Hlutleysi Ríkisútvarpsins

ruvlogoÍ lögum um Ríkisútvarpið ohf er á þremur stöðum kveðið á um skyldu til óhlutdrægni og fyllstu hlutlægni í allri umfjöllun og fréttaflutningi. Þjóðin þarf að geta treyst því að RÚV fari að lögum og sé í raun hlutlaus fjölmiðill. Það hefur sjaldan verið mikilvægara en nú að RÚV bregðist ekki trausti þjóðarinnar í þessu enda er þjóðin klofin í afstöðu sinni til stórmála eins og ESB og ICESAVE. RÚV má alls ekki taka afstöðu í þessum hitamálum.

Þær raddir verða nú háværari að umfjöllun RÚV um ESB og ICESAVE uppfylli ekki ákvæði útvarpslaga um óhlutdrægni. Hlutdrægni getur leynst víða t.d. í vali á fréttum, vali á viðmælendum, gildishlöðnum spurningum, tónlist, myndefni ofl.

Það er eðlilegt að fréttamenn og þáttastjórnendur RÚV hafi eins og aðrir sterkar skoðanir á ICESAVE og ESB og því er aukin hætta á að einhverjir þeirra falli í þá freistni að setja hlutina fram með hlutdrægum hætti.

Menntamálaráðherra, stjórn Ríkisútvarpsins, útvarpsstjóri og fréttastjórar bera ábyrgð á að farið sé að lögum í þessu efni. Þessum aðilum er skylt að sjá til þess að eftirlit sé haft með því að það efni sem frá RÚV kemur uppfylli kröfur laga um hlutleysi.

Mér er ekki kunnugt um hvernig eftirlit er haft með þessu, en hafi slíku eftirliti ekki verið komið á, þá eru þessir ábyrgðaraðilar ekki að framfylgja lögum um að hlutleysis sé gætt.

Einmitt núna, vegna þeirra aðstæða og átaka sem eru framundan, er sérstaklega mikilvægt að Ríkisútvarpið gæti fyllsta hlutleysis svo það glati ekki trausti þjóðarinnar.

Núna er rétti tíminn til að láta hlutlausan aðila gera úttekt á því hvort fyllsta hlutleysis hafi örugglega verið gætt í fréttaflutningi og umfjöllun um ESB og ICESAVE málin og birta þjóðinni niðurstöðuna.