Greinin birtist í Morgunblaðinu 5. janúar 2013
Verðbólga er alvarlegt vandamál sem stjórnvöldum hefur ekki tekist að ráða við. Í stað þess að koma böndum á sjálfa verðbólguna hefur vandanum verið sópað undir teppi verðtryggingar. Sú leið felur í sér að fjárfestar njóta tryggingar gegn verðbólgu en því miður er sú trygging á kostnað allra annarra í samfélaginu.
Um þá leið verður seint sátt og enn síður ef verðtrygging er einnig túlkuð sem altrygging gegn efnahagsáföllum. Með því að velta þannig verðbólgu og efnahagsáföllum alfarið á lántakendur munu tugþúsundir heimila og þúsundir fyrirtækja burðast með stökkbreytt lán árum saman. Sá skuldaklafi tefur mjög endurbata í hagkerfinu og á því tapa allir, einnig fjárfestar.
Trygging gegn hruni?
Það sætir furðu að hrein vinstristjórn skuli standa að því óréttlæti að velta hruninu alfarið á lántakendur. Næsta ríkisstjórn verður að hafa kjark til að gera almenna skuldaleiðréttingu. Allt umfram venjulegar verðhækkanir er efnahagshrun sem fjárfestar og lántakendur eiga að bera í sameiningu. Hvar stendur í lánasamningum að lántaki tryggi lánveitanda gegn efnahagsáföllum og setji að veði aleigu sína og framtíðartekjur?
Rót vandans
En hver er raunveruleg rót vandans? Hvernig mætti draga úr verðbólgu og fyrirbyggja annað efnahagshrun? Hér sem annars staðar hafa bankar fengið að auka peningamagn mun hraðar en hagkerfið vex. Afleiðingin er sú að sífellt fleiri krónur eltast við sömu framleiðsluna, sem leiðir til verðhækkana og verðbólgu. Fái peningamagn að fimmfaldast á fimm árum, eins og hér gerðist á árunum 2003-2008 þá leiðir það óhjákvæmilega til hruns.
Taumlaus peningamyndun
Peningaþensla er afleiðing þess að viðskiptabönkum er leyft að auka peningamagn að vild. Ekkert hefur verið gert til að koma böndum á peningamyndun banka eða fyrirbyggja annað hrun af þeirra völdum í framtíðinni. Viðskiptabankar græða enn á verðbólgu og fá vexti af þeim peningum sem þeir skapa. Þetta fyrirkomulag er beinlínis hættulegt.
Örugg lausn
Lausnin er að setja lög sem koma í veg fyrir að bankar geti aukið peningamagn. Hlutverk banka verði að miðla sparnaði til lántakenda, en ekki að búa til nýja peninga eins og nú er. Peningamyndun verði alfarið í höndum Seðlabanka með þarfir hagkerfisins og verðstöðugleika að leiðarljósi. Ágóði af nýmyndun peninga rennur þá óskiptur til almannahagsmuna en ekki til eigenda bankanna.
Þessi breyting myndi draga úr peningaþenslu og verðbólgu af hennar völdum. Auk þess myndi vaxtabyrði í samfélaginu og skuldir fara minnkandi eins og lýst er nánar á þessari vefsíðu www.betrapeningakerfi.is
Höfundur er rekstrarhagfræðingur og skipar 1. sæti Framsóknarflokksins í Reykjavík norður.