Lífeyrissjóðir, smá- og meðalstór fyrirtæki

Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar hefur skilað jákvæðu áliti um lagafrumvarp sem gerir lífeyrissjóðum heimilt að fjárfesta á markaðstorgi fjármálagerninga (MTF) en hér á landi er slíkt markaðstorg rekið undir merkinu First North.

Nefndin gerði þá breytingu á frumvarpinu að heimildin takmarkaðist við 5% af hreinni eign lífeyrissjóðs. Lífeyrissjóðir hafa til þessa haft heimild til að fjárfesta 20% af hreinni eign í verðbréfum óskráðra fyrirtækja en hún breytist ekki við þetta. 

Niðurstaða álits meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar er þessi:

“Það er mat meiri hlutans að auknar fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða á markaðstorgi fjármálagerninga verði til þess að auka fjölbreytni fjárfestingarkosta sem lífeyrissjóðum standi til boða á innlendum markaði. Þannig verði mögulegt að auka áhættudreifingu í eignasöfnum lífeyrissjóða.
Meiri hlutinn telur frumvarpið auðvelda lífeyrissjóðum að fjárfesta í smáum og meðalstórum fyrirtækjum sem lúta skarpari laga- og regluumgjörð. Það geti bæði bætt ávöxtun lífeyrissjóða og aukið hagvöxt. Þá bendir meiri hlutinn á að endanleg ábyrgð á fjárfestingum lífeyrissjóða liggur fyrst og fremst hjá stjórnum þeirra.
Skort hefur hvata fyrir smá og meðalstór fyrirtæki til að undirgangast kröfur MTF um gagnsæi og upplýsingagjöf en frumvarpið miðar að því að auka þann hvata.”

Rétt er að halda því til haga að einn þingmaður var mótfallinn því að lífeyrissjóðir fengju þessa heimild og hann skilaði séráliti í málinu. Það spunnust því nokkuð líflegar umræður um málið.