Auroracoin peningasvindl?

aurlogo6Mbl.is flytur fréttir af áformum óþekktra en ákaflega góðhjartaðra aðila sem hyggjast gefa sérhverjum Íslendingi 31.8 auroracoin þann 25. mars næstkomandi. Íslendingar geti þá notað Auroracoin sem gjaldmiðil í staðinn fyrir krónur. Þannig verði þjóðin laus undan „gjaldeyrishöftum og útþynningu gjaldmiðilsins“.

Ýmislegt bendir samt til þess að hér sé um að ræða peningasvindl og brot á lögum. 

Allt frá því Bitcoin spilapeningarnir komu fram á sjónarsviðið hafa álíka gervimyntir sprottið upp eins og gorkúlur. Enda er eftir miklu að slægjast fyrir forsprakkana, takist þeim að sannfæra almenning um að meðtaka þessa tilbúnu spilapeninga sem gjaldmiðil.

Auroracoin markaðssetningin virðist ganga út á að gefa sem flestum Íslendingum 31,8 Auroracoin. Planið er að íslenskur almenningur fari þá að nota Auroracoin sem gjaldmiðil í viðskiptum sín á milli, eða til að geyma lausafé. Gefið er í skyn á vefsíðu Auroracoin að upplag spilapeninganna verði takmarkað í upphafi og það muni síðan vaxa hægt. Þannig er gefið í skyn að framboð aukist hægar en eftirspurn og verðið muni því fara hækkandi.

Upplýst er að í mars næstkomandi fari í umferð allt að 10.5 milljónir Auroracoin hér á Íslandi. (330.000 x 31,8).

En það veit enginn hverjir standa að baki Auroracoin og enginn veit hvað mörg Auroracoin þeir geyma handa sjálfum sér. Nafnleyndin er varla ástæðulaus og vekur grunsemdir um að þetta sé ólöglegt svindl.

Svona gæti svindlið verið: Auroracoin menn búa til 10.5 milljónir Auroracoin og bjóða hverjum Íslendingi sem vill að sækja sér 31,8 Auracoin. Gefum okkur að þetta slái í gegn og 100.000 manns þiggi samtals 3,18 milljónir Auracoin gefins. Ef almenningur á Íslandi fer í framhaldi að nota Auroracoin í viðskiptum af einhverju ráði þá getur verðið á því hækkað eins og hefur gerst með Bitcoin.

Gefum okkur að verð á 1 Auroracoin nái 100 kr. Þá væru þessi 7,82 m Auroracoin sem upphafsmennirnir geymdu handa sjálfum sér orðin virði 782 milljóna í krónum. Þá gætu þeir í rólegheitum selt þau. Auðvitað gæti gróðinn verið miklu minni, en samt auðveldlega einhverjir tugir milljóna.

Ef þetta er svindl, hverjir tapa?

Þeir tapa sem sitja uppi með óseljanleg Auroracoin ef kerfið hrynur, ef lögbann er sett á starfsemi þess, eða eftirspurn eftir Auroracoin dregst saman af einhverjum ástæðum. Gengi Bitcoin hefur verið gríðarlega óstöðugt og vart ástæða til að ætla að gengi Auroracoin verði stöðugra.

Seðlabankinn gæti einnig orðið af einhverjum mynsláttuhagnaði ef Auroracoin nær að koma í staðinn fyrir seðla og mynt í einhverjum mæli.

Líklega eru áform Auroracoin brot á gjaldeyrislögum og lögum um seðlabanka. Í 5. gr. laga um Seðlabanka stendur: „Seðlabanki Íslands hefur einkarétt til þess að gefa út peningaseðla og láta slá og gefa út mynt eða annan gjaldmiðil sem geti gengið manna á milli í stað peningaseðla eða löglegrar myntar.

Á vefsíðunni auroracoin.org er rætt um bankahrunið og fjármagnshöft og gefið í skyn að með því að nota Auroracoin sé vandi almennings á Íslandi leystur. Peningaþensla sé þá úr sögunni og fjármagnshöftin líka. Þeir gleyma að minnast á óstöðugleika Bitcoin enda væri það veikur punktur. En það er ekki nóg að dreifa Auroracoin til að uppfylla loforð um bjartari framtíð. Það er frekar ólíklegt að verslanir eða fólk almennt vilji taka við ólöglegum spilapeningum sem greiðslu. Líkurnar á því að það gerist í einhverjum mæli eru litlar.

Auroracoin verður varla meira en ólögleg jaðarmynt hér á landi – en ef almenningur lætur blekkjast til að nota Auroracoin í verulegum mæli, gæti það dugað til að skapa mikinn gróða fyrir forsprakkana.

[Breyting 7. febrúar kl 16:55. Fékk ábendingu um að stofnendur geti ekki búið til Auroracoin án þess að aðrir notendur viti af því. Sé það rétt, þá minnkar svigrúm stofnenda til að svindla á notendum en það hverfur ekki. Því ef stofnendur eignast þann hluta af upphafspottinum sem almenningur sækir ekki, þá geta þeir grætt verulega á þeim hluta.]