Fresta lögum um endurnýjanlegt eldsneyti

 MYND/PJETUR  Visir.is

Heimir Már Pétursson skrifar á Visir.is þann 13. nóvember:

Frosti Sigurjónsson þingmaður Framsóknarflokksins skoraði á Ragnheiði Elínu Árnadóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra á Alþingi í dag, að fresta gildistöku laga sem taka eiga gildi um næstu áramót um notkun á endurnýjanlegu eldsneyti í samgöngum á landi.

Frosti sagði efnafræðinginn Glúm Jón Björnsson hafa bent á að lögin muni valda miklum óþarfa kostnaði fyrir þjóðarbúið.

Viðbótarkostnaðurinn felst í því að hér þarf að kaupa inn dýrara eldsneyti á bílaflotann en annars hefði verið. Fyrir árin 2014 til 2019 gæti sá kostnaðarauki numið fimm til sex milljörðum króna og það í gjaldeyri,“ sagði Frosti í umræðum um störf þingsins í dag.

Enginn nema Alþingi krefjist þess að þessi lög taki gildi fyrir árið 2020. Lögin leiði ekki til minni mengunar.

„Útblástur bifreiða verður síst minni þótt blandað verði með eldsneyti úr korni. Framleiðsla á eldsneyti með ræktarlandi hefur jafnframt verið harðlega gagnrýnd fyrir að leiða til hækkandi matvælaverðs í heiminum og hungursneyðar,“ sagði Frosti.

Ef Íslendingar vilji í raun og veru draga úr mengun væri skynsamlegara að nota þessa sex milljarða til að niðurgreiða hvern innfluttan rafbíl um eina milljón sem dygði til niðurgreiðslu á sex þúsund bílum fyrir árið 2020.

„Sá rafbílafloti hefði þann kost að að nýta hreina innlenda orku og draga úr útblástri koltvísýrings sem næmi um 35 þúsund tonnum árlega. Í stað þess að brenna sex milljörðum til kaupa á matarolíu og dýrum íblöndunarefnum mætti nýta fjárhæðina til að byggja upp verðmætan rafbílaflota sem myndi í raun og veru draga úr útblæstri í samgöngum,“ sagði Frosti.

Hlekkur á frétt: http://www.visir.is/frosti-vill-fresta-logum-um-endurnyjanlegt-eldsneyti/article/2013131119583