Hætta á eignaverðsbólu innan hafta

Screen Shot 2013-05-03 at 12.41.27 PMÍ nýrri skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðugleika kemur fram að vegna haftanna og takmarkaðra fjárfestingakosta innanlands safnist sparnaður heimila og fyrirtækja upp hjá bönkunum, fjárfestingasjóðum og lífeyrissjóðum:

“Þvinguðum sparnaði lífeyrissjóðakerfisins þarf að finna farveg þótt spurn eftir fjármagni sé takmörkuð. … Við þessar aðstæður skapast veruleg hætta á eignaverðhækkunum umfram það sem skýrist af væntri arðsemi. Slíkar innistæðulausar hækkanir ganga til baka fyrr eða síðar.”

Í janúar á þessu ári skrifaði ég pistil “Blásið í næstu bólu” þar sem ég benti einmitt á þessa hættu:

“Það er auðvitað mikilvægt markmið að hver kynslóð leggi í lífeyrissjóð fyrir sjálfa sig. Það er bara vandséð að sú kynslóð sem nú glímir við afleiðingar efnahagshruns og stökkbreytt íbúðalán hafi nokkurt bolmagn eða aðstöðu til að leggja í lífeyrissjóð hvað þá ávaxta hann með traustum hætti innan fjármagnshafta.”

Verði ekki brugðist við aðvörunarorðum Seðlabankans verður að telja líklegt að eignaverðsbólan haldi áfram að vaxa, þar til hún springur með hörmulegum afleiðingum fyrir lífeyrissjóðina og aðra sparifjáreigendur. Þegar það gerist munu þau iðgjöld sem  nú renna í sjóðina vera glötuð.

Er þá ekki skynsamlegra að leyfa launafólki og fyrirtækjum tímabaundið að halda eftir helmingi af lífeyrisiðgjöldum? Þetta gætu verið um 5 milljarðar á mánuði þar til höft væru afnumin. Megnið yrði eflaust notað til að grynnka á skuldum sem ekki er vanþörf á. En hluti færi í að auka hagvöxt og neyslu. Ný störf myndu skapast og skatttekjur ríkissjóðs aukast.

Vissulega þýddi þetta að “reiknaðar” eignir lífeyrissjóða myndu ekki vaxa eins hratt. En hvers virði er eignarhlutur í bólu sem mun nánast örugglega springa?