Eru evruríkin fullvalda?

eurozonedebtThe Telegraph vakti athygli á því í vikunni að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi vald til að breyta fjárlagafrumvörpum aðildarríkja evrusvæðisins áður en þau eru lögð fyrir þjóðþingin til umfjöllunar. Fari aðildarríki ekki eftir fyrirmælum framkvæmdastjórnar ESB má beita aðildarríki þungum sektum. 

Framkvæmdastjórnin hefur nýlega lýst efasemdum um fjárlagafrumvarp Ítalíu. The Telegraph bendir á að þessi afskiptasemi Brussel í Ítölsk efnahagsmál sé í raun til þess fallin að grafa undan pólitískum stöðugleika og draga úr efnahagsbata í landinu.

The Telegraph vekur athygli á vaxandi lýðræðishalla á evrusvæðinu:

„Það er ekki hægt að ofmeta áhrif þessarar þróunar á evrusvæðinu: lokaorðið um það hvernig þjóðir verja fjármunum sínum liggur ekki lengur hjá þjóðþingum aðildarríkja evrusvæðisins.“

Embættismenn ESB hafa vald til að gera breytingar á fjárlagafrumvörpum aðildarríkja evrusvæðisins og geta beitt sektum til að fylgja þeim eftir. Vald sautján aðildarríkja evrusvæðisins til að setja sér fjárlög hefur í reynd verið fært frá þjóðþingum til embættismanna í Brussel.

Íbúar evruríkjanna voru ekki spurðir hvort þeir vildu færa þetta vald til Brussel. Hætt er við að kjósendur spyrji sig; til hvers að standa í því að kjósa fólk á þing ef það eru í raun embættismenn ESB taka hinar endanlegu ákvarðanir?