Viltu spara milljarð?

opensourceÍsland er meðal tölvuvæddustu þjóða heims og íslensk fyrirtæki og hið opinbera kaupa mikið af hugbúnaði. Stærsti hluti er fluttur inn og greitt fyrir hann í gjaldeyri. Það er hægt að draga verulega úr þeim innflutningi með því að nota opinn hugbúnað sem er fáanlegur án endurgjalds. Sparnaður gæti numið milljarði á ári.

Í erindi sem ég flutti í dag á ráðstefnu Samtaka Vefiðnaðarins er sagt frá íslensku hugbúnaðarfyrirtæki sem tókst að spara 20 milljónir á 4 ára tímabili með því að velja alltaf opinn og ókeypis hugbúnað þegar þess var kostur.

Stóra spurningin er hinsvegar hvað gæti allt Ísland sparað mikið með því að nota sömu stefnu?

Lauslegir útreikningar benda til að sparnaður gætu verið nálægt 1.000 milljónum á ári. Það eru umtalsverðir peningar fyrir skulduga þjóð.

Upphæðin er áætluð með því að margfalda fjölda vinnustöðva með kaupverði og uppfærslukostnaði hugbúnaðar á hverja vinnustöð. Fjöldin er áætlaður 40.000 vinnustöðvar, þar af 10.000 hjá hinu opinbera. Hugbúnaðarkostnaður er áætlaður 25.000 kr. á vinnustöð (Sjá skýrslu ParX fyrir Forsætisráðuneytið um opinn hugbúnað) Samtals gerir þetta um 1 milljarð á ári. Svo má líka spara hundruð milljóna til viðbótar með því að nota ókeypis hugbúnað í gagnagrunnshugbúnaði, stýrikerfum, vefmiðlurum ofl. ofl.

Þetta er hinsvegar ekki auðvelt. Það þarf að taka ákvörðun, móta stefnu, hefja átak og leggja í mikla vinnu. Fólk þarf að leggja það á sig að læra á öðruvísi hugbúnað. Kreppa er einmitt góður tími til að hefja slíkt átak. Það skapar störf og sparar dýrmætan gjaldeyri.

Það er samt rétt að vara við því að ganga of langt. Stundum er einfaldlega ódýrara að kaupa hugbúnað þótt hann sé dýr.

Ég vil skora á stjórnvöld og samtök atvinnulífsins að skoða þetta tækifæri.

—-

Framboð á góðum ókeypis hugbúnaði hefur aukist mjög á undanförnum árum og notkun hans fer mjög vaxandi. Hér eru nokkur dæmi:

Þetta er bara lítið brot. PC Magazine fjallaði nýlega um 173 ókeypis forrit..