Alaska greiðir íbúum auðlindaarð

Alaska_in_United_States_(US50).svgÍbúar Alaska fá árlega greiddan út arð úr auðlindasjóði ríkisins. Arðgreiðslan er breytileg frá ári til árs en hefur yfirleitt verið á bilinu 120 – 240 þúsund kr á hvern íbúa.

Alaska er afar ríkt af auðlindum. Olíulindin í Prudhoe Bay gefur sem dæmi um 400 þúsund tunnur af olíu á dag og er afkastamesta olíulind í Norður Ameríku. Alaska á einnig mikið af gasi, kolum, málmum og ágæt fiskimið.

Árið 1956 þótti ástæða til að setja nýtt ákvæði í stjórnarskrá Alaska. Löggjafanum bæri að sjá til þess að nýting, þróun og varðveisla allra náttúruauðlinda sem tilheyrðu fylkinu, þar á meðal land og vötn, miðaði að hámörkun ábata fyrir fyrir íbúa fylkisins.

Árið 1976 tóku íbúar Alaska þátt í kosningu um stofnun auðlindasjóðs. Ákveðið var að auðlindasjóðurinn fengi að minnsta kosti fjórðung af þeim tekjum sem ríkið aflaði árlega með námaleyfum og auðlindagjöldum sem fóru á þeim tíma hraðvaxandi.

Markmið auðlindasjóðsins var þríþætt. Hann myndi fjárfesta í eignum sem gætu skilað arði til lengri tíma. Þannig að þegar tekjur fylkisins af olíuvinnslu myndu fjara út í framtíðinni, fengjust áfram tekjur af sjóðnum til að mæta ríkisútgjöldum. Framlag í sjóðinn myndi veita stjórnvöldum aðhald, annars væri hætt við að þau myndu sólunda arðinum af auðlindum jafn óðum og hann yrði til. Sjóðurinn myndi færa komandi kynslóðum Alaska arð af óendurnýjanlegum náttúruauðlindum og hann yrði sjálfur endurnýjanleg uppspretta tekna í framtíðinni.

Alaska hafði ekki búið við mikinn stöðugleika í hagkerfinu en með tilkomu auðlindasjóðsins mátti draga úr þeim sveiflum sem stöfuðu frá auðlindum.

Deilt var um fjárfestingastefnu sjóðsins. Sumir vildu að sjóðurinn myndi fjárfesta í þróunarverkefnum innan fylkisins til að knýja efnahag þess áfram. Aðrir vildu að sjóðurinn myndi stefna að hámörkun ávöxtunar án þess þó að taka of mikla áhættu. Það sjónarmið varð ofaná, en þrátt fyrir það hafa eignir sjóðsins sveiflast töluvert. Eignir sjóðsins voru metnar á 40 milljarða dollara fyrir hrun en ekki nema 26 milljarða eftir hrun.

Aðeins bandarískir ríkisborgarar sem búsettir eru í Alaska allt árið eiga tilkall til arðgreiðslu úr sjóðnum. Sækja þarf árlega um arðinn en hann getur verið umtalsverð búbót, ekki síst fyrir barnmargar fjölskyldur. Fimm manna fjölskylda væri þannig að fá hátt í milljón kr í arð á ári.