Hraunrennsli stýrt með kælingu

Þann 23. janúar 1973 hófst óvænt eldgos rétt við bæjarmörkin í Vestmanneyjum. Tveim vikum síðar hófust tilraunir til að dæla sjó á hraunið til að beina rennsli þess frá byggð og mannvirkjum.

Kæling hraunsins hafði töluverð áhrif og árið 1997 birti Jarðvísindastofnun Bandaríkjanna skýrslu um hraunkælinguna í gosinu í Heimaey. Skýrslan fjallar um sögu verkefnisins, þau vandamál sem upp komu og hvernig þau voru leyst. Þessi þekking gæti komið að gagni færi svo að glóandi hraun ógni hér byggð á nýjan leik.

Skýrslan heitir „Lava-Cooling Operations During the 1973 Eruption of Eldfell Volcano,
Heimaey, Vestmannaeyjar, Iceland
“ og er að uppistöðu til þýðingar á greinum eftir jarðeðlisfræðinginn Þorbjörn Sigurgeirsson og verkfræðingana Valdimar Kr. Jónsson og Matthías Matthíasson.

Jarðvísindamenn telja nú vaxandi líkur á eldgosi á Reykjanesskaga. Jarðskjálftar teljast í þúsundum dag hvern og það grynnist niður á kvikugang sem gæti brátt náð upp á yfirboðið. Það er því ekki hægt að útiloka þann möguleika að hraun byrji að renna í átt að byggð eða mannvirkjum.

Það væri ábyrgt af stjórnvöldum að hefja nú þegar undirbúning að hraunkælingu þótt gos sé ekki hafið. Fyrsta skref í slíkum undirbúningi væri að skipa hóp fólks með nauðsynlega verkþekkingu til að stýra slíkri framkvæmd. Hópurinn myndi byrja á því að kynna sér reynsluna frá Heimaey, skoða sviðsmyndir um gosstaði og hraunrennsli og meta hvað þurfi af tækjabúnaði, efni, orku og mannafla.

Skoða þyrfti hvað væri þegar til í landinu af nauðsynlegum tækjabúnaði svo sem öflugum sjódælum (mögulega dæluskip) og útvega þann búnað sem vantar til landsins. Reikna þarf með að dæla þurfi 1-2 tonnum af sjó á hverri sekúndu nokkra kílómetra leið og allt að 80m upp fyrir sjávarmál. Kanna þarf hvort það sé til nóg af rörum í landinu, en það gæti hæglega þurft 5-15 km af lagnaefni með allt að 50cm þvermáli. Útbúa þyrfti tugi af dælustútum og hundruð af alls kyns lagnatengjum og margt fleira. Síðast en ekki síst þarf að finna og þjálfa þann mannskap sem yrði til taks.

En er þessi undirbúningur kannski þegar hafinn? Í frétt frá stjórnarráðinu 12. mars sl. segir „Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í dag að fela hópi ráðuneytisstjóra að leiða nauðsynlega vinnu við undirbúning verndar mikilvægra innviða vegna mögulegra eldsumbrota á Reykjanesi. Huga þarf að hröðum og öruggum viðbrögðum við mögulegum eldsumbrotum, styðja við vinnu heimaaðila og tryggja um leið fyllsta öryggi íbúa.“

Þetta er gott framtak en því miður kemur ekki fram í tilkynningunni hvort hafinn sé sá undirbúningur sem nauðsynlegur er til að geta kælt hraunstrauma með skömmum fyrirvara.

Slíkur undirbúningur kostar eflaust bæði tíma og peninga en hann gæti líka átt þátt í að forða innviðum og byggð frá tjóni sem numið gæti milljörðum.