Er alveg sjálfsagt að einkavæða bankana?

Screen Shot 2016-01-29 at 20.09.49Ríkið á í dag 98,2% hlut í Landsbankanum, 22,6% hlut í Arion banka og fljótlega mun ríkið eignast Íslandsbanka að fullu. Þá verður bankakerfið í landinu að ¾ hlutum í eigu ríkisins. Er það gott eða slæmt? Hver eru rökin með og móti einkavæðingu í þetta sinn?

Það er gjarnan bent á að vaxtagjöld ríkisins eru mikil og nota mætti andvirði seldra hluta í bönkunum til að lækka skuldir og vaxtagjöld. Heildarvaxtagjöld ríkisins árið 2016 eru áætluð 74 mia kr. og þar er vaxtakostnaður vegna framlags ríkisins til bankanna metinn á 7,6 ma. kr. Með því að selja hlut ríkisins í bönkunum mætti vissulega draga úr skuldum og þar með vaxtagjöldum en um leið hættir ríkið að fá arð af bönkunum og hlutdeild í hækkandi verðmæti þeirra. Að meðaltali hefur ríkið fengið 9,4 ma. kr í arð sem er 2 ma. kr. hærri en vaxtakostnaðurinn af framlaginu. Á þessu ári gæti Landsbankinn greitt óvenju mikinn arð, allt að 63 ma. kr. og þótt arðurinn á næstu árum verði hóflegri verður hann að öllum líkindum hærri en vaxtakostnaðurinn. Það virðist því koma betur út fyrir ríkissjóð að eiga bankana áfram.

Eigið fé bankanna hefur aukist hratt frá stofnun þeirra. Hlutdeild ríkisins í aukningunni hefur numið alls um 116 ma kr. og þá er stöðugleikaframlagið ekki meðtalið. Ef bankarnir skila hagnaði áfram mun eigið fé bankanna líka vaxa. Söluverðmæti bankanna getur aukist verulega á næstu árum því nú er verðmat á bönkum almennt lágt miðað við sögulegt meðaltal og væntanleg sala Arion banka kemur í veg fyrir að besta verð fáist fyrir hlut ríkisins í Landsbanka á sama tíma. Það getur tekið nokkur ár fyrir markaðinn að ná sér á strik aftur og á meðan væri skynsamlegt fyrir ríkið að bíða með öll söluáform. Að selja við núverandi aðstæður gæti því leitt til þess að ríkið fái tugmilljörðum lægra verð fyrir hlut sinn en ella.

Í öðru lagi hefur verið nefnt að það sé áhættusamt fyrir ríkið að eiga stórann hlut í bönkunum og því liggi á að selja. Það er vissulega rétt en vandinn er hinsvegar sá að þótt ríkið einkavæði bankana situr áhættan eftir sem áður að verulegu leyti á ríkissjóði. Bankarnir eru hver um sig of stórir og mikilvægir til að fá að fara á hausinn eins og venjuleg fyrirtæki. Ríkið myndi ávallt koma þeim til bjargar á kostnað skattgreiðenda. Þar til fundin er lausn á þeim vanda er öruggast fyrir ríkissjóð að eiga bankana og setja þeim eigendastefnu sem takmarkar áhættu þeirra og dregur þannig úr hættu á frekari skakkaföllum ríkissjóðs vegna falls bankanna.

Ef bankarnir yrðu einkavæddir núna munu nýjir eigendur vilja hámarka arðsemi sinnar fjárfestingar. Þeir myndu setja bankanum stefnu sem þýddi töluvert meiri áhættutöku en ríkið hefði gert sem eigandi. Nýjir eigendur myndu einnig vilja hámarka vaxtamun og hækka þjónustugjöld en hvorugt kæmi sér vel fyrir viðskiptavini bankana, fyrirtækin og heimilin í landinu. Vegna þess að hér ríkir fákeppni á bankamarkaði er hætt við því að einkavæddir bankar geti dregið til sín óeðlilega mikinn hagnað út úr hagkerfinu. Við slíkar aðstæður virðist betra fyrir landsmenn að ríkið eigi bankana áfram og þeim verði sett stefna um hóflegan hagnað, hóflega áhættu og hagkvæmni í rekstri.

Sem betur fer liggur ekkert á að selja bankana og því ætti að gefast góður tími til að ræða kosti og galla einkavæðingar. Næstu misseri mætti nýta til að bæta umgjörð bankanna skipta þeim upp í viðskiptabanka, fjárfestingabanka og íbúðalánabanka til að draga úr áhættu. Peningamyndun þyrfti að færast alfarið frá bönkum til seðlabankans þannig að peningakerfið, sem aldrei má bregðast, verði ekki háð fjárhag einstakra banka eins og nú er. Eftir þessar breytingar væru bankarnir orðnir stöndug og verðmæt fjármálafyrirtæki sem mögulegt væri að einkavæða án þess að áhættan sæti eftir hjá ríkinu.

(Greinin birtist í DV 29. jan 2016)