Nóbelsverðlaunahafi segir lyf fundið sem ræður við veiruna

Satoshi Omura, sem hlaut nóbelsverðlaun í læknisfræði árið 2015, birti nýverið grein ásamt þremur öðrum vísindamönnum sem rökstyður að lyfið Ivermectin virki sem forvörn gegn Covid-19. Lyfið hjálpi þeim sem hafi sýkst að vinna á sjúkdómnum og lækki dánartíðni smitaðra um 60-80%.

Mikill fjöldi klínískra rannsókna hefur verið gerður á virkni Ivermectin gegn Covid-19. Lyfið sem er sagt bæði ódýrt og öruggt, hefur verið notað í 30 ár gegn ýmsum sníkjudýrasjúkdómum. Þekkt var að lyfið hafði virkni gegn ýmsum veirum og því var það í hópi fjölmargra eldri lyfja sem prófuð hafa verið gegn Covid-19.

Ivermectin hefur ekki enn verið notað gegn Covid-19 á Íslandi. Sjúklingar hafa ekki fengið neina lyfjameðferð, nema þeir sem verða svo veikir að leggjast inn á sjúkrahús. Þá er þeim gefið lyfið remdesivir. Fimm daga meðferð með því lyfi er mjög dýr $2.300 og ekki hefur tekist að sýna fram á að það bæti lífslíkur Covid-19 sjúklinga. WHO hefur mælt gegn notkun remdesivir af þeim sökum.

Ákvarðanir um lyfjanotkun gegn Covid-19 eru teknar af sérfræðingum smitsjúkdómadeildar á Landspítala Ísland. Samkvæmt upplýsingum á vef Lyfjastofnunar hafa þeir ekki enn óskað eftir að taka ivermectin í notkun.

Þegar þessi pistill var ritaður höfðu 30 lönd tekið Ivermectin í notkun gegn Covid og þar á meðal þrjú ESB ríki. Vonandi verður þess ekki langt að bíða að þetta lyf verði einnig í boði fyrir þá sem sýkjast af Covid-19 hér á landi.

Hér er hægt að lesa grein um þetta sem ég skrifaði í Kjarnann og birtist. 19. apríl 2021.

Hér er hægt að skoða minnisblað um ivermectin sem ég tók saman og sendi á þríeykið og yfirlækni smitsjúkdómadeildar Landspítalans.