Fjölmyntakerfi flókin og dýr

MyntirFjölmyntakerfi hefur verið nefnt sem einn af valkostunum í gjaldmiðilsmálum Íslands. Slíkt fyrirkomulag myndi fela í sér að fólk og fyrirtæki gæti einfaldlega notað þá mynt sem best hentar á hverjum tíma. Hugmyndin hljómar spennandi enda geta varla nokkur maður verið á móti frelsi til að velja.

Bent hefur verið á að einhliða upptaka eins erlends gjaldmiðils hefur í för með sér verulegan kostnað og mikla áhættu. Kostnaðurinn felst í því að kaupa til landsins nægilegt magn af seðlum (lágmark 40 milljarða). Áhættan felst einkum í því að núna eru 1000 milljarðar af lausu fé sem vilja fara úr landi og þá myndu 40 milljarðarnir duga skammt.

Einhliða upptaka margra erlendra mynta hefur nákvæmlega sömu ókosti en til viðbótar bætist við aukið flækjustig sem myndi leiða til meiri kostnaðar í hagkerfinu. Í stað þess að Seðlabanki myndi kaupa 40 milljarða af erlendum myntum til að nota hér á landi, myndi verkefnið lenda á fyrirtækjum og einstaklingum. Líklega fengju þeir síðri kjör en Seðlabankinn.

Í fjölmyntakerfi fengju einhverjir laun í dollurum aðrir í evrum og svo framvegis. Ekki er víst að allar myntir væru jafn velkomnar í næstu verslun. Neytendur þyrftu að búa við flókið verðumhverfi og einnig taka á sig allan kostnað af því að skipta úr einni mynt í aðra.

Með einhliða upptöku margra erlendra mynta tapast myntsláttuhagnaðurinn úr landi eins og gerist við upptöku erlendrar myntar almennt.

Stjórnvöld missa einnig peningastjórntækið sem oft hefur nýst til að draga úr óvæntum hagsveiflum. Stjórn efnahagsmála yrði því að vera mjög virk og vel heppnuð og vinnumarkaður mjög sveigjanlegur ef ekki ættu að hljótast af auknar sveiflur í atvinnustigi.

Niðurstaðan virðist því sú að fjölmyntakerfi, sem er í raun einhliða upptaka fjölda erlendra mynta, hafi alla sömu galla og einhliða upptaka einnar myntar, en hún sé að auki flóknari og kosti meira.