuði. Kostnaðurinn var að sjálfsögðu verulegur. Alls staðar greiddi lávarðurinn með ávísunum í pundum á viðurkenndan breskan banka. Ávísunum lávarðsins var vel tekið, enda voru þær í pundum og á þessum árum var gjaldmiðill eyjaskeggja ekki upp á marga fiska.

Það eina sem skyggði á heimferðina voru vaxandi áhyggjur lávarðarins af því hve óskaplega margar ávísanirnar urðu og hversu stóra spildu af ættaróðalinu hann þyrfti nú að selja til að standa í skilum við bankann.

En svo fór að mörgum mánuðum eftir heimkomuna bólaði ekkert á ávísunum frá Sardiníu. Lávarðurinn var undrandi og feginn. Árin líðu og aldrei bárust ávísanirnar frá Sardiníu og lávarðurinn þurfti aldrei að greiða sumarfríið góða á Sardiníu.

Ávísanirnar voru aldrei innleystar. Þeir sem höfðu fengið greitt með ávísunum notuðu þær einfaldlega til að greiða fyrir eitthvað annað. Þær nutu meira trausts en mynt eyjaskeggja löngu eftir að lávarðurinn var allur. Þær urðu gjaldmiðill.

Spurningin er hinsvegar þessi: Hver borgaði fyrir ferðalag lávarðsins?