Segjum nú að Ísland gangi í ESB. Hvernig myndi okkur farnast í bráð og lengd? Þetta þarf að skoða dáldið og sérstaklega langtímahorfur, því aðild að ESB er hugsuð til langframa.
Beðið eftir evru: til 2014
Haft er eftir Olli Rehn, sem fer með stækkunarmál ESB, að Ísland gæti fengið flýtimeðferð og komið inn í ESB árið 2011. Hans-Gert Pöttering, forseti Evrópuþingsins er ósammála og fullyrðir að þetta sé alls ekki rétti tíminn til að huga að stækkun sambandsins. Fyrst þurfi aðildarlöndin 27 að fjalla um Lissabon sáttmálann.
Líklega er raunhæft að innganga taki okkur 3 ár hið skemmsta. Þá tekur við 2 ára bið eftir Evrunni, en bara ef okkur tekst að halda gengi krónunnar stöðugu gagnvart Evru.
Næstu 3-5 ár verða líklega jafn erfið hvort sem við sækjum um aðild eða ekki.
Hunangstunglið: 2014-2020
Evran er loksins okkar. Stöðugur og traustur gjaldmiðill en óvæginn ef efnahagur Íslands fer úr fasa við ESB.
Hafi okkur á annað borð tekist að semja um einhverjar undanþágur frá sameiginlegri fiskveiðistefnu og milljarða framlagi til sjóða bandalagsins þá gæti þetta verið góður tími fyrir Ísland.
Ef allt fer vel gæti þetta tímabil einmitt verið sú gósentíð sem fjölskyldur og fyrirtæki landsins vonast eftir. Því miður treysta fæstir sér til að skyggnast lengra.
Næstu áratugir 2020-2100
Til langs tíma er óvarlegt að treysta því að sérákvæði Íslands um undanþágur frá grundvallarstefnu sambandsins um sameiginlega stjórnun auðlinda haldist. Alls kyns aðstæður og uppákomur geta leitt til þess að við kjósum að sætta okkur við niðurfellingu á þeim þegar á reynir.
Þróun Evrópusambandsins hefur hingað til verið í átt til sífellt meiri samræmingar og miðstýringar. Sú þróun er knúin áfram af þörf fyrir aukna hagkvæmni og eflingu viðskipta en einnig af náttúrulegri leitni valds til að safnast upp. Þessi þróun er líkleg til að halda áfram og ná til sífellt fleiri málaflokka þar á meðal skatta- og varnarmála. Lissabon sáttmálinn er t.d. skref í þá átt.
Sumir óttast (og aðrir vona) að ESB þróist í nokkurskonar Bandaríki Evrópu. Þá er ljóst að Ísland verður ekki lengur „stórasta land í heimi“ heldur fjarlægur og kannski óspennandi hluti af miklu stærra bákni.
Svo er erfitt að sjá hvernig Ísland getur til lengri tíma skotið sér undanþví að leggja fé og mannskap til varnarmála Evrópu eða hernaðaraðgerða.
Jæja…
Einhver niðurstaða með framtíð Íslands innan ESB?
Það virðist alveg víst að hvort sem við göngum til samninga eða ekki verðum við að koma okkur á réttan kjöl af eigin rammleik.
Við verðum líklega búin með það versta þegar okkur er hleypt inn í ESB. Áratugurinn eftir það verður miklu betri en erfiðleikaárin. Líklega ágætur ekki síst ef samningar hafa tekist vel.
Til lengri tíma litið munu nýjir leiðtogar koma og fara hjá ESB. Það fjarar undan sérákvæðum. Bregðast þarf við ógnum og óvæntum aðstæðum. Getum við ætlast til að hagsmunir smáþjóðar í norðri ráði miklu ef á reynir? Líklega ekki.
Er þetta kannski of mikil svartsýni? Þeir sem telja rétt að ganga í ESB hljóta að hafa allt aðra sýn á framtíðina og vonandi bjartari. Gaman væri að heyra frá þeim.