Gauti B. Eggertsson og ógeðsdrykkurinn ICESAVE

gauti_eggertssonDr. Gauti, sem er yngri bróðir Dags, varaformanns Samfylkingarinnar kallar Icesave samninginn ógeðsdrykk sem verður að kyngja. Ef það verði ekki gert telur hann að allt fari á versta veg samanber eftirfarandi upptalningu:

“EES samningurinn er í húfi og þar með gífurleg útflutningsverðmæti.
Samskipti okkar við norðurlönd.
Allar lánalínur.
Lánshæfnismat íslenska ríkisins, sem hefur bein áhrif á lánshæfni allra íslenskra fyrirtækja.
Samskipti við fjölmörg fjármögnunarbatterí eins og Þróunarbanka Evrópu sem fjármagnar orkuverin að einhverju marki.
Öll fyrirgreiðsla alþjóða gjaldeyrissjóðsins.
Og svo framvegis”
“Hætt er við algeru frosti í viðskipum okkar við útlönd.
Kannski er eitthvað hægt að klóra eitthvað í bakkann um þennan ömurlega samning — sem ég játa að mér lýst ömurlega á — en mér sýnist enginn kostur annar í stöðunni. Það verður að samþykkja hann. Sorrý.Þetta er ógeðsdrykkur sem verður að kyngja.”

Hagfræðidoktorinn segir ennfremur að ábyrgð þeirra manna, sem ætli að fella samninginn, sé afskaplega þung og mikil.

“Þeir verða að skýra út vegvísana í þeirri háskaför sem við tekur ef samningurinn fellur.

Eitt er víst, Ríkisstjórnin er þá fallinn ef icesave fellur á Alþingi. Ef nokkrir þingmenn VG ætla að fella samninginn, verða þeir að útskýra hvernig hin nýja ríkisstjórn lítur út. Það er á þeirra ábyrgð að mynda starfhæfa ríkisstjórn með Framsókn, Sjálfstæðisflokki og Borgarhreyfingunni.

Um hvað yrði nýja ríkisstjórnin? Icesave, jú það er væntanlega málið að fella þann samning? Og svo yrði líklega fyrsta verk hinnar nýju ríkisstjórnar að draga til baka umsókn í ESB? Væri það óneitanlega táknrænt um einangrun landsins. Kannski rétt að segja sig úr nato líka og sameinuðu þjóðunum? Taka bjart í sumarhúsum á þetta?
Fara að snúa sér aftur að því að lifa á harðfiski, hákarli, slátri og sviðakjömmum?”

Það er gagnlegt að skoða þessa ógnvekjandi upptalningu nánar og kanna hversu líklegt sé nú að þetta færi eins og Gauti óttast.

EES samningurinn í húfi?

Hvers vegna? Sá samningur er alls ekki í húfi þótt við höfnum ICESAVE því EES lög hafa ekki verið brotin á nokkurn hátt. Ísland hefur einmitt farið að lögum ESB um tryggingasjóð innistæðna í öllum atriðum. Það er hvergi sagt í þeim lögum að það skuli vera ríkisábyrgð á tryggingasjóði.

Samskipti okkar við Norðurlönd?

Við þurfum að upplýsa frændur okkar á norðurlöndum um það hvers vegna íslenskum heimilum ber ekki að ábyrgjast skuldir einkabanka. Ríkisstjórnin hefur frá upphafi látið undir höfuð leggjast að halda uppi okkar málstað í þessu máli en það er ekki of seint að bæta úr því. Norðurlandabúar munu ekki taka afstöðu með því að íslenskur almenningur verði beittur órétti.

Allar lánalínur?

Færeyjingar settja engin skilyrði fyrir lánum. Pólverjar ekki heldur. Svíar hafa tekið sérstaklega fram að lánin frá þeim megi alls ekki renna í ICESAVE hítina.  AGS mun lána enda er það hagsmunamál allra þeirra sem eiga inni fé á Íslandi.

Lánshæfismat ríkisins og fyrirtækja?

Lánshæfismat mun einmitt versna ef við bætum ICESAVE skuldinni (500-1000 milljarðar) við þessa 2000 milljarða sem við skuldum í erlendum gjaldeyri. Það stangast á við heilbrigða skynsemi að halda öðru fram.

Samskipti við fjölmörg fjármögnunarbatterí eins og Þróunarbanka Evrópu?

Kannski, kannski ekki. Ég hef ekkert heyrt um að þessi batterí setji skilyrði um að Ísland taki á sig ICESAVE.

Öll fyrirgreiðsla Alþjóða gjaldeyrissjóðsins?

Nei, sá sjóður hefur aldrei sagt að Ísland þurfi að samþykkja ICESAVE enda væri það óhæfa. Bretar og Hollendingar beita eflaust þrýstingi en það mun ekki duga til lengdar. Ísland hefur uppfyllt ÖLL skilyrði sem AGS hefur sett um fyrirgreiðslu. Við megum ekki gleyma því að AGS er hér til að gæta hagsmuna kröfuhafa og þeir felast í því að lána ríkinu og halda því að verkáætlun AGS.

Hætt er við algeru frosti í viðskiptum við útlönd?

Þetta er með ólíkindum ólíklegt. “Útlönd” munu aldrei setja viðskiptabann á Ísland þótt það eigi í lögfræðilegum ágreiningi við tvö ríki. Það er ekki gripið til slíkra þvingana almennt. Bretland og Holland gætu ákveðið að setja einhverskonar þvinganir á Ísland en það er afskaplega ólíklegt enda á eftir að reyna dómstólaleiðina.

Ríkisstjórnin fellur?

Er þetta slæm afleiðing eða góð? Ég held bara að við gætum ekki fengið verri ríkisstjórn en þá sem hefur látið gæluverkefnið ESB og ógeðsdrykkinn ICESAVE ganga fyrir því að takast á við raunveruleg vandamál.

Draga aftur ESB umsókn og einangra landið?

Þetta er bull. Sviss drógu aftur sína ESB umsókn, eða settu hana í bið fyrir mörgum árum og hafa ekki einangrast mjög mikið frá umheiminum við það. Það er ótrúlega heimskulegt af Doktornum að halda því fram að Ísland muni einangrast við það að draga ESB umsóknina til baka. Hvað þá að stinga upp á því að Ísland gangi úr NATO eða sameinuðu þjóðunum. Lýsir bara rökþroti.

Fara að snúa sér aftur að því að lifa á harðfiski, hákarli, slátri og sviðakjömmum?

Harðfiskur, hákarl, slátur og svið er með því besta sem ég fæ og ég óttast ekki að borða meira af þessu í nokkur ár meðan réttmætar skuldir eru greiddar niður.

Að lokum: Ein spurning til Dr. Gauta

Dr Gauti telur ógeðsdrykkinn Icesave greinilega girnilegri en harðfisk en væri hann þá kannski til í að flytja fljótlega heim frá New York og hefja skattgreiðslur á Íslandi með okkur hinum. Skuldirnar eru nægar til skiptana.