Synjun sífellt líklegri – frétt á ruv.is

frett ruv.is

Frétt varðandi ICESAVE birt á ruv.is þann 16. febrúar 2011.

Frosti Sigurjónsson, talsmaður undirskriftasöfnunar gegn Icesave-samningnum, www.kjosum.is, telur að líkurnar á því að forsetinn hafni Icesave aukist sífellt. Hann telur að ekki sé mikið um falskar undirskriftir á vef hópsins. Magnús Árni Skúlason, talsmaður Indefence, segir að þingmenn hafi ekki staðið sig sem skyldi og hefði átt að vera kleyft að tryggja ríkari aðgang Íslendinga að eignum úr þrotabúi Landsbankans.

Magnús Árni segir að þeir hafi lagt til leiðir til að draga úr áhættunni við Icesave-samninginn, til dæmis að fellt yrði brott ákvæði sem hamlaði því að íslenski innstæðutryggingasjóðurinn fengi nægilega mikið út úr þrotabúi Landsbankans. Þá hefði hlutur Íslendinga í Icesave-skuldbindingunni verið greiddur hraðar niður en samningurinn kveði á um. Þar með hefði öll áhætta, eins og gengishætta, minnnkað hlutfallslega mjög hratt. Aðspurður um hvort nú sé ekki kominn tími til að sætta sig við orðinn hlut, segir Magnús Árni að ef þingið hefði beitt sínu lýðræðislega afli gegn Bretum og Hollendingum og fengið ákvæðið út úr samningnum þá hefði Indefence getað sæst á samningana. Niðurstaða þingsins í dag sé ekki nógu góð, þingmenn hefðu átt að vinna vinnuna sína betur.

Um þrjátíu og fjögur þúsund manns hafa skrifað undir áskorun til forseta Íslands um að hann hafni Icesave. Frosti Sigurjónsson, einn talsmanna undirskriftasöfnunarinnar, segir það fagnaðarefni að nærri helmingur þingmanna hafi stutt tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu.

Frosti segist treysta því að forsetinn taki það sem hann segir vera rétta ákvörðun. Líkurnar hafi aukist mjög á því að forsetinn synji lögunum staðfestingar.

Forráðamenn Kjósum.is hafa verið gagnrýndir fyrir að það unnt sé að skrá fölsk nöfn á vefinn. Frosti segir ekki víst að þrjátíu þúsund undirskriftir þýði þrjátíu þúsund manns. Hópurinn hafi í hyggju að keyra undirskriftirnar saman við þjóðskrá. Hann segir þó að ekkert bendi til þess að mikið sé af fölskum undirskriftum, ekkert sem skekki verulega niðurstöðuna.