Andríki á villigötum

Glúmur Björnsson ritar pistil á andriki.is föstudag 10. janúar þar sem hann ýjar að því að frískuldamark bankaskatts hafi verið sérhannað til að hlífa MP banka við skattinum. Glúmur lætur að því liggja að Sigurður Hannesson, formaður skuldaleiðréttingarhópsins og starfsmaður MP banka, hafi komið skuldafrímarkinu á til að hlífa MP banka. Glúmur vegur ekki síður að heiðri efnahags- og viðskiptanefndar, segir nefndina hafi stokkið til á síðustu starfsdögum þingsins fyrir jól og laumað skattfrelsi fyrir suma inn í frumvarpið. Þetta er rangt hjá Glúmi.

Frískuldamarkið kom ekki inn á síðustu starfsdögum þingsins fyrir jól eins og Glúmur vill meina. Umsagnaraðilar um málið færðu á fundum nefndarinnar rök fyrir frískuldamarki. Þau rök koma t.d. fram í erindi Sambands íslenskra sparisjóða sem nefndinni barst í október.

Fjármálaráðuneytið og nefndin lögðu mikla vinnu í að bregðast við þeim fjölmörgu ábendingum og umsögnum sem komu til efnahags- og viðskiptanefndar vegna bankaskattsins. Fjármálaráðuneytið sendi nefndinni tillögur til úrbóta á mörgum þáttum frumvarpsins, þar á meðal var skattprósentan hækkuð og frískuldamarki bætt inn. Hér má sjá feril frumvarpsins.

Frískuldamark er fullu í samræmi við upprunalegan tilgang laga um bankaskatt

Í lögum 155 frá 2010 um bankaskatt stendur:

“Markmið þessara laga er tvíþætt, annars vegar að afla ríkinu tekna til að mæta þeim mikla kostnaði sem fallið hefur á ríkissjóð vegna hruns íslenska fjármálakerfisins, hins vegar að draga úr áhættusækni fjármálafyrirtækja með því að leggja sérstakan skatt á skuldir þeirra vegna þeirrar kerfisáhættu með tilheyrandi kostnaði sem áhættusöm starfsemi þeirra getur haft í för með sér fyrir þjóðarbúið.”

Frískuldamarkið, og rökin fyrir því koma fram í áliti meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar til 2. umræðu. Þar segir:

“Fyrir nefndinni var því sjónarmiði hreyft að sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki muni koma sérstaklega þungt niður á smærri fjármálafyrirtækjum og jafnvel, í einhverjum tilvikum, leiða til þess að einhver þeirra legðu upp laupana. Einnig kom fram það sjónarmið að minni fjármálafyrirtækjum fylgdi lítil kerfislæg áhætta og þau hefðu ekki bakað ríkissjóði jafn mikið tjón í hruninu og stærri fjármálafyrirtæki.”

Rökin fyrir frískuldamarkinu eru skýr og í samræmi við tilgang laganna. Það hefði ekki þjónað tilgangi laganna að láta þau fjármálafyrirtæki borga sem ekki bökuðu ríkissjóði tjón og voru of lítil til að valda kerfisáhættu. Þess má geta að bæði í Þýskalandi og í Bretlandi tíðkast frískuldamark á bankaskatt sem þar leggst á skuldir banka.

Fyrsti, annar og þriðji minnihluti nefndarinnar lögðu fram sérálit um frumvarpið, í þeim er fjallað um bankaskattinn en engar athugasemdir gerðar við frískuldamarkið sem meirihlutinn lagði til eða fjárhæð þess.

Frískuldamarkið kom inn í frumvarpið strax við aðra umræðu um málið. Þingið fékk því tækfæri til að ræða frískuldamarkið og fjárhæð þess við tvær umræður.

Ennfremur var atkvæði sérstaklega um frískuldamarkið og greiddu 55 þingmenn atkvæði með því.

Það er því ekki rétt, sem Glúmur ýjar að í pistli á Andriki.is, að frískuldamarkinu hafi á einhvern hátt verið hraðað sérstaklega í gegnum þingið. Frískuldamarkið er í fullu samræmi við upphaflegan tilgang laga um bankaskatt. Fjárhæð þess og útfærsla þess kom til efnahags- og viðskiptanefndar frá fjármálaráðuneytinu en ekki nefnd Sigurðar Hannessonar um leiðréttingu á skuldum heimilanna. Dylgjur Glúms Björnssonar eiga því ekki við rök að styðjast.