Undanþága minni fjármálafyrirtækja frá bankaskatti

Skuldafrímark bankaskatts að fjárhæð 50 milljarðar hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum og einkum hvernig sú tala hafi verið fundin. Á morgun verður fundur í efnahags- og viðskiptanefnd til að fara yfir málið.

Aðdragandi skuldafrímarksins er þannig að umsagnir um frumvarp um breytingar á bankaskatti vöruðu við því að hækkun skatthlutfallsins myndi koma þungt niður á minni fjármálafyrirtækjum. Bent var á að við því mætti bregðast með frískuldamarki.

Í byrjun desember komu fram áform um að hækka bankaskattinn verulega. Meirihluti nefndarinnar ákvað því 10 des. að leggja fram tillögu að undanþágu frá bankaskatti fyrir minni fjármálafyrirtæki og lagði áherslu á að undanþágan kæmi fram strax við 2. umræðu svo hún fengi eins mikla umföllun í þinginu og kostur var.

Sama dag sendi nefndarritari tölvupóst á fjármálaráðuneytið þar sem greint var frá ákvörðun meirihlutans og óskað eftir að ráðuneytið undirbyggi slíka tillögu og sendi nefndinni.

Í tillögu nefndarinnar og pósti til ráðuneytis var ekki tekin afstaða til hver upphæð skuldafrímarks ætti að vera, því nefndin hafði ekki unnið þá vinnu eða ályktað sérstaklega um það. Venjan er líka sú að fjármálaráðuneytið, sem hefur sérfræðinga og gögn um skattstofna komi til hjálpar. Aðalatriðið er að nefndin kom markmiðinu skýrt til skila til ráðuneytisins: að veita minni fjármálafyrirtækjum undanþágu, fjárhæðin yrði að ráðast af því.

Á nefndarfund 11. desember mættu fulltrúar ráðuneytisins og kynntu nefndinni margvíslegar úrbætur á frumvarpinu. Á þeim fundi kom meðal annars fram útfærsla frískuldamarksins og talan 50 ma nefnd sem stærðargráða til skoðunar.

Í áliti meirihlutans fyrir 2. umræðu sem dreift var 16. desember komu fram rök fyrir frískuldamarkinu og gerð tillaga um að það yrði 50 milljarðar. Fyrsti minnihluti lagði einnig til 50 ma frískuldamark í sínu áliti.

Á fundi efnahags- og viðskiptanefndar mánudaginn 20. janúar verður þetta rætt. Óskað hefur verið eftir upplýsingum frá ráðuneytinu um hvernig bankaskatturinn leggst á einstök fyrirtæki. Nefndin getur þá gengið úr skugga um hvort að markmiðinu um að veita minni fjármálafyrirtækjum undanþágu frá bankaskattinum hafi verið náð með 50 milljarða skuldafrímarki.