10 ábendingar um úrbætur á umgjörð þjóðaratkvæðagreiðslna

Inngangur
Undirritaður tók, ásamt fleirum, þátt í söfnun undirskrifta þar sem skorað var á forseta Íslands að vísa Icesave III lögunum til þjóðaratkvæðis. Í framhaldi af ákvörðun forsetans um að vísa málinu til þjóðarinnar tók undirritaður einnig þátt í málefnalegri baráttu fyrir því að kjósendur höfnuðu lögunum.

Eftirfarandi ábendingar eru því byggðar á beinni reynslu af ofangreindum verkefnum og eru settar fram í þeirri von að þær geti nýst við að bæta umgjörð þjóðaratkvæðagreiðslna hér á landi.

Lesa áfram „10 ábendingar um úrbætur á umgjörð þjóðaratkvæðagreiðslna“

Athugasemdir við Stöðuskýrslu Bankasýslu Ríkisins

Screen Shot 2016-01-12 at 21.33.31Í Stöðuskýrslu Bankasýslu Ríkisins varðandi eignarhald og sölu á Landsbankanum er fjallað um efnið frá ýmsum hliðum og er komist að þeirri niðurstöðu að rétt sé að hefja söluferlið. Í inngangi skýrslunnar er kallað eftir ábendingum um innihald skýrslunnar og hér koma mínar hugleiðingar um skýrsluna og niðurstöður hennar. Lesa áfram „Athugasemdir við Stöðuskýrslu Bankasýslu Ríkisins“

Ísland og Innviðafjárfestingabanki Asíu

signingceremonyMeð fjáraukalögum 2015 fékk fjármálaráðuneytið heimild til að skuldbinda ríkissjóð um 2,3 milljarða (USD 17.6 milljónir) vegna kaupa á hlut í Innviðafjárfestingabanka Asíu (IFBA). Í þingræðu um fjáraukalög mælti ég eindregið gegn þessari ráðstöfun enda er ávinningur af henni mjög óviss en auk fjárframlagsins krefjast samþykktir bankans þess að IFBA og starfsmenn fái sérstök fríðindi og undanþágur frá lögum og eftirliti. Vandséð er að veita megi slíkar undanþágur án sérstakrar heimildar Alþingis og slík heimild hefur ekki enn verið veitt. Þrátt fyrir heimildarleysi er Ísland í hópi 50 ríkja sem undirrituðu samþykktir IFBA í júní 2015. Lesa áfram „Ísland og Innviðafjárfestingabanki Asíu“

Vil ég fá áfengi í matvöruverslanir? (Þingræða)

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak. Verði frumvarpið að lögum mun sala á áfengi færast frá ÁTVR til matvöruverslana.

Ef gerð væri könnun meðal landsmanna og spurt, “Vilt þú geta keypt áfengi í matvöruverslunum?” þá myndu eflaust margir svara því játandi. En hverju þeir svara ef spurningin væri orðuð með eftirfarandi hætti:

Vilt þú geta keypt áfengi í matvöruverslunum, ef fjöldi rannsókna sýna að það muni leiða til aukinnar áfengisneyslu? Aukin neysla auki tíðni alvarlegra sjúkdóma eins og krabbameins, lifrarsjúkdóma, sykursýki. Rannsóknir sýna einnig að aukinni neyslu áfengis fylgir aukin tíðni umferðarslysa og einnig ofbeldis meðal annars gegn konum og börnum.

Ef spurningin er sett fram með þessum hætti hygg ég að flestir myndu telja afleiðingarnar of neikvæðar og leggjast gegn því að áfengi fari í matvöruverslanir. Lesa áfram „Vil ég fá áfengi í matvöruverslanir? (Þingræða)“

Lífeyrissjóðir, smá- og meðalstór fyrirtæki

Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar hefur skilað jákvæðu áliti um lagafrumvarp sem gerir lífeyrissjóðum heimilt að fjárfesta á markaðstorgi fjármálagerninga (MTF) en hér á landi er slíkt markaðstorg rekið undir merkinu First North.

Nefndin gerði þá breytingu á frumvarpinu að heimildin takmarkaðist við 5% af hreinni eign lífeyrissjóðs. Lífeyrissjóðir hafa til þessa haft heimild til að fjárfesta 20% af hreinni eign í verðbréfum óskráðra fyrirtækja en hún breytist ekki við þetta.  Lesa áfram „Lífeyrissjóðir, smá- og meðalstór fyrirtæki“

Andríki á villigötum

Glúmur Björnsson ritar pistil á andriki.is föstudag 10. janúar þar sem hann ýjar að því að frískuldamark bankaskatts hafi verið sérhannað til að hlífa MP banka við skattinum. Glúmur lætur að því liggja að Sigurður Hannesson, formaður skuldaleiðréttingarhópsins og starfsmaður MP banka, hafi komið skuldafrímarkinu á til að hlífa MP banka. Glúmur vegur ekki síður að heiðri efnahags- og viðskiptanefndar, segir nefndina hafi stokkið til á síðustu starfsdögum þingsins fyrir jól og laumað skattfrelsi fyrir suma inn í frumvarpið. Þetta er rangt hjá Glúmi.

Lesa áfram „Andríki á villigötum“

Pólitískir pistlar og hlutlægni RÚV

Hallgrímur Helgason rithöfundur hefur flutt pistla í menningarþættinum Víðsjá á RÚV. Pistlar Hallgríms þann 15. júlí (Nýr Framsóknaráratugur) og 22. júlí (Fulltrúi hagsmuna verður fulltrúi þjóðar). Pistlarnir eru óvægin ádeila á Framsóknarflokkinn sem Hallgrímur segir vera spillingarflokk.

Í þættinum Vikulokin á RÚV 20. júlí, þar sem ég og Hallgrímur vorum meðal gesta kom meðal annars til tals hvort RÚV væri heppilegur vettvangur fyrir pólitíska pistla af þessu tagi. Hallgrími fannst RÚV heppilegur vettvangur, nefndi meðal annars málfrelsi og þörf fyrir ádeilu á stjórnvöld, en ég benti á að gæta þyrfti jafnræðis hjá RÚV í pólitískum áróðri.

Í lögum um RÚV stendur að RÚV skuli í starfháttum sínum „Ábyrgjast að sanngirni og hlutlægni sé gætt í frásögn, túlkun og dagskrárgerð, leitað sé upplýsinga frá báðum eða öllum aðilum og sjónarmið þeirra kynnt sem jafnast.“

Samkvæmt því mætti álykta að ef einum gestapenna er boðið að flytja pistla um sín pólitísku sjónarmið á RÚV, þá eigi fulltrúum annara pólitískra sjónarmiða að veitast jöfn tækifæri hjá RÚV. Hallgrími leist bara vel á það.  Kannski er það líka skásta lausnin úr því sem komið er, þótt eflaust kunni einhverjir að sakna pistla um menningu og listir þegar pólitíkin tekur öll völd í menningarþættinum Víðsjá.

Svo fór spjallið að snúast um fréttir RÚV sem mörgum finnast ekki alltaf nógu hlutlægar. Í lögum um RÚV segir að Ríkisútvarpið skuli sinna lýðræðislegu hlutverki sínu m.a. með því að „Veita víðtæka, almenna og hlutlæga frétta- og fréttaskýringaþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar“. Talsvert hefur borið á efasemdum um að RÚV takist nógu vel að gæta hlutlægni. Á Facebook er umræðuhópur sem veitir RÚV aðhald í þessu efni. Í hópnum eru hátt í 400 meðlimir sem setja inn færslur nánast daglega.

Andi laganna um RÚV er alveg skýr, gæta skal hlutlægni í fréttum og fréttaskýringum. Vandinn er hinsvegar sá að það er alls ekkert eftirlit með því að svo sé. Enginn formlegur farvegur hjá RÚV fyrir kvartanir. Það er auðvitað ekki viðunandi.

Hjá BBC og víða á norðurlöndum er faglegt eftirlit með hlutlægni í fréttum- og fréttaskýringum. Slíkt eftirlit miðar hvorki að ritskoðun né skoðanakúgun heldur að hlutlægni í fréttamennsku. Markmiðið er að fyrirbyggja að þjóðarfjölmiðli sé misbeitt í þágu sérhagsmuna eða pólitískra afla.

Það hlýtur að vera í verkahring stjórnar RÚV að tryggja að stofnunin fari að lögum um RÚV og farið sé að lögum hvað varðar hlutlægni. Stjórn RÚV ber því að koma á virku eftirliti í því efni. Stjórnin gæti byrjað á að skoða hvernig slíku eftirliti er háttað t.d. hjá BBC og öðrum fjölmiðlum í þjóðareign. Um það fjallar til dæmis þessi skýrsla frá BBC Trust.

 

Er Drómi að brjóta lög?

Drómi er eignarhaldsfélag sem fer með eignasafn SPRON og Frjálsa. Í eignasafninu eru meðal annars lán sem SPRON og Frjálsi veittu viðskiptavinum sínum fyrir hrun. Þessir viðskiptavinir hafa ítrekað kvartað undan því að Drómi, sem er slitastjórnin, gangi lengra í sínum innheimtuaðgerðum en þær lánastofnanir sem eru í hefðbundnum rekstri.

Reynist þetta rétt, þarf að kanna hvort slitastjórn Dróma hafi þar með brotið lög. Með tilkomu 3. gr. laga 78/2011 bættist grein 101 a. við lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki í slitameðferð. Í þeirri grein kemur efnislega fram að Fjármálaeftirlitið beri að hafa eftirlit með rekstri fyrirtækja eins og Dróma. Ennfremur stendur í 1. mgr.: “Eftirlitið nær meðal annars til viðskiptahátta þess sem felur meðal annars í sér að framganga þess gagnvart viðskiptavinum skal vera í samræmi við það sem almennt tíðkast hjá fjármálafyrirtækjum með gilt starfsleyfi.”…”Fjármálaeftirlitinu er heimilt að beina kröfu til héraðsdóms um að víkja skuli slitastjórn frá í heild eða að hluta í þeim tilvikum þegar viðkomandi slitastjórn telst ekki hafa unnið störf sín í samræmi við 1. og 2. mgr. þessarar greinar eða eftir atvikum samkvæmt öðrum lagaákvæðum. Héraðsdómur skal taka málið til úrskurðar þegar í stað.”

Svo virðist sem Drómi hafi reiknað niður gengistryggð lán tiltekins hóps viðskiptavina sinna með fyrirvara. Fyrirvarinn setur þennan hóp einstaklinga í verulega óvissu um fjárhagslega framtíð sína. Ekki er vitað til þess að önnur fjármálafyrirtæki hafi gert samsvarandi fyrirvara við endurútreikning gengislána í samræmi við lög 151/2010. Viðskiptavinir Dróma eru því að þessu leiti í allt annari og verri stöðu en viðskiptavinir annara fjármálastofnanna.

Efnahags- og viðskiptanefnd hefur sent Fjármálaeftirlitinu bréf með spurningum varðandi þetta mál þar sem óskað er eftir svari eigi síðar en 3. júlí.

Sögulegur sigur Framsóknar

Kosningar 2013Framsókn hlaut 24.4% atkvæða og nítján þingsæti, jafnmörg sæti og Sjálfstæðisflokkurinn sem fékk 26,7% atkvæða. Í kosningunum árið 2009 fékk Framsókn aðeins 14,8% og níu þingsæti.

Leita þarf aftur til ársins 1979 til að finna svo góða útkomu Framsóknar á landsvísu, en í Reykjavík bætti flokkurinn verulega við sig og hefur ekki áður hlotið jafn mikið fylgi: 16,4% og tvö sæti í norður og 16,8% og tvö sæti í suður.