Millifærslur í Kanadadölum

cadKanadadollar er sameiginlegur gjaldmiðill 35 milljón Kanadabúa. Kanada samanstendur af tíu fylkjum og þremur sjálfstjórnarsvæðum.

Alberta er tekjuhæsta fylkið enda er það með mjög öflugan iðnað og er næst stærsti útflytjandi á jarðgasi í heiminum. Þjóðartekjur á mann í Alberta eru 71 þúsund CAD. Íbúar fylkisins Prince Edward Island stunda hinsvegar landbúnað og útgerð. Þar eru tekjur á íbúa helmingi lægri en í Alberta, aðeins 35 þúsund CAD.

Hvernig geta svo ólík svæði búið við sama gjaldmiðil? Þau geta það ekki með góðu móti. Lausnin hefur falist í því að tekuhærri fylkin sætta sig við að borga styrki til tekjulægri fylkja. Líklega hafa slíkar millifærslur átt sér stað frá því Kandada varð til árið 1867, en kerfið tók á sig form árið 1957 og var fest í stjórnarskrá árið 1982.

Millifærslurnar á árinu 2010 námu alls 60 milljörðum CAD. Þær renna til stjórnvalda í hverju fylki sem verja þeim til heilbrigðismála, menntamála og samfélagsverkefna af ýmsu tagi.

Á næsta ári mun Prince Edward Island fá 3.500 CAD í styrk á hvern íbúa sem er nálægt því að vera 450 þúsund krónur á mann.

Þeir sem vilja taka upp tvíhliða viðræður við Kanda um myntsamstarf hjóta að svara því hvort Ísland muni taka þátt í kanadíska millifærslukerfinu, og hvort þeir telji að Ísland yrði þar gefandi eða þiggjandi.

Heimildir:

http://www.fin.gc.ca/fedprov/mtp-eng.asp http://en.wikipedia.org/wiki/Equalization_payments_in_Canada