Ætti að selja Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins til lífeyrissjóða?

NýsköpunarssjóðurNýsköpunarsjóður atvinnulífsins er í eigu ríkisins. Hlutverk hans er að stuðla að uppbyggingu og vexti íslensks atvinnulífs með því að taka þátt í fjárfestingum í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Sjóðurinn hefur frá stofnun komið að fjármögnun fjölmargra efnilegra fyrirtækja og þannig verið í lykilhlutverki í eflingu nýsköpunar á Íslandi. Nú eru 34 fyrirtæki og 3 sjóðir í eignasafni sjóðsins. 

Nýsköpunarsjóður hefur ekki mikið fé aflögu til nýfjárfestinga um þessar mundir og ólíklegt má telja að ríkissjóður geti lagt honum til digra sjóði á næstu árum. Þetta þýðir að færri nýsköpunarverkefni munu fá fjármagn til uppbyggingar.

Á sama tíma og ríkissjóður berst í bökkum vegna skulda, glíma lífeyrissjóðir við vanda sem er allt annars eðlis. Þeir þurfa að fjárfesta fyrir 130 milljarða árlega innan hafta. Talað er um hættu á bólumyndun á eignamarkaði í því sambandi. Lífeyrissjóðir hafa ekki fjárfest að ráði í nýsköpun, megnið fer í skráð verðbréf og skuldabréf ríkissjóðs.

Með kaupum á Nýsköpunarssjóð atvinnulífsins myndu lífeyrissjóðir eignast fjölbreytt safn af nýsköpunarfyrirtækjum sem gæti gefið þeim verulegan arð í framtíðinni. Með kaupum á Nýsköpunarssjóði atvinnulífsins væru lífeyrissjóðir jafnframt komnir með starfandi sjóð í hendurnar. Sjóðurinn væri kjörinn farvegur fyrir aukna þátttöku lífeyrissjóða í nýsköpun sem myndi án efa skila sér í auknum vexti íslensks atvinnulífs, fleiri störfum og þar með bættum lífskjörum í landinu.

Skyldu lífeyrirsjóðir hafa einhvern áhuga á að skoða þessa hugmynd?