Er hægt að ganga úr Evrópusambandinu?

senso Aðildarsinnar virðast ekki hafa sérlega miklar áhyggjur af því hvort það sé yfirleitt hægt að ganga úr Evrópusambandinu. Flestir telja útgöngu vel mögulega og vísa í úrsagnarákvæði Lissabon sáttmálans og telja málið þar með afgreitt.

Úrsagnarákvæðið
Lissabon sáttmálinn er ótímabundinn, en í 50. grein sáttmálans er úrsagnarákvæði. Samkvæmt ákvæðinu getur aðildarríki tilkynnt úrsögn einhliða og tekur úrsögnin þá gildi innan tveggja ára, nema um annað semjist.
Samkvæmt 50. grein skal semja við útgönguríkið um úrlausnarefni í tengslum við útgönguna og gera framtíðarsamning við ríkið. Greinin segir ekkert um réttindi útgönguríkisins en vísar þess í stað til greinar 218 (3) sem fjallar almennum orðum um milliríkjasamninga sambandsins við önnur ríki. Því má segja að það ríki alger óvissa um þau kjör sem útgönguríkinu myndu bjóðast.
Þótt 50. gr. segi fátt, og ekkert sem tryggir hag útgönguríkisins, þá er ákvæði um að vilji útgönguríki síðar ganga aftur inn, þurfi það að sækja um og semja um aðild eins og hvert annað ríki sem óskar eftir aðild.
Andstætt hagsmunum Evrópusambandsins
Það gætu vaknað óþægilegar spurningar um sjálfan tilverurétt Evrópusambandsins, ef ríki sem gengi út myndi upp frá því taka að blómstra sem aldrei fyrr. Það væri því andstætt hagsmunum Evrópusambandsins að dekra við útgönguríki með hagstæðum útgönguskilyrðum eða góðum viðskiptakjörum til frambúðar.
Engir milliríkjasamningar
Ísland hefur gert viðskiptasamninga við fjölda ríkja og er aðili að evrópska efnahagssvæðinu (EES). Við inngöngu í Evrópusambandið falla þessir milliríkjasamningar Íslands úr gildi. Við útgöngu úr Evrópusambandinu myndi Ísland því þurfa að semja á nýjan leik við fjölda ríkja til að komast aftur í sömu stöðu. Það gæti tekið áratugi. Hvað varðar EES samninginn er algerlega óvíst að Ísland gæti fengið aðild að honum aftur.
Afleiðingar aðildar verða ekki aftur teknar
Innganga í ESB mun hafa mjög víðtækar afleiðingar, ekki síst í sjávarútvegi og landbúnaði. Forsendur margra atvinnugreina munu breytast og þær munu laga sig að styrkjakerfi sambandsins og viðskiptaumhverfi. Ekki er hægt að útiloka að með tímanum yrði slakað á núgildandi hömlum á eignarhaldi erlendra aðila í sjávarútvegi eða á auðlindum.
Við útgöngu úr ESB þyrfti atvinnulífið aftur að aðlagast breyttum aðstæðum og leggja á sig kostnaðarsama aðlögun. Einkum er erfitt að sjá fyrir sér hvernig væri hægt að vinda ofan af eignarhaldi erlendra aðila á innlendum auðlindum, ef til þess kæmi.
Upptaka evru lokar útgönguleiðum
Hafi útgönguríki lagt niður eigin gjaldmiðil og tekið upp evru, þarf það við útgönguna að leita samninga við Evrópusambandið um áframhaldandi aðild að myntsamstarfinu. Það er hins vegar erfitt að sjá hvaða hag Evrópusambandið hefði af því að leyfa slíka aukaaðild.
Útgönguríki gæti varla tekið upp sjálfstæða mynt á nýjan leik, nema hagkerfi þess væri það sterkt að markaðir hefðu meiri trú á nýju myntinni en evrunni. Að öðrum kosti væri fyrirsjáanlegt að nýja myntin myndi veikjast gagnvart evru. Allir sem vettlingi gætu valdið myndu þá senda evrur sínar úr landi áður en þeim yrði skipt í nýja mynt. Hætt er við að fjármagnsflótti myndi bresta á strax við úrsögn úr sambandinu.
Niðurstaða
Því verður ekki neitað að úrsögn úr Evrópusambandinu er tæknilega fær en hún er einfaldlega svo erfið að hún getur vart talist raunhæfur valkostur. Hafi aðildarríki innleitt evru eru yfirgnæfandi líkur á að úrsögn myndi leiða til meiriháttar efnahagsáfalls.
Af þessu leiðir að aðildarríki Evrópusambandsins munu láta ýmislegt yfir sig ganga fremur en að freista útgöngu. Nýlega samþykktu smærri aðildarríkin að láta af hendi 60% af atkvæðarétti sínum í ráðherraráðinu og misstu einnig neitunarvald í 68 málaflokkum. Óskiljanlegt er hvernig þau gátu fallist á slíka breytingu þegjandi og hljóðalaust.
Það ætti öllum að vera ljóst að gangi Ísland í Evrópusambandið verður ekki aftur snúið. Hvort sem sambandið þróast til betri eða verri vegar í framtíðinni, þurfa komandi kynslóðir að sætta sig við aðild sem orðinn hlut.
Tíminn til að efast um aðild er því núna, en ekki eftir inngögu, ef til hennar kemur.