ESB semur við Noreg um ofveiði á makríl

Í gærkvöldi bárust þær upplýsingar að ESB, Noregur og Færeyjar hafi gert samkomulag um magn og skiptingu makrílafla án þáttöku Íslands. Umsamið aflamagn er langt umfram veiðiráðgjöf. Íslendingar vildu ekki taka þátt í samkomulagi sem byggði á veiði langt umfram ráðgjöf vísindamanna og það er gott.

Hingað til hefur makríll ekki verið á lista yfir fiskistofna sem eru ofveiddir. Neytendur verða sífellt meðvitaðri um umhverfismál og hvaða áhrif innkaup þeirra geta haft á fiskistofna. Þessi samningur um ofveiði gæti því dregið úr eftirspurn eftir makríl um leið og hann stóreykur framboðið. Afleiðingin gæti orðið verðhrun á makríl.

Ísland stundar ekki ofveiði en ESB ofveiðir 80% af sínum fiskistofnum og 30% fiskistofna ESB eru að hruni komnir. Þá staðreynd þarf að kynna á okkar helstu mörkuðum svo þeir neytendur sem kjósa sjálfbærar vörur geti tekið upplýstar ákvarðanir.