Íslendingar hjálpa Þjóðverjum við heimilisbókhaldið

Meniga logoEfnahagsáfallið var mikið áfall fyrir sjálfstraust þjóðarinnar. Fáir hefðu trúað því að skömmu eftir hrun myndu hinir ráðdeildarsömu Þjóðverjar leita lausna hér á landi. Þýskir bankar töpuðu óhemju miklum fjármunum í hruninu en það stoppaði þó ekki þýska bankann ComDirect í því að nýta sér lausn íslensks hugbúnaðarfyrirtækis. Ísland fyrir hrun hefði varla talist Mekka ráðdeildar og hagsýni. En nú örfáum árum síðar velja hinir mjög svo sparsömu Þjóðverjar íslenskan hugbúnað til að færa sitt rómaða heimilisbókhald inn í nútímann.

Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Meniga var stofnað skömmu eftir hrun til að þróa betra heimilisbókhald fyrir þá sem nýta sér heimabanka. Þróun bókhaldsins gekk svo vel að Íslandsbanki ákvað að veðja á lausnina og bjóða viðskiptavinum sínum upp á Meniga heimilisbókhald. Það gaf svo góða raun að fljótlega fylgdu fleiri bankar í kjölfarið hér heima og í framhaldi erlendis.

Óhætt er að segja að útrás Meniga á erlenda markaði hafi gengið vel. Fyrirtækið er í hröðum vexti, skilar hagnaði, skapar fjölda vel launaðra starfa og skilar miklum og vaxandi gjaldeyristekjum til landsins.

Ég vil óska stofnendum og starfsfólki Meniga til hamingju með þennan stórkostlega árangur sem þeir eiga svona sannarlega skilið.

Það er líka fullt tilefni til að þakka Meniga fólkinu sérstaklega fyrir að efla ímynd Íslands útávið sem lands nýsköpunar, ráðdeildar og hagsýni.