Um aðildarviðræður

Í þinginu í dag var sérstök umræða um stöðu aðildarviðræðna, hér er ræða sem ég flutti við það tilefni.
Virðulegi forseti,
Í síðustu kosningum fóru sjálfstæðisflokkur og framsóknarflokkur fram með afar skýra afstöðu gegn ESB aðild, og aðildarferlinu.
Þing beggja flokka höfðu ályktað að hagsmunum Íslands væri betur borgið utan Evrópusambandsins. Landsfundur sjálfstæðisflokksins ályktaði að aðildarviðræðum skyldi hætt. Flokksþing Framsóknar ályktaði að ekki yrði haldið lengra í aðildarviðræðum. Báðir flokkar ályktuðu að aðildarviðræður yrðu ekki teknar upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þegar þessar ályktanir voru gerðar, var ekki hægt að vita hvaða flokkar myndu enda í ríkisstjórn. Þessir flokkar, sem voru einlægt andvígir aðild og þar með aðildarferlinu gátu ekki útilokað að mynda ríkisstjórn með flokki sem hefði aðild á stefnuskránni. En færi svo, þá gátu kjósendur Framsóknar og Sjálfstæðisflokks treyst því að aðildarferlinu yrði ekki haldið áfram án þjóðaratkvæðis.
Niðurstaða kosninga varð sú að ríkisstjórnin er mynduð af flokkum sem lofuðu kjósendum sínum að stöðva aðildarferlið. Báðir flokkar telja hagsmunum íslands betur borgið utan Evrópusambandsins. Stefna flokkana er áréttuð í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.
Aðildarferlið hefur verið stöðvað og því verður ekki haldið áfram án þjóðaratkvæðis, en á þann varnagla mun vart reyna á meðan báðir stjórnarflokkar eru andvígir aðild.
Flokkarnir sem hófu aðildarferlið, lögðust alfarið gegn því að þjóðin yrði spurð leyfis. Aðildarferlið var þess vegna á þeirra pólitísku ábyrgð og nú hafa þeir ekki þingstyrk til að halda ferlinu áfram. Þá finnst þeim tímabært að leita álits þjóðarinnar.
En álit þjóðarinnar er vel þekkt. Frá því aðildarumsóknin var lögð fram hafa allar viðhorfskannanir sýnt yfirgnæfandi andstöðu við aðild.
Evrópusambandinu er ljóst að það gengur ekki að standa í viðræðum við þjóð sem hefur ekki einlægan áhuga á aðild að bandalaginu. Það tókst ekki að ljúka aðildarviðræðum við ríkisstjórn sem var bæði með og móti aðild, og það er enn síður mögulegt að ljúka aðildarferli með ríkisstjórn sem er alfarið á móti aðild.